Wednesday, December 22, 2010

22. desember

Nú stefnir í það að ég hjóli ekki mikið meira á þessu ári, nema heim úr vinnu í dag. Hugsanlega í fyrramálið. En þá verður líka komið að uppgjöri ársins eftir áramót. Spennandi!?

Tuesday, December 21, 2010

21. desember

Ja hérna, það eru bara alveg að koma jól.Stysti dagur ársins í dag og tunglmyrkvi í morgun. Ekki lítið huggulegt. Ég hafði tunglið á vinstri hönd og svo beint framundan svo ég naut þess að horfa á þessa rauðbleiku jólakúlu alla leiðina. Það var líka frost en kom á óvart hvað það beit lítið í andlitið. Sennilega lágt rakastig.
En mér var lítið kalt, aðallega á tánum. Fór í ullarbolinn í morgun og setti eyrnaband yfir eyrun, utanyfir lambhúshettuna. Það virkaði snilldar vel.

Monday, December 20, 2010

20. desember

Ég gerði smá hlé í síðustu viku vegna óreglu í vinnu og félagslífi.
Veit ekki hversu góð ástundun verður í þessari viku, Þorláksmessa og reyndar spáir miklum kulda á morgun. Spurning hvort maður tekur það eða ekki.
Mér finnst rannsóknin mín hafa leitt í ljós að kuldi er í raun meira hamlandi á hjólreiðar en vindur þ.e.a.s. hæfilega hlýr vindur.

Wednesday, December 15, 2010

15. desember

Þessi hlýindi eru ósköp næs á árstíma sem býður oft upp á frost og kulda. En þetta er ekki beint jólalegt eða þannig. Stefnir ótrautt í rauð jól. En fyrir hjólamenn þá er betra að hafa hlýindin.Jólin eru hið innra.

Tuesday, December 14, 2010

14. desember

Það er kominn 14. desember og aðeins um tvær vikur þangað til árinu verður lokað á hjólablogginu. Miðað við undanfarna daga þá verður væntanlega ekki eins mikið um blogg árið 2011 enda verður þá ekki lengur markmiðið að blogga daglega.

Monday, December 13, 2010

13. desember

Vegna misgóðrar lýsingar á stígunum þá á maður oft á hættu að sjá ekki yfirborðið. Oftar en einu sinni hef ég lent í því að hjóla á harðan köggul eða stein á stígnum, sem ég sé ekki vegna myrkurs. Ljósin á hjólinu eru að öllu jöfnu nánast gangslaus í þessu samhengi þar sem þeirra hlutverk er fyrst og fremst að gera mann sýnilegan en ekki til að bæta vegsýn. Það er nefnilega ansi dimmt víða á stígum þessa dagana.

Friday, December 10, 2010

10. desember

Þessi hláka með sínu myrkri, bleytu og vindi er svosem allt í lagi. Það er hlýtt og notalegt.

Thursday, December 9, 2010

9. desember

Hlákan tók öll völd í nótt og hálka og ís voru horfin í morgun. Það verður að segjast eins og er að það er ansi mikið léttara að hjóla ef maður þarf ekki að klæða sig fyrir frost. Sennilega er það ekki síður áhrifavaldur en vindurinn.

Wednesday, December 8, 2010

8. desember

Það var kominn tími á að dæla í dekkin og ég fór á sjálfvirku dæluna á Olís við Suðurlandsbraut. Ég er með franskan ventil og því þarf ég millistykki til að dæla með bílpumpu. Yfirleitt þarf að nota stillingu eins og um sprungið dekk sé að ræða til að dælan taki við sér en stilla jafnframt á þrýstinginn sem maður vill hafa í dekkinu. Þá á þetta að ganga stóráfallalaust fyrir sig. En maður hefur óneitanlega á tilfinningunni að þetta geti sprengt slönguna bara sisona. Þetta gerir maður ef ekki er til almennileg pumpa með þrýstingsmæli á heimilinu.

Tuesday, December 7, 2010

7. desember

Mun hlýrra í dag en ansi var kalt á leiðinni heim í gær.

Svona þegar maður hugsar um það þá annað hvort hætti ég að blogga á næsta ári eða þá að ég verð fræðilegri þá, skoða gögn varðandi hjólreiðar og læt gamminn geisa um þau. Spái í það. Stundum hefur maður mjög lítið að segja og hver dagur verður öðrum líkur. Hins vegar stefni ég á skýrslu þar sem árið 2010 verður gert upp í heild sinni.

Monday, December 6, 2010

6. desember

Helv kalt í morgun, um 7 stiga frost. Það er kaldasti dagurinn í haust held ég.

Thursday, December 2, 2010

2. desember

Aftur komið frost og hálka. En þetta vindleysi er hreint snilld.

Wednesday, December 1, 2010

1. desember

Fullveldisdagurinn í allri sinni dýrð. Rigning og myrkur að morgni.
Til gamans birti ég hér að neðan vindgögn hingað til á árinu. Nóvember raðar sér í flokk með júlí þar sem meðalvindhraði er 3,3 m/s en í nóvember var nánast sami vindhraði til og frá vinnu en það er óvenjulegt. Ríkjandi vindátt var norðaustanátt. Meðalhraði var með því lægsta sem ég hef mælt á árinu, bæði til og frá vinnu eða svipað og í febrúar. Meðalhraði til vinnu var 22 km/klst en 19 km/klst heim. Þessi litli munur skýrist væntanlega af ríkjandi norðaustanátt.

Tuesday, November 30, 2010

30. nóvember

Ansi launhált í gærkvöldi og í morgun. Í myrkri og bleytu sáust ekki skilin milli hálku og malbiks og stundum var eina vísbendingin um hvort væri, hljóð eða hljóðleysi í nöglunum. Þeir þagna um leið og komið er á hálku en gefa frá sér hátt surghljóð á malbikinu.

Monday, November 29, 2010

29. nóvember

Jæja, kominn í 3000 km á árinu til og frá vinnu. Held það sé bara ágætt. Keyrandi sömu vegalengd myndi kosta mig rúmar 60 þús kr altso á þessum bíl sem ég á. Svo spara ég mér kostnað við líkamsrækt, sem heyrist mér vera talsverður. Alls hef ég hjólað 161 dag á árinu so far og að meðaltali var ég 23 mín í vinnu og 27 mín heim.

Friday, November 26, 2010

26. nóvember

Miðað við að ég klári nóvember með sóma þá verður þetta sennilega besti ástundunarmánuðurinn á árinu. Það eru þegar komnir 19 hjóladagar í nóvember og janúar. Og á mánudag, að því gefnu að ég hjóli þá, þá næ ég 3000 km á mælinn til og frá vinnu þetta árið. Það verður að segjast eins og er að það hvetur mann áfram að halda svona dagbók um þetta hjólastand. En það verður líka að hafa í huga að þetta er náttúrulega hámarks nörd hegðun.

Thursday, November 25, 2010

25. nóvember

Það datt út hálfur dagur hjá mér en nóvember er annars búinn að vera góður. Veðrið er bara frábært, lítill vindur og svalt.

Tuesday, November 23, 2010

23. nóvember

Logn er sjaldgæft á Íslandi, hvað þá í Reykjavík. Það var hins vegar logn í morgun og indælt veður í flesta staði. Dálítil hálka og tunglið glampaði í ísnum. Fjölbreytt umferð á leiðinni og það er reynslan að flestir haga sér eins og það séu ekki aðrir á ferð um stígana. Hvort sem fólk er hjólandi eða gangandi þá sikk sakkar það þvers og kruss um stíginn. Ætli maður að taka frammúr þarf verulega að gæta að sér og oft að fara út fyrir stíginn.
Framkvæmdir við stíg sem tengir Miklubrautarbrúna við Suðurlandsbraut eru enn í gangi og lítið gert til að greiða leið vegfarenda. Þvert á móti var stór malarhrúga á miðjum stíg, sem sést illa í myrkrinu. Vafalítið hefur einhver hjólað inn í hrúguna í morgun. Þarna eru engar ráðstafanir gerðar til að leiða fólk framhjá framkvæmdunum. Í gær var verið að hefla og aðeins fær leið utan stígsins, í beði eða út í gras. Mér finnst þetta frekar slappt.

Monday, November 22, 2010

22. nóvember

Ansi dimmt í morgun og allt hrímað en yndislegt veður. Ég hélt ég yrði keyrður niður í Skógarselinu en slapp. Þar eru vond gatnamót sem eru hættuleg á morgnana í þessum skilyrðum. Sýnileiki hjólreiðamanns í umferðinni er eitthvað sem ekki á að treysta á. Í myrkrinu nær maður ekki augnkontakt við bílstjóra og veit því ekki hvort hann hefur séð mann eða ekki. Það getur því komið fyrir að hann er stopp en leggur svo af stað á versta tíma. Þetta er eitthvað sem við hjólreiðamenn þurfum einfaldlega að vita og kunna að meta. Það er varla hægt að verða meira sýnilegur en ég er, með gott ljós og í áberandi endurskinsvesti. Götulýsingin er ekki verri þarna en gengur og gerist. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að gagnstéttarnar á þessu svæði séu fullt eins hættulegar þar sem þær þvera mjög oft götur.

Friday, November 19, 2010

19. nóvember

Snilldar veður núna. Hlýtt og notalegt. Óþægindin á leiðinni voru einkum myrkur og fáránlegar framkvæmdir við brúnna yfir Miklubraut. Þar er búið að taka malbikið af stígnum og stígurinn skilinn eftir með hæðum og hólum, illa upplýstur. Eitt viðvörunarmerki staðsett þar sem maður dettur niður af malbikinu í mölina. Ekki vel að þessu staðið.

Thursday, November 18, 2010

18. nóvember

Ef ég skoða hraðagögnin hjá mér þá er nóvember hingað til hægasti mánuðurinn minn síðan um síðustu áramót. Þetta kemur á óvart þar sem vindur hefur ekki verið mikið til trafala og færið alveg þokkalegt. Formið sem ég er í sjálfur ætti að vera í nokkuð góðu standi. Þá er spurning hvað veldur þessu. Dagsformið er eitt en það gildir yfirleitt bara í einn dag. Kannski hef ég verið meira klæddur. Reyndar hefur norðanátt verið ríkjandi í mánuðinum. Það veldur því að ég er í mótvindi helming leiðarinnar í vinnuna og helming leiðarinnar heim. Síðasta vetur voru austlægar og suðaustlægar áttir ríkjandi og þær eru erfiðastar á heimleiðinni en ekki eins kaldar enda var ekki oft frost þá. Ég hef komist að því að köld og sterk norðanátt er versta áttin. Þegar hún er á móti þá dregur hún úr manni mátt með kuldanum auk vindáhrifa. Einn hægasti og erfiðasti dagurinn minn hingað til var 15. febrúar en þá var norðvestan 9 m/s og 2,6 stiga frost. Hægari dagar voru bara ef færð var mjög slæm vegna snjóa.

Wednesday, November 17, 2010

17. nóvember

Manndrápshálka í morgun, allt malbik húðað með ísingu. Hefði ekki viljað reyna þetta án nagladekkja.
En ég hjólaði frá Hótel Sögu og heim í gær. Það er kominn nýr stígur austan Nauthólsvíkur, tvöfaldur hjólastígur. Þannig að það safnast í sarpinn. Tengingin yfir Hafnarfjarðarveg/Kringlumýrarbraut og inn í Fossvogsdal finnst mér alltaf klúðursleg. Ef maður kemur vestan frá, af fínum hjólastíg, þá er örmjó gangstétt meðfram götunni og ekki nóg með það heldur eru ljósastaurar á miðri gangstéttinni (hér er mynd af þessu horft í vestur). Aukinheldur er brekka upp og síðan strax aftur niður. Þarna þarf að breyta legu stígsins svo hæðarbreytingin sé tekin af. En þar er væntanlega við lóðareigendur að eiga.

Tuesday, November 16, 2010

16. nóvember

Rigning og rok í morgun, megnið af klakanum farið. Ég var alltof mikið klæddur og varð kófsveittur. Það var frekar létt að hjóla með vindinn að hluta í bakið. Verður erfiðara heim.
Ég hef velt því fyrir mér hvort þeir sem almennt ráða hvort peningar eru settir í hjólabrautir haldi að hjólastígar á höfuðborgarsvæðinu séu bara fínir. Held reyndar að þetta sé raunin.

Monday, November 15, 2010

15. nóvember

Kalt var í efri byggðum í morgun. En hlýnaði eftir því sem neðar dró. Myrkrið er svart og á köflum er eins og maður sé með bundið fyrir augun. Ekki síst þegar maður fer af stíg sem er vel upplýstur yfir á kafla sem er illa lýstur.

Friday, November 12, 2010

12. nóvember

Ansi harður mótvindur á kafla í morgun, sérstaklega í trektinni úr Seljahverfi niður í Mjódd. Þar myndast vindtrekt af byggðinni sem safnar öllum vindi saman í annað hvort sunnan eða norðanátt. Annar staður þar sem byggingar gera manni erfitt fyrir er í Sóltúninu. Þar eru háar byggingar og miklar vindhviður á milli þeirra, erfitt að lesa í hvaðan vindurinn muni næst koma. Þetta á að vera heilmikil pæling við skipulag en hefur held ég gleymst illilega sumsstaðar hér á landi. Þetta er t.d. einn ókostur við Höfðatún þar sem er ægilega vindasamt.
Þetta leiðir allt að því sem ég var að hugsa í morgun að það þarf almennt að hafa trjágróður með hjólastígum á Íslandi ef vel á að vera. Tré mynda ekki samskonar trekt og byggingar og slá alltaf á vindinn, sama úr hvaða átt hann blæs. Þetta getur stangast á við markmið útsýnis en sé um að ræða samgöngubraut þá skiptir útsýni ekki máli nema vegsýn. Þarna kom semsagt innleggið frá mér í dag, trjágróður meðfram hjólastígum.
Við þetta er að bæta að vindurinn er sennilega ein ríkasta ástæðan fyrir því að fólk hjólar ekki á Íslandi. Hér er nánast alltaf vindur og hann er mjög fín afsökun fyrir að hjóla ekki. Enda getur hann verið ansi hvimleiður þegar hann er upp á sitt besta.

Thursday, November 11, 2010

11. nóvember

Nóvembermorgnarnir eru svartir. Götulýsing er því mjög æskileg með stígunum, svo maður sjái helstu fyrirstöður, sem þar geta verið. Mér sýnist hins vegar að Orkuveitan sé að spara hér eins og víðar. A.m.k. hefur verið slökkt ansi lengi á tveimur ljósastaurum í Elliðaárdal. Mig grunar reyndar að lýsingargleðin hafi verið mikil á tímabili og kannski óþarflega stutt milli staura en það afsakar ekki að hafa sprungna peru í staurum á vondum stað mánuðum saman.

Wednesday, November 10, 2010

10. nóvember

Ætli það sé almennt þannig að nóvember líði mjög hratt. Það er strax kominn 10. nóvember og hann er nýbyrjaður. Í fyrra leið hann líka mjög hratt en þá var ég í fæðingarorlofi.
Ég ræddi við mann í gær sem sagði að hjólreiðamenn væru svolítið bilaðir. Ástæðan var að þeir voru margir ljóslausir og sæjust mjög illa í umferðinni. Og ætluðust síðan til þess að tekið væri tillit til þeirra. Það er nefnilega ekki hægt ef þeir sjást ekki. Því miður er talsvert til í þessu og oft mætir maður hjólreiðamönnum með lítið eða ekkert ljós. Þetta er síður en svo gáfulegt. Við ræddum líka hvort tryggingafélög gætu haft áhuga á að splæsa vestum á hjólreiðamenn. Ég efast um að þau hafi sérstakan áhuga á því enda yrði um talsverð fjárútlát að ræða af þeirra hálfu. En samfélagslegur kostnaður af slösuðum hjólreiðamanni er gríðarlegur, því það er mikil hætta á að hann slasist illa ef keyrt er á hann. Gul endurskinsvesti eru stórfínn fylgihlutur reiðhjóls. Persónulega get ég mælt með Craft vestunum sem eru mjög þunn og létt. Þau má nota allan ársins hring. Vestin í Erninum kosta um 2000 kall en þau eru held ég þykkari. Craft vestin eru til í Markinu og kosta talsvert meira.

Tuesday, November 9, 2010

9. nóvember

Fór yfir 3000 km markið á árinu í gær á þessum hraðamæli. Þá er allt meðtalið, líka utan vinnuferða. Ef maður vill þá getur maður reiknað það yfir í bensín eða olíu. Þetta eru um 300 lítrar miðað við minn bíl. Þeir kosta í dag um 60 þús kall. Svo hef ég sleppt því að kaupa kort í ræktinni. Það kostar víst eitthvað líka. En á móti hefur komið smáræðis viðhald. Það eru reyndar nokkrir þúsundkallar á þessu ári, skipti um keðju og afturkrans, tvisvar um bremsupúða, framskipti og eitt og annað smáræði.

Monday, November 8, 2010

8. nóvember

Það var orðið að mestu autt í morgun en þó svell hér og þar á leiðinni. Mitt fyrsta verk var að stoppa á N1 og bæta lofti í dekkin. Það var átakanlega erfitt að hjóla enda notaði ég litlu pumpuna til að dæla í nagladekkin. Mikið viðnám þegar of lítið er í dekkjunum. Nú er þetta allt annað líf. En ég klæddi mig heldur mikið, var þungur og sveittur en komst þó á leiðarenda.

Friday, November 5, 2010

5. nóvember

Fallegt veður í morgun, logn og frost, sem er oft dálítið kalt á nefið. Seinnipartinn í gær var búið að skafa flesta stíga, misvel þó. Ég verð að hrósa þeim sem skóf stíginn með Stekkjarbakka og í Elliðaárdal, þar hefur hann eða hún náð að mynda slétt yfirborð sem mjög auðvelt er að hjóla. Það er því miður ekki hægt að segja um aðra stíga þar sem skilið er eftir hart og óslétt lag á stígnum. Það er sem sagt ekki nóg að skafa heldur þarf að gera það vel.

Thursday, November 4, 2010

4. nóvember

Fyrsti snjórinn þetta haustið. Bara frekar þungt færi en ekki óbærilegt. Ekki búið að moka neitt á leiðinni þannig að bæjarfélögin Reykjavík og Kópavogur fá ekki prik í dag. Hins vegar kom mér á óvart hversu mikil hjólaumferð hefur verið í morgun. Á undan mér hafa farið á milli 30 og 40 hjól og vafalítið áttu nokkrir eftir að fara. Þetta á við um leiðina frá Sprengisandi, yfir Miklubraut og meðfram Suðurlandsbraut. Auðvelt að telja förin í snjónum. Það má hugsa þetta svona: Fólk hyggst hjóla í vetur í fyrsta skipti. Ok, einu sinni snjór er ekki svo slæmt, gef þessu séns. En svo er ekkert mokað og færið er afleitt. Æi, ég hætti þessu bara, tek frekar bílinn.
Þetta er nú held ég mjög oft aðferð mannsins við að taka ákvarðanir. Ábyrgð bæjarfélaganna er því mikil, sé ætlun þeirra að stuðla að meiri hjólreiðum eða minni bílaumferð.

Wednesday, November 3, 2010

3. nóvember

Ansi kalt í morgun. Áfram norðan mótvindur og frost. Þá er best að vera vindheldur og gott að setja buff utanyfir lambhúshettuna á viðkvæmum stöðum. Við þessar aðstæður set ég buffið yfir eyru og vit. Það er pínulítið gat á öðrum vettlingnum og það er mjög áberandi kaldasti staðurinn á hendinni eftir hjólatúrinn. Vindþéttar buxur eru ráðlegar þegar er svona kalt. Annars verða liðamót stirð og nárinn ískaldur. Sem sagt klæða sig eftir aðstæðum.

Tuesday, November 2, 2010

2. nóvember

Skipti yfir á nagladekk að framan í morgun og talsverð hálka víða á leiðinni. Framdekkið gerir góða hluti eitt og sér, það reynir ekki nærri eins mikið á afturdekkið fyrr en þarf að spyrna sér upp brekkur eða í vondu færi eins og slabbi eða snjó. En afturdekkið fer sennilega undir í kvöld.
Annars var skítakuldi í morgun með norðanátt. Samt ofan við frostmark. Þó suðaustanáttin sé stundum leiðinleg þá er hvöss norðanátt verri því henni fylgir svo mikill kuldi.

Monday, November 1, 2010

1. nóvember

Dagurinn byrjaði með slabbi í efri byggðum sem svo breyttist í bleytu neðar. Það slapp sumsé við alvarlega hálku enda fórst fyrir að skipta yfir á naglana. Það kom ekki að sök. Nóvember leggst hins vegar oft betur í mig en október, held það sé bara nafnið sem er einhvern veginn jákvæðara í mínum huga. Svo er reyndar mikið um afmæli í fjölskyldunni í nóvember, það kannski gerir mánuðinn skemmtilegri.

Friday, October 29, 2010

29. október

Í dag er síðasti dagurinn sem ég hjóla til vinnu í október. Þetta er fallegur dagur og veður gott.
Ég man ekki alveg hvað ég var að hugsa á leiðinni en það er nú frekar algengt. Hins vegar brýt ég stundum um það heilann hvort ég sé í raun annars hugar þegar ég hjóla vegna eigin vangaveltna. Því oft kemur eitthvað upp í hugann þegar hjólað er, ekki síst ef maður hjólar oft sömu leið. En það er held ég ekki svo því ég spái mikið í smáatriði á leiðinni, hvort þessi pollur er frosinn þennan morguninn, hvort kanínurnar eru nú vaknaðar og hvort ég nái nú þessum ljósum eða ekki.
Talandi um vindhraða þá er athyglisvert að skoða vindhraðagögn fyrir árið hingað til sem sést á myndinni að neðan. Almenna trendið er að vindurinn er að meðaltali mestur í janúar og lægir fram á vorið. Í ár var meðalvindhraði minnstur í ágúst. Október kemur síðan betur út en september og þá er vindur seinnipartinn svipaðar og á morgnana. Mín tilfinning síðasta vetur var að það væri sífellt mótvindur á leiðinni heim. Málið er kannski að þá var líka meiri vindur.
Ef við skoðum mun á meðalhraða eftir því hvort mótvindur er eða ekki þá munar nokkru á hraðanum eftir því hvort mótvindur er eða ekki en hann er ótrúlega lítill eins og sést á myndinni að neðan (y ásinn er hraði í km/klst). Í ágúst var vindur mjög lítill og því meira komið undir dagsformi en öðru hver hraðinn er. Munurinn er mestur í febrúar og apríl.

Thursday, October 28, 2010

28. október

Ég var enn og aftur að hugsa um hvernig mismunandi ferðamátar fléttast saman á leiðinni í morgun. Á einföldum gangstígum er gangandi fólk og hjólandi. Fólk með hunda í bandi, börn, framhaldsskólanemar í hóp, hjólanördar að flýta sér og allt þar á milli. Á stígum þar sem hjólrein er aðgreind frá gangandi umferð er allur gangur á því hvort fólk heldur sig réttu megin, það á við um hjólandi, gangandi og hlaupandi. Hjólreiðamenn fara að öllu jöfnu hraðar en gangandi og því er mikið um framúrakstur. Vegna þess að hjólin eru nánast hljóðlaus þá er alls óvíst að þeir sem hjólað er fram úr séu meðvitaðir um tilvist þess sem fer fram úr.
Á götunni er bíllinn mjög ráðandi en nokkrir hjóla mikið á götum. Það er hins vegar allur gangur á hvernig þessi blöndun gengur. Margir bílstjórar sýna mikla tillitssemi en sumir missa þolinmæðina og reyna framúrakstur á slæmum stöðum, flauta eða hreyta hrakyrðum í hjólandi vegfarendur. Þeir sem hjóla eru sumir mjög illa búnir m.t.t. sýnileika, hvorki með endurskinsmerki eða ljós.
Ég hef stundum litið svo á að með því að vera mikið á ferðinni á hjóli og með því að haga mér þokkalega, vera vel sýnilegur, nota bjöllu, halda mig á hjólarein þar sem hún er en annars hægra megin þá stuðli maður að betri blöndun mismunandi ferðamáta. T.d. held ég að á hverjum degi veki ég einhvern til umhugsunar um að það séu aðrir ferðamátar. Það tekur t.d. tíma að átta sig á því hvernig ljós á reiðhjóli sjást í rökkri. Þau eru yfirleitt bjartari en bílljós, hreyfast hægt (m.v. bílljós) en það er hægt að rugla þeim saman við götulýsingu. Sama gildir um afturljós á reiðhjóli. Þegar ég þvera götu þá lærir kannski einhver bílstjórinn að stoppa bílinn ekki á þveruninni, heldur aftan við hana o.s.frv.
Blöndunin er held ég af hinu góða en hún krefst þess að allir vegfarendur séu þokkalega með á nótunum, fylgi þeim reglum sem eru í gildi og hagi sér eins og siðað fólk. Alger aðgreining ferðamáta er hins vegar hin einfalda lausn.

Sá þessa fallegu umfjöllun um hjólreiðamenn áðan í tengslum við óvísindalega könnun á notkun á hjólareinum í New York:
"There's a tendency to talk about people who ride bikes as though they're a lawless bunch of yahoos. This study is a breath of fresh air in showing that no, they are simply, like all other people, responding to an environment that doesn't always serve their needs. When you're driving, the extra space a bike lane offers is a matter of mobility and convenience; if you're riding a bike, it's a matter of being seen and staying alive.
People run red lights on bikes not out of wanton disrespect for the world's moral order, but because when you're riding in a sea of cars occupied by people who probably don't notice or care about your existence, you're much safer getting as far ahead as possible."

Wednesday, October 27, 2010

27. október

Fyrsta hálkan í morgun og hún var allsstaðar. Ég er enn á sumardekkjum og þræddi gangstéttar og stíga þar sem er meiri stemma. Mér leist reyndar ekki á blikuna, nýlagður af stað þegar afturbremsan datt úr sambandi. Ég hélt hún væri slitin en hún hafði bara losnað svo málið leystist auðveldlega. En virðist vera einhver sólbráð í kortunum svo ég reyni að geyma dekkjaskipti fram á helgina ef ég get. Það er svo leiðinlegt að hjóla mikið á auðu á nöglum.

Tuesday, October 26, 2010

26. október

Heimleiðin í gær var svosem ekki mjög slæm. Ég valdi leiðir þar sem trjágróður er í næsta umhverfi og þræddi stíga þar sem sló aðeins í vindinn. Þetta var heldur ekki nema 11 m/s. Það er bara nánast regla að veðrið er betra þegar í það er komið en maður heldur.
Ég var frekar seinn fyrir í morgun og það var lítil umferð hjólandi fólks. Veður var hins vegar milt og rakt og bara notalegt til að hjóla.

Monday, October 25, 2010

25. október

Það spáir hvössu í dag en morguninn var ekki mjög slæmur enda að stórum hluta meðvindur. Gæti orðið erfiðara á heimleiðinni. Kanínurnar hafa safnast saman og það var nánast örtröð yfir stíginn svo ég þurfti að hægja á.
Annars velti ég fyrir mér á leiðinni hvort kemur á undan, að margir hjóli dags daglega, sem leiði til góðrar þjónustu við hjólreiðamenn eða hvort góð þjónusta við hjólreiðamenn leiði til þess að margir hjóli?
Ég var bara að velta þessu fyrir mér því það er vafalítið snjór á næsta leiti og miðað við þjónustuna síðustu ár þá hafa hjólreiðastígar mætt afgangi í snjómokstri. Það er nefnilega svo einfalt að ef stígarnir eru ruddir nógu snemma á morgnana þá er mjög lítið mál að hjóla.

Thursday, October 21, 2010

21. október

Það var ansi svalt í morgun. Ég keypti mér vettlinga í gær í Everest. Spurðist fyrir um góða vettlinga á hjólið í kuldanum. Ekki spurning hvaða vettlinga ætti að nota að mati afgreiðslufólks og það sem betra var, þeir voru ekki fáránlega dýrir. Þeir stóðu hins vegar engan veginn undir væntingum í morgun og mér var ískalt á puttunum. Hvað gerir maður þá? Ég get sjálfum mér um kennt en góðir hjólavettlingar kosta orðið 9 þús kall. Ætti ég að kvarta við Everest. Sennilega. En ólíklegt að ég beri nokkuð úr býtum.
Annars lenti ég nánast í árekstri við annan hjólreiðamann í gær. Á mjög dæmigerðum stað í beygju við undirgöng við Sprengisand. Mér tókst að beygja framhjá honum en hann datt í götuna og var aumur í úlnlið á eftir. Hér má sjá hvernig aðstæður eru við svona undirgöng, þessi göng eru við hliðina: http://picasaweb.google.com/barkarson/Hjoladagbok#5382174533393454098 Yfirleitt eru stígarnir hannaðir þannig að það er vinkilbeygja inn í undirgöngin og því undantekningalítið um blindbeygjur að ræða. Þó maður sé á lítilli ferð þá er alltaf hætta á að annar hvor sé of innarlega í beygjunni. Þetta mætti leysa með leiðbeinandi merkingum eða aðvörunum.
Ég setti aukaljós aftaná hjá mér svo ég sjáist betur á götunni. Margir hjólreiðamenn eru með lítið ljós sem festist niður við afturöxulinn. Þau eru mjög léleg og sjást illa. Staðsetja þarf ljósin ofar, nálægt hnakknum.

Wednesday, October 20, 2010

20. október

Veðrið kom mér í opna skjöldu í morgun. Blíðviðri og yfir frostmarki.
Ég sá í fréttum í gær að Reykjavíkurborg hefur áhuga á samfelldum stíg meðfram ströndinni. Tvö atriði varðandi það: Í fyrsta lagi þá er stígur víða meðfram ströndinni, reyndar ekki sérstakur hjólastígur nema á smá kafla. Tengingar á milli kafla eru hins vegar ömurlegar eins og frá Ægissíðu vestur á Seltjarnarnes og frá Granda vestur á Sæbraut. Svo má líka nefna Sæbraut austan Laugarness.
Einnig gæti þetta verið mjög góð byrjun á samstarfi sveitarfélaga varðandi þennan samgöngumáta.
Hins vegar finnst mér eiginlega liggja meira á almennilegum stofnbrautum hjólreiða á helstu samgönguleiðum og þá þvert á sveitarfélagamörk.

Tuesday, October 19, 2010

19. október

Fyrsti frostmorguninn en engin hálka nema nokkrir pollar sem höfðu breyst í fast form. Það er vel bærilegt að hjóla í 20 mínútur í smá frosti ef maður kemst svo í sturtu og fær kaffibolla í kjölfarið. Hins vegar vill vera í manni hrollur fram eftir degi. Maður verður hins vegar mjög meðvitaður um veðrið með tímanum og tekur veðurfréttir, gáir til veðurs á morgnana og reynir að klæða sig að einhverju leyti samkvæmt því. Of mikið af fötum er hins vegar álíka slæmt og of lítið.

Monday, October 18, 2010

18. október

Október er búinn að vera mjög óstabíll hjá mér hingað til. Nú er haustið komið í alvöru, snjór í Esjunni og kanínurnar híma. Það má reikna með hálku næstu morgna en kannski ekki nema á lægstu punktum. Umhverfið er allt frekar blautt svo skilyrði fyrir hálkumyndun eru mjög góð. Helst vill maður þó geyma að setja nagladekk undir fyrr en um miðjan nóvember.

Tuesday, October 12, 2010

12. október

Jæja loksins kominn aftur á hjól. Nánast viku hlé vegna veikinda, helgar og foreldraviðtala. Enda var skrokkurinn vel út hvíldur en aðeins ryðgaður í gang í morgun. Það verður sífellt skuggsýnna á morgnana og dóttir mín benti mér á að hún þyrfti ljós eins og ég er með. Hún hjólar flesta daga í skólann. Ég er mjög sáttur við það.
Kannski, og bara kannski, hefur maður einhver áhrif á börnin með því að vera duglegur að hjóla. Þau sjá að þetta er ein leið til að ferðast milli staða og kannski bara ágætur ferðamáti. Það eru ein góð rök með því að hjóla mikið.

Tuesday, October 5, 2010

5. október

Ég get því miður ekki stært mig af því að hafa mótmælt við Alþingishúsið í gær. Ærin ástæða til.

Hjólaði þess í stað heim í gær.
Morguninn var síðan barátta við mótvind. Hvassa norðanátt, sem þó var ekki mjög köld. Eiginlega ótrúlega hlý miðað við árstíma.

Friday, October 1, 2010

1. október

Allt í einu kominn október og strax dimmara á morgnana. Það var einhver þreyta í lærunum á mér í morgun svo ég tók því rólega á leiðinni niðureftir. Það var líka mótvindur hluta af leiðinni.

Thursday, September 30, 2010

30. september

Svona til að skrásetja það þá spáði nú ekki vel seinnipartinn í gær en það var ekki svo slæmt, þrátt fyrir 8 m/s mótvind. Var reyndar aðeins að flýta mér og það hefur áhrif. Ég virðist sumsé komast hraðar ef ég flýti mér þó ég hjóli sennilega frekar hratt almennt.
En það var líka nokkur meðvindur í morgun, þó ekki nema 6 m/s. Og fleiri á ferðinni á hjóli en í gær.
Það er mikið af pollum og því verður maður rækilega blautur í lappirnar ef skórnir eru ekki vatnsheldir. Þá er gott að vera í góðum sokkum. Ég fann nefnilega Icebreaker sokkana mína og verð því í góðum málum næstu mánuðina.

Wednesday, September 29, 2010

29. september

Rok og rigning. Þessi blanda er mjög reykvísk. Temprað veðurfar gerir það síðan að verkum að það er sjaldnast kalt í roki og rigningu. Þess vegna getur þetta veður bara verið mjög skemmtilegt til útiveru. Helsti gallinn við að hjóla í svona veðri er annars vegar að hjóla á móti vindi, sem getur tekið svolítið á, og hins vegar að fá á sig hliðarvind sem getur feykt hjólreiðamanni um koll. Man eftir einu slíku veðri í fyrra. Í morgun snerist þetta svolítið um að fjúka ekki fyrir bíla. Bæði þarf meira til að stoppa þegar vindurinn feykir manni áfram og bílstjórar sjá mann síður vegna lakara skyggnis. En það var lítil hjólaumferð þegar ég var á ferðinni í morgun, mætti einum jaxli sem ég mæti nánast á hverjum morgni. Hann var í mótvindi.

Tuesday, September 28, 2010

28. september

Ég var nærri því að taka kanínu af lífi í morgun, eða hún mig. Skaust örsnöggt út úr gróðrinum og yfir stíginn. Ég var á um 40 km/klst hraða. Hef stundum velt því fyrir mér hvernig hjólið hagar sér þegar það fer yfir kanínu, hvort það hoppar eins og um stein væri að ræða eða bara kremur kanínuna. Þetta væri gott að vita svo maður sé viðbúinn.
Annars var frekar hvasst í morgun og stefnir í enn hvassara seinnipartinn. Það er bara hressandi.

Monday, September 27, 2010

27. september

Haustrigningarnar komnar með bleytuna og rokið með. Tími til kominn að hreinsa laufin af trjánum. Þá setjast þau á stígana og mynda þar sleipa þekju. Gæti verið vont í beygjum þar sem hjólin geta skriðið til hliðar í sullinu. Þetta er eitt minniháttar öryggisatriði.

Thursday, September 23, 2010

23. september

Var næstum búinn að gleyma þessu í dag. Ekki þannig að það sé mikið að frétta. Nema systir mín á afmæli í dag og hefur ábyggilega hjólað í vinnuna.
Rak augun í stutta umfjöllun Láru Ómarsdóttur í kvöldfréttunum í gær um hina ýmsu bastarða í vegmerkingum hjólreiðamönnum til handa. Skemmst er frá því að segja að þeir fylgja oft engum reglum og gefa engan forgang. Hjólavísar eru meira sálfræðilegs eðlis en eitthvað annað. "Hjólabrautir" byrja og enda að því er virðist án samhengis við nokkuð.

Wednesday, September 22, 2010

22. september

Hæð yfir landinu og í fyrsta skipti síðan mínar skráningar hófust segir Veðurstofan logn. Enda frábær haustmorgun, bjartur og kaldur. Ég ákvað að setja upp lambúshettuna og fara í windstopperinn og vettlinga. Finn samt hvergi Icestorm sokkana mína sem ég notaði í allan fyrravetur. Þannig að ég er bara í einhverjum lélegum bómullarsokkum. Þarf að bæta þar úr.

Tuesday, September 21, 2010

21. september

Það var ótrúlega mikil hjólaumferð í morgun. Og það er greinilegt að þessi hjólatraffík hefur góð áhrif á bílstjóra. Þeir taka marktækt meira tillit til manns eftir því sem fleiri eru hjólandi í kringum þá. Þetta getur nefnilega farið ágætlega saman. A.m.k. í mörgum hverfum. Ekkert við það að athuga að aðskilja hjól og bíla á hröðum stofnleiðum en almennt á þetta að ganga vel þar sem er 50 km hámarkshraði.

Monday, September 20, 2010

20. september

Kaldasti morguninn hingað til. Samt um 4 stiga hiti skv Veðurstofunni. Það er þó eitthvað mismunandi eftir aðstæðum.T.d. örugglega lægri hiti í Elliðaárdal, þar sem frostið á heima.
Nú er fólkið með hetturnar komið á kreik og tínir sveppi í gríð og erg í Elliðaárdalnum. Vonandi kemst það í góða vímu af þessu. En þetta er árlegur viðburður á þessum árstíma að hjóla frammá fólk í hettupeysu, sem rýnir ofaní grassvörðinn.

Friday, September 17, 2010

17. september

Á þessum tíma verður maður að endurskoða hjólaklæðnaðinn. Eitt til tvö buff eða lambhúshetta fer að verða nauðsynleg, a.m.k. á morgnana. Vettlingar, helst vindheldir og mjúkir. Svo er gott að vera í ullarbol næst sér og einhverju léttu og vindheldu utanyfir. Svo eru s.k. windstopper jakkar ágætir að hjóla í en þá má ekki vera í þykku innanundir þeim. Buxurnar eru svo kapítuli út af fyrir sig. Ég keypti mér fljótlega hjólabuxur, bæði stuttar og síðar. Þegar haustar er ég í hvorutveggja. Þegar síðan kólnar meira þá er nóg að fara í vindheldar buxur utanyfir og þá er maður seif.
Val á skóm eru ekki mikil vísindi en það eru kannski frekar sokkarnir sem þarf að huga að. Það er hins vegar erfitt að komast hjá því að vera kalt á tánum þegar hiti er kominn niður undir frostmark.

Bara svo það sé bókað þá skipti ég um keðju og afturkrans á hjólinu. Það má áætla að það sé eftir vel rúmlega hjólaða 5000 km. Ég hef ekki hugmynd um hvað er eðlileg ending í þessu. En svona varahlutir kosta um 12 þús.

Thursday, September 16, 2010

16. september

Það slitnaði keðjan á hjólinu mínu en ég fékk lánað hjól í vinnunni. Fjallahjól með breiðum dekkjum og dempara að framan sem ekki er hægt að læsa. Það var talsvert þyngra að hjóla á því en mínu hjóli. En ágætis átök.
Það er talsvert um glerbrot á stígunum og að sópa stígana er ekki eitthvað sem gert er mjög reglulega nema að vori til þegar sandinum er sópað burt eftir veturinn. Úr þessu mætti vel bæta.

Tuesday, September 14, 2010

14. september

Nú er komið enn meira haust í þetta. Kemur þessi fína norðanátt seinnipartinn. En það er hluti af tilverunni.

Friday, September 10, 2010

10. september

Ég braut afturskiptinn á hjólinu á heimleið í gær. Teymdi það í Markið og skildi eftir. Tók strætó í gær og í morgun.
En nú er það hjólakortið. Ég er að pæla í að flokka hjólaleiðir eða kafla eftir "gæðum". Gæðinn eru afstæð því það er misjafnt hvað hentar hverjum og einum. En þrír einfaldir flokkar segja þónokkra sögu. Grænar leiðir eru greiðir stígar, tiltölulega öruggir. Bláar leiðir eru ekki eins greiðir stígar, t.d. fleiri þveranir, blindbeygjur og slíkt, eitthvað af götum og eitthvað af gangstéttum (sem eru oft stórhættulegar), ekki eins öruggt. Rauðar leiðir eru svo þar sem engar hjólaleiðir eru skilgreindar, bara gangstétt og/eða gata, óöruggt.
Ég er kominn með nokkrar leiðir þarna inn og setti líka ljósmyndir sem ég hef tekið. Þetta er hægt að skoða hér.

Thursday, September 9, 2010

9. september

Þrátt fyrir að veðrið sé mjög gott, milt og þægilegt þá sýnist mér að haustvindarnir séu að grípa inn í annars vindlítið sumar. Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd sem sýnir meðalvindhraða á mínum ferðum það sem af er árinu. Reyndar eru ekki margir dagar á bakvið tölfræðina fyrir september. En ég held þetta gefi almennt vísbendingar um þróunina fyrir árið. Það er líka athyglisvert að hér er yfirleitt meiri vindur seinnipart dags, nema reyndar í júlí. Vindurinn er sennilega sá umhverfisþáttur sem hefur hvað mest áhrif á hjólandi fólk og því gott að þekkja til helstu einkenna vindsins á sínum heimaslóðum. T.d. eru ríkjandi vindáttir mikilvæg stærð í hönnun hjólaleiða og hugsanlega hönnun skjóls í tengslum við það. Þar kemur trjágróður sterkur inn.

Wednesday, September 8, 2010

8. september

Í gær hjólaði ég leiðina meðfram Reykjanesbraut í Smiðjuhverfinu í Kópavogi. Þar er nýr stígur sem tengist undirgöngum undir Breiðholtsbraut (sjá hér).
Þetta er ágætt skref en það vantar að gera þverun Smiðjuvegar aðgengilega. Þar eru mjög háir kantsteinar og talsverð umferð. Úr því þarf að bæta.
Haustið byrjar hins vegar mjög vel hvað veður snertir, hlýtt og lítill vindur.

Tuesday, September 7, 2010

7. september

Ljósin komin á og haustvindurinn blæs. Það er sjálfsagt að setja upp öll öryggistæki núna, nema nagladekkin. Þau koma seinna.
Það kom fram í Fréttablaðinu í morgun að sala á allskyns dóti til hjólreiða, sérstaklega fylgihlutum ýmisskonar, hafi aukist um 30-40% á síðustu árum. Þetta eru t.d. töskur og bögglaberar. Fólk notar svoleiðis annaðhvort til hjólaferða eða samgönguhjólreiða.
Ég var að rýna hjólaleiðir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar í gær. Það vantar sárlega góðar tengingar á milli sveitarfélaganna, einkum með það fyrir augum að mynda góðar stofnbrautir. Það er ein slík samsíða Hafnarfjarðarvegi, sem þó mætti bæta talsvert á köflum. Það vantar hins vegar góða tengingu meðfram Reykjanesbrautinni, sem þræðir meðfram hæðunum í Kópavogi og Garðabæ en ekki uppá þær. Litlar hæðarbreytingar eru einn af lykilþáttum góðra hjólaleiða. Reyndar benti vinnufélagi minn mér á að það væri stígur meðfram Reykjanesbraut til móts við Mjóddina, Kópavogsmegin. Það vantar samt að greiða leiðina yfir Smiðjuveg. Sömuleiðis lenti hann í vandræðum með að komast áfram í gegnum Garðabæ, suður í Hafnarfjörð.

Tuesday, August 31, 2010

31. ágúst

Rigning og huggulegheit að hjóla.
Nú hef ég komist á þá eindregnu skoðun að það á almennt að gera ráð fyrir hjólreiðafólki á götum í þéttbýli. Sumar götur eru það hraðar að það gengur e.t.v. varla en ef sett er hjólarein með aðal stofnbrautum þá getur það vel gengið þó hámarkshraði sé yfir 50 km/klst. Það er einfaldlega stórhættulegt að hjóla á gangstéttum og oft á tíðum á gangstígum, nema þar sé afmörkuð braut fyrir reiðhjól. Gangstéttar eru einkum hættulegar þegar þvera þarf götur, oft blindhorn og engin leið að sjá bíla fyrir. Samgönguhjólreiðar verða að byggja á því að hægt sé að hjóla tiltölulega hratt á milli staða, 20-40 km hraði. Það gengur ekki á gangstéttum.

Monday, August 30, 2010

30. ágúst

Fyrir rétt rúmu ári síðan eða 28. ágúst 2009, setti ég inn fyrstu bloggfærsluna hér varðandi hjólreiðar til og frá vinnu (sjá hér). Alls eru síðan 168 bloggfærslur, sem er eiginlega færra en ég bjóst við. Inn í þetta spila síðan öll frí og mánaðar fæðingarorlof.
Það er svolítið fyndið að lesa þessar fyrstu færslur. Ég er að finna að því að framhaldsskólanemar taka upp stígana og gróður hangir inn á stígana í Elliðaárdalnum. Þetta er einmitt eitthvað sem ég skrifaði um í síðustu viku. Og ég var reyndar með ónýta bremsupúða fyrir ári síðan. Skipti einmitt í síðustu viku. Það er reyndar annar gangurinn þannig að það má reikna með tveimur göngum af púðum yfir árið þegar maður hjólar um og yfir 3000 km á árinu.
Samkvæmt gamla blogginu er ég kominn með ljósin á í lok ágúst. Best að bæta úr því.

Friday, August 27, 2010

27. ágúst

ÉG skil ekki hvað er verið að amast við þessum blessuðum kanínum í Elliðaárdalnum. Það er bara gaman að sjá eitthvert líf á leiðinni. Og þó að mávurinn hirði nokkra kanínuunga, það er bara lífið.
En það var gaman að horfa á eftir dætrum mínum í morgun á hjólum á leið í skólann. Þeim finnst sjálfsagt að hjóla meðan veður og færð er eins og það er.

Thursday, August 26, 2010

26. ágúst

Nú er kominn sá tími ársins sem hættulegustu einstaklingarnir eru komnir á kreik í umferðinni. Ungir bílstjórar, sem gjarnan eru að flýta sér í skólann. Það kemur best fram þegar maður þarf að þvera götur. Þá er hópur ungra bílstjóra sem hefur ekki snefil af tillitssemi við hjólandi fólk og ekur fyrir mann eins og ekkert sé sjálfsagðara. Smá pirringur hjá mínum í morgun sem er gott að fá útrás fyrir.
Eins er mikill fjöldi af framhaldsskólanemum á göngustígum á morgnana og seinnipartinn, oft margir saman og fylla alveg út í stíginn þannig að erfitt er að komast framhjá. Þá er bjallan nauðsynlegt tæki.
En nú er sumsé kominn tími á aðeins breytingu í fatavali fyrir hjólreiðaferðina. Loftið er kaldara og því þörf á fleiri lögum. Þunnur bolur og vindjakki yfir, jafnvel áberandi vesti. Ef einhver vindur er þá er betra að vera með buff undir hjálminum, svona yfir eyrun. Svo geta fingurgómarnir orðið kaldir ef maður er ekki með vettlinga. Það er t.d. lítið skjól í hjólagrifflunum mínum.

Wednesday, August 25, 2010

25. ágúst

Ekta haustmorgunn, bjart og svalt. Nú koma haustlitir í lyng og lauf.

Tuesday, August 24, 2010

24. ágúst

Kominn aftur í gang. Fullt af fólki á hjólum um kl. 8 í morgun og veðrið dásamlegt. Það er hins vegar komið haust í loftið, lykt af sölnuðu laufi, skuggarnir hafa lengst og skólakrakkar hvarvetna.
Í Elliðaárdalnum hangir allskyns villigróður inn á stígana, þistlar og eitthvert annað hávaxið illgresi með bleikum blómum.
Það surgaði í bremsunum að aftan og væntanlega kominn tími til að yfirfara hjólið fyrir haustið. Skipta um bremsuborða, fínstilla gírana og koma ljósum aftur á að framan og aftan.

Monday, August 23, 2010

23. ágúst

Ég get því miður ekki bloggað um hjólaferðina í dag þar sem ég hjólaði ekki. Hins vegar langaði mig til að stimpla það inn að ég hef fengið staðfest að maður sem ég umgengst nokkuð í vinnu ætlar að leggja bílnum og viðurkenndi að hafa orðið fyrir áhrifum frá mér. Þetta er því mjög gleðilegur dagur. Hann fékk sér hins vegar racer og nú langar mig í svoleiðis.

Friday, August 13, 2010

13. ágúst

Mikil rigning og hressandi að sama skapi. Í svona rigningu er væntanlega betra að hafa eitthvað mynstur í dekkjunum sem flytur vatnið svo hjólið fljóti ekki ofaná. Það þarf kannski meiri hraða til að hjólið fljóti upp, ég hef allavega ekki lent í þessu.

Thursday, August 12, 2010

12. ágúst

Ég er á því að umferðin sé að aukast eftir sumarleyfi. Maður þarf að gæta meira að sér nú. Reyndar setti rigningin líka strik í reikning, hjólandi maður sést verr. Nú er bara að taka vestið fram, haustið í nánd og skólarnir að byrja.

Wednesday, August 11, 2010

11. ágúst

Skemmtilega mikil hjólaumferð í morgun. Allskyns hjól og allskyns fólk á ferðinni.
Þess ber að geta að í byrjun ágúst fór ég yfir 2000 km á árinu, til og frá vinnu. Þetta segir ekki mikla sögu en er þó eitthvað sem er að baki. Það má vel reikna sparnaðinn af þessu en það er líka óþarfi. Þetta er bara svona.

Tuesday, August 10, 2010

10. ágúst

Það sígur á sumarið og fólki á stígunum er farið að fjölga á nýjan leik eftir afar rólegt sumar. Gróður hangir víða inn á stígana, einkum frá einkalóðum, slær mann í andlitið fyrirvaralítið.

Friday, August 6, 2010

6. ágúst

Maður er greinilega aðeins stirður að byrja aftur að hjóla. Munar greinilega um tveggja vikna hlé. En það kemur strax aftur.
Hitti félaga minn í sundi um daginn sem sagðist vera með klemmupedala. Það væri allt annað líf og eina vitið fyrir þá sem hjóla daglega til og frá vinnu. Hann sagðist líka vera með mjög mjó dekk á hybrid hjólinu. Draumur einn. Dálítið dýrt samt að skipta yfir í klemmupedala. Skór lágmark tæp 20 þús.

Thursday, August 5, 2010

5. ágúst

Jæja, þá er sumarfríið að enda í bili og ég hjólaði létt í vinnuna seint og síðar meir í morgun. Það er eins og vant er lítill vindur og mesta blíða. Hef ekkert hjólað í tvær vikur en það kemur strax aftur. Nú styttist líka í að ég loki árshringnum í hjólablogginu og spurning hvað á að gera í haust.

Monday, July 19, 2010

19. júlí

Heitasti dagurinn sem ég hjóla á þessu ári. Sól og örlítil gola. Búnir að vera nokkrir svona dagar í röð, alger snilld.

Thursday, July 15, 2010

15. júlí

Góður dagur í dag. Þetta er bara eins og í útlöndum. Sól á daginn og rigning á kvöldin.
Ég reikna með að fara í sumarfrí eftir daginn í dag og þá verður kannski eitthvað hjólað í frístundum.

Wednesday, July 14, 2010

14. júlí

Veðrið leikur við mann þessa dagana og umferð á götunum er mjög lítil. Helst er hætta á að maður verði full kærulaus þess vegna. Nokkrir eru að hjóla, og njóta þess.

Monday, July 12, 2010

12. júlí

Spánverjar heimsmeistarar og hjólað til vinnu í tilefni þess. Flott veður í dag og umferð nánast engin.

Friday, July 9, 2010

9. júlí

Dauður kanínuungi á stígnum ofan Elliðaárdals táknar fallvaltleika tilverunnar. Sennilega drepinn af mávum.

Thursday, July 8, 2010

8. júlí

Ansans norðanátt í morgun. Veðurstofan sagði 6 m/s en það var örugglega nær 10. En ég var einhverjar tæpar 22 mínútur á leiðinni svo þetta var nú ekki mjög alvarlegt.

Wednesday, July 7, 2010

7. júlí

Ansi hreint hvasst í morgun. Það myndast svo mikill vindstrengur eftir Mjóddinni í nánast öllum vindáttum svo maður lendir pottþétt í mót- eða meðvindi og honum miklum ef það fer yfir 4m/s. En þetta hefst nú alltaf.
Áhrif vindsins á hjólaferðina eru e.t.v. ekki ofmetin þar sem um er að ræða andleg ekki síður en líkamleg áhrif. En ef maður spáir í ferðatíma í svona dæmigerðum ferðum til og frá vinnu sem oft taka 10-20 mín þá hefur vindurinn ekki gríðarleg áhrif. Við verstu aðstæður var ég 39 mínútur á leiðinni heim 5. mars í vetur en þá voru 10 m/s mótvindur, slapp og vond færð. Við normal aðstæður er ég í kringum 25 mínútur. Auðvitað getur ferðin verið erfið en einhver sagði að með því að loka vindgnauðið úti með góðri húfu, buffi og/eða tónlist þá ertu búinn að losa þig við 70% af neikvæðu áhrifum vindsins. Sel það ekki dýrar en ég keypti.

Tuesday, July 6, 2010

6. júlí

Gleymdi hraðamælinum í gær og mikið getur maður verið háður svona tæki. Alltaf skemmtilegra að sjá hvað maður fer hratt eða hægt. En fór snemma af stað í morgun og það er alltaf jafn indælt, lítil umferð og ró yfir höfuðborginni.
Annars á stóra stelpan mín afmæli í dag, 9 ára snillingur.

Monday, July 5, 2010

5. júlí

Hlýindin halda áfram og stuttbuxur og þunnur bolur er hæfilegt klæðamagn, m.a.s. á morgnana. En ég er að velta fyrir mér endingunni á dekkjunum sem ég keypti hjá GÁP í vor. Þetta eru fínmynstruð dekk sem ég setti undir eftir páska, sem þýðir að ég er búinn að hjóla á þeim 1200 km og þau eru orðin slétt að aftan. Er það ásættanleg ending? Ég held ekki. Ég hef hins vegar engan samanburð þannig að það er erfitt að rífa kjaft. Mér finnst bara of mikið að þurfa að skipta um dekk eftir hvert sumar, þó þau kosti ekki nema 3000 kall.

Friday, July 2, 2010

2. júlí

Afar hlýtt og notalegt í morgun þrátt fyrir talsverðan vind.

Thursday, July 1, 2010

1. júlí

Þá er júní búinn. Júlí byrjar með rigningu og roki, sem er bara hressandi. Spurning hvað það endist.
Ég varð fyrir þeirri upplifun í gær þegar ég puðaði heim í mótvindi meðfram Suðurlandsbrautinni að "stelpa" geystist frammúr mér, að því er virtist áreynslulaust. Ég ákvað að taka betur á því og grillti í hana lengi vel skammt undan. Það virtist sem hún rynni áfram án átaka á meðan ég þurfti á öllum mínum hestöflum að halda til að halda sæmilegri ferð. Í Elliðaárdalnum náði ég henni loksins, væntanlega eftir einhverjar tafir hjá henni og þá opinberaðist það fyrir mér að hún var með mótor í framhjólinu. Nokkuð gott.
En ég get huggað mig við það að mitt puð gerir heilsunni gott.

Wednesday, June 30, 2010

30. júní

Það lá við örtröð við Álfabakkann, svo margir voru hjólandi þar í morgun. En þetta gekk allt greitt fyrir sig. Ekki laust við að það hlaupi kapp í mannskapinn þegar margir koma saman með þessum hætti. Veðrið var enn á ný rjómablíða.
Nú á ég eftir tvo mánuði til að loka hjólabloggárinu. Hingað til hef ég bloggað 145 sinnum, sem er nánast sama tala og dagafjöldinn sem ég hef hjólað. Inn í þessu er mánuður af fæðingarorlofi en annars venjulbundið ár. Nokkra daga hef ég verið á bíl og þá eingöngu vegna annarra erinda sem þurfti að sinna. Vinnutíminn hérna er líka sveigjanlegur sem auðveldar þennan lífsstíl.

Tuesday, June 29, 2010

29. júní

Það er bara blíða þessa dagana og ekki undan því að kvarta. Maður er ekki nema örskot til og frá vinnu. Tvennt hins vegar sem ég vil draga fram í dag. Ég fékk lélega þjónustu í Markinu í gær. Var sagt að ég gæti ekki keypt einn skipti á hjólið, þeir yrðu að seljast í pörum og þá á yfir 7000 krónur. Fór í GÁP, sem er orðin mín aðal hjólabúð. Hitt er að nú er gróður við stíga farinn að skyggja verulega á útsýnið.Garðyrkjudeildirnar verða að taka þetta til sín.

Monday, June 28, 2010

28. júní

Jæja, þá er maður kominn aftur af stað eftir viku frí.
Að baki er lengsta hjólaferðin hingað til, Reykjavík, Þingvellir, Kaldidalur, Húsafell, Arnarvatnsheiði, Núpsdalstunga. Alls um 200 km. Leggirnir, 54, 64 og 88 km. Tókum þetta á þremur dögum sumsé. Skemmtilegar leiðir í þessu. Kaldidalur með mikla hækkun og lækkun. Yfir 700 m hæð. Mjög skemmtileg hjólaleið frá Kalmannstungu, meðfram Norðlingafljóti og Hallmundarhrauni. Síðan taka við moldarslóðar og grýttir ásar alveg að Arnarvatni stóra. Stórfín leið. Norðlingafljótið er ekki vandamál, breitt vað en ekki djúpt. Versti hluti leiðarinnar er þegar komið er ofaní Austurárdal þar sem taka við grýttar eyrar og síðan var nýheflaður vegur með lausamöl síðustu 10 km. Það eru ekki kjörskilyrði.
Ég braut hins vegar framskiptinn á hjólinu og hjólaði því í öðrum gír alla leið frá Húsafelli og norður yfir. Þarf að skipta um það. Annars ekki mikið um skemmdir, smá beyglur og rispur hér og þar.

Wednesday, June 16, 2010

16. júní

Ég hef nánast alveg gleymt að blogga um náttúruna á leiðinni. Ekki þannig að það sé mikil náttúra á leiðinni en það er talsvert af trjágróðri sem hefur verið að skrýðast sínu fínasta í vor og síðan fuglarnir. Sá eina stokkönd með unga áðan. Lúpínan löngu farin að blómgast og mikil hvönn í Elliðaárdalnum.

Ég hlakka talsvert til að fara Kaldadalinn og Arnarvatnsheiðina. Þar er mikil náttúra þó hún sé mislitskrúðug.

Tuesday, June 15, 2010

15. júní

Blautt í morgun og var hæfilega illa klæddur, hjólaði rólega og var ekkert sveittur þegar komið var niður í Borgartún. Mikil umferð hjólandi fólks.
Nú styttist í næsta hjólatúr, norður Arnarvatnsheiðina. Stefnum í að leggja af stað þrjú-fjögur saman á föstudag til Þingvalla. Á laugardag yfir Kaldadal til Húsafells og svo alla leið yfir. Alls eru þetta um 200 km. Spennó.

Monday, June 14, 2010

14. júní

Í gær hjólaði ég ásamt rúmlega 300 öðrum Bláalónsþrautina. U.þ.b. 57 km frá Hafnarfirði, um Djúpavatn, Suðurstrandarveg, Grindavík og að Bláa lóninu. Ég var um 2:39 klst að þessu. Meðalhraðinn var 21,4 km/klst. Svona til að geyma það einhversstaðar. Var svolítið aumur í rassinum í morgun en ekkert óbærilegt að hjóla í vinnuna.

Friday, June 11, 2010

11. júní

Ég hjólaði bara heim í gær. Fór síðan snemma af stað í morgun og mikill fjöldi fólks á minni leið, hjólandi. Ég dæmi orðið bílstjóra fyrirfram, hvort þeir eru tillitssamir eða ekki. Ég misreiknaði mig í morgun þegar stór Audi kom á mikilli siglingu í áttina þvert fyrir mig við Skeiðavoginn. Átti ég von á að hann myndi láta vaða þó hann sæi mig. En mér skjátlaðist. Hann snarstansaði og ég yfir. Ég er ekki frá því að það miði barasta í áttina að meiri tillitssemi.

Wednesday, June 9, 2010

9. júní

Bílaumferðin virðist hafa minnkað eitthvað, sennilega orðið minna um skólaskutl. Hins vegar er mjög mikil umferð hjólandi fólks á minni leið og á heimleiðinni í gær komu upp tvö tilvik þar sem hætta var á slysum. Þetta er einkum í tengslum við undirgöngin þar sem eru undantekningalítið blindbeygjur (sjá t.d. hér og hér).

Hvernig væri nú að gera eitthvað í því? T.d. væru viðvörunarskilti til bóta, hraðahindranireða speglar (sem sennilega yrðu brotnir jafnóðum). Reyndar eru hraðahindranir eins og undir Breiðholtsbraut og Suðurlandsveg mjög einkennilegar, hellusteinar sem er raðað mjög illa þannig að hjólið hristist í sundur. Þverrákir eru betri.

Tuesday, June 8, 2010

8. júní

Enn er sama blíðskapar veðrið. Við þessar aðstæður hendir fátt á þessari vanabundnu ferð til og frá vinnu. Nú þarf hins vegar að taka af skarið og skrá sig í Bláalónsþrautina.

Monday, June 7, 2010

7. júní

Ég náði að klæða mig nánast fullkomlega miðað við veður í morgun og slapp því að mestu við að svitna. Bakpokinn var á bögglaberanum og því loftaði vel um bakið. Miðað við þennan stutta ferðatíma þá getur þetta gengið og þá má sleppa sturtunni ef maður vill. En það þarf náttúrulega að hafa í huga nánd við t.d. vinnufélaga og annað, hvort maður er húsum hæfur.

Friday, June 4, 2010

4. júní

Morguninn byrjaði ekki vel. Var að sveigja á milli bíla á bílastæði og flaug á hausinn, braut festingu fyrir pumpuna en vonandi ekkert annað. Annars gekk þetta stórslysalaust.
Heimleiðin var hins vegar ekki eins ánægjuleg, mikil aska í loftinu og styrkurinn ku hafa verið talsvert yfir heilsuverndarmörkum. Enda bruddi ég öskuna alla leið. Ég efast ekki um að þetta er bráðóhollt. Það gæti verið ráðlegt að fjárfesta í rykgrímu.

Thursday, June 3, 2010

3. júní

Skilyrði til hjólreiða í morgun voru upp á hið besta svo ég ákvað að spýta svolítið í og nota göturnar til þess. Með því að fara Suðurlandsbrautina og hitta á öll ljós græn þá var ég 16:36 mín niðureftir. Það var frekar lítil umferð en ég gat haldið á milli 30 og 40 km hraða nánast alla leið enda var meðalhraðinn um 30 km/klst. Hins vegar er ljóst að þessi hraði á alls ekki við á stígunum, bara þannig að það sé ljóst.

Veðrið um þessar mundir er alger snilld til hjólreiða, lítill vindur og milt veður. Ég tók saman meðalvindhraða (m/s) í öllum mánuðum frá áramótum. Þar kemur í ljós að vindhraðinn er mestur á leiðinni heim í janúar og almennt virðist hann meiri á leiðinni heim, sem er mjög óheppilegt þar sem þá er meira af leiðinni á fótinn, nema það sé meðvindur. Vindhraðinn er á hinn bóginn minnstur á leið til vinnu í maí, sem kemur ekki á óvar því maí var bara mjög hagstæður. Það er athyglisvert hversu lítill vindur er í febrúar en þá var hvað mestur snjór.

Tuesday, June 1, 2010

1. júní

Ætli sumarið sé ekki bara komið, líka í pólitíkinni?

Það var öskufall í gær. Hjólið var skítugt eftir daginn og ég var með ösku milli tannanna alla leiðina heim. Þá er að anda með nefinu sem aldrei fyrr.

Nú reynir á garðyrkjudeildir sveitarfélaganna að klippa gróður með stígum. Lauf á trjám og runnum geta verið helsta ógnin við umferðaröryggi á mörgum stöðum. Oft er gróðursett of nærri stígum, í beygjum, svo blindbeygjur myndast eins og hér. Það er gott dæmi um sambandsleysi milli garðyrkju og stígahönnunar. Nú eða bara hugsunarleysi almennt.

Ég tók saman að gamni smá tölfræði um hjólreiðarnar frá áramótum. Það kemur m.a. í ljós að ég hef hjólað flesta daga í janúar eða 19. Meðalhraði þessa mánuði er nokkuð breytilegur eða frá því að vera 22 km/kst á leið til vinnu í febrúar þegar færðin var hvað verst og upp í 26 km/klst. Meðalhraðinn heim er nokkru lægri en eykst úr 19 km/klst í janúar þegar suðaustanáttin er sterkust upp í 22 km/klst í maí. Maí er reyndar óvenjulegur þar sem þá hjóla ég mun fjölbreyttari leiðir en hina mánuðina.
 Ef við skoðum hjólaða km þá eru þeir einmitt langflestir í maí eða 435 en ekki nema 257 í apríl. Þá kemur líka inní páskafrí og önnur óregla. Alls hef ég hjólað 79 daga til og frá vinnu frá áramótum, að meðaltali 20 km/dag.

Monday, May 31, 2010

31. maí

Eftir stutt sauðburðarhlé var ágætt að setjasta aftur á hjólið. Veðrið var líka hið ákjósanlegasta. Það er enn nokkur umferð hjólandi fólks þrátt fyrir að Hjólað í vinnuna sé að baki. Höfuðborgarsvæðið er orðið grænt. Það sá ég vel við komuna í bæinn í gær. Það skemmir ekki fyrir.

Friday, May 21, 2010

21. maí

Veðrið í morgun var frábært, nánast logn og 10 stiga hiti.Það er kjörhiti, sagði Magnús Bergsson á fræðslufundi um ferðalög á hjólum í gær. Má helst ekki vera meira. Ég er á því að hjólaleiðin um Rauðavatn, að Grafarholti og Grafarvogur sé ein af skemmtilegri leiðum á höfuðborgarsvæðinu. Sjávarsíðan er líka víða frábær. En þarna er maður lítið inní byggð og fallegt víða.
Nú er ég búinn að þræða helstu leiðir á höfuðborgarsvæðinu síðustu vikur. Þar er misjafn sauður í mörgu fé. Mig langar til að taka saman yfirlit yfir helstu leggina, lengdir, galla og kosti og einkenni leiðar. Þetta gæti verið gagnlegt. Sennilega þarf ég samt að fara aðra ferð og taka myndir af því sem fyrir augu ber svo þetta verði betri gögn.

Thursday, May 20, 2010

20. maí

Það var nett rigning í morgun og frekar kalt. Leiðin lá eftir Fossvogsdalnum og vestur Ægissíðuna, fyrir Seltjarnarnes og svo austur aftur, í Borgartúnið. Þetta tók svolítið í vegna vinds. Kom fram einhverskonar þreyta í rassvöðvana.

En það var fámennara á stígunum í dag, kannski var ég líka seinna á ferðinni.

Wednesday, May 19, 2010

19. maí

Ég fékk grænmetisbúst í kaffitjaldinu í Fífuhvamminum. Það var nú ekki mjög gott á bragðið en örugglega mjög hollt. Svo fékk ég nokkrar flugur ofaní mig í Fossvoginum. Þannig að morgunmaturinn kom þarna fyrirhafnarlítið. En leiðin var hefðbundin, Kársnes, Fossvogur að Suðurgötu, Lækjargata og Skúlagata, 18,7 km. Rigning og um 10 stig, gerist varla betra.

Tuesday, May 18, 2010

18. maí

Þessi kuldi á vorin hefur sína kosti. Það hef ég alltaf sagt. Gróðurinn kemur hægt og örugglega og heldur næringargildi sínu lengur fram í sumarið. En það er nú meira landbúnaðartengt. Mér var allavega ansi kalt á puttunum í morgun þegar ég hjólaði vestan Seltjarnarnesið, á móti ísköldum vindi. 6-7 gráður er ekki veruleg hlýindi. Rigning er bara hressandi. En þetta voru tæpir 24 km. Ég skil enn ekki þessa slöku tengingu milli Reykjavíkur og Seltjarnarness að sunnanverðu. Af hverju virðist vera reiknað með að enginn þurfi að hjóla vestur fyrir Hofsvallagötu? Eins eru þveranir norður-suður af annars ágætum stíg meðfram Skerjafirði arfaslakar. Sveitarfélögin verða að fara að átta sig á því að gangandi fólki er ekki bjóðandi að hafa hjólandi fólk á gangstéttum og bílstjórum á ekki að bjóða upp á að hafa sífellt hjólreiðamenn kriss krossandi götuna. Þar gæti Besti flokkurinn komið sterkur inn með Sjón sem samgönguráðherra. En þetta gildir um öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Monday, May 17, 2010

17. maí

Dálítið kalt í morgun en sólin var hátt á lofti og frábært vorveður. Sá einn lax í Elliðaánni. Hjólaði niður Elliðaárdal og síðan meðfram Sæbrautinni. Hún er nú bara slysagildra fyrir hjólreiðamenn. Erfitt að þvera götur án þess að snúa hausnum 180° til að fylgjast með umferð. Miklu betra að taka Langholtsveginn niður í bæ miðað við þessar aðstæður. Prófaði líka að hjóla Skútuvoginn til að sleppa við þverun Sæbrautar. Það er frekar leiðinleg leið með vörubílum og svifryki. Fór síðan Holtaveginn upp á Sæbraut. Þetta voru 14,3 km.

Friday, May 14, 2010

14. maí

Byrjaði morguninn á því að hjóla yfir á Garðatorg til tannlæknis. Góð byrjun! Það er nú ekki greið leið úr Salahverfinu yfir í Garðabæinn á hjóli en hafðist svosem. Þar vantar góða tengingu með Arnarnesveginum, bæði núverandi og væntanlegum.

Síðan var þetta hefðbundinn túr, reyndar yfir Arnarneshæðina og svo fyrir Kársnesið. Alls um 22 km. Flugur eru orðið víða á ferð og betra að halda munninum lokuðum. Svo koma gleraugu sterk inn á þessum árstíma, ekki bara gagnvart sól.

Wednesday, May 12, 2010

12. maí

Það blés á vestan í morgun, sérstaklega vestur Kársnesið. Ég böðlaðist samt vestur að Seltjarnarnesi, alls 20,3 km. Gott að fá meðvindinn í gegnum bæinn og í Borgartúnið.

Tuesday, May 11, 2010

11. maí

Hjólaði Fossvoginn og vestur á Suðurgötu. Það voru bestu aðstæður enda náði ég 28 km/klst meðalhraða. Það vekur mann til umhugsunar hversu illa er búið að hjólreiðafólki í miðbænum. Gangstéttar eru fullar af gangandi fólki og hjól eru óvelkomin á götunni. Enda er það gamla sagan að hjólreiðamenn velja það skásta af hvoru tveggja.

Monday, May 10, 2010

10. maí

Veðrið er bara ljómandi fínt þessa dagana þó maður finni kaldan vindinn næða um fingurgómana.
Ég hjólaði fyrir Kársnes og vestur á Suðurgötu, geymi Seltjarnarnesið. Um helgina hjólaði ég 50 km hring um Heiðmörk og Hafnarfjörð.
Það var rætt um öryggi á stígum hérna í vinnunni áðan. Eitthvað sem maður velti mikið fyrir sér til að byrja með en hugsar minna um núna. En það eru margar slysagildrur eins og ég kortlagði á nokkrum leiðum. Það á ekki síst við annars vegar undirgöng og hins vegar blindbeygjur. Lausnir á þessu eru einkum tvær; að laga aðkomu að undirgöngum þannig að maður sjái betur inn í þau, eða setja upp spegla (sem síðan eru væntanlega brotnir) og að setja garðyrkjudeildir sveitarfélaganna vel inní málin, hvar þurfi að klippa gróður extra vel eða fjarlægja gróður.

Friday, May 7, 2010

7. maí

Ég fór efri leiðina í dag, gegnum Breiðholtið að Rauðavatni, austur fyrir Grafarholtsvöllinn og niður í Grafarvog og síðan Langholtsveginn. Þetta eru 20 km. Bara mjög fín leið að mestu leyti. Versti gallinn er þverun Sæbrautar. Þar þarf nauðsynlega að bæta aðstöðu hjólreiðafólks með undirgöngum.

Svo eru útivistarstígarnir bara ekki hannaðir fyrir samgönguhjólreiðar, enn og aftur. En ég gat samt haldið 24 km/klst meðalhraða enda er lítil hækkun á þessari leið fyrir mig.

Thursday, May 6, 2010

6. maí

Veður: suðaustan 1m/s og 8,3 stig, rigning
Ferðatími: 23:04 mín
Meðalhraði: 25,3 km/klst

Rigningin er góð. Ég nennti ekki að hjóla langt í morgun, bara um 10 km. Þarf að fara snemma heim á eftir.
Nú þarf að gera eitthvað með þessa aðstöðu til að geyma hjólin. Það gengur ekki að skilja það eftir úti, án þess að geta fest það.

Wednesday, May 5, 2010

5. maí

Veður: SV 2m/s og 8 stig, rigning
Ferðatími: 49:27 mín
Meðalhraði: 22,8 km/klst

Ég hjólaði fyrir Kársnesið, Öskjuhlíðina og vestur á Suðurgötu. Þetta var um 19 km leið. Svakaleg umferð af hjólandi fólki og satt best að segja eru margar slysagildrur á þessari leið. Ég tók engar myndir en Kópavogur þarf að taka sig á í stígagerðinni. Það er ekki nóg að hafa marga km af stígum. Þeir þurfa að geta þjónað sem samgöngustígar.

Tuesday, May 4, 2010

4. maí

Veður: Suðvestan 2m/s og 6 stig. 
Ferðatími: 19:16 mín
Meðalhraði: 27,1 km/klst

Þegar hjólað er nánast sömu leið daglega, með sömu beygjunum, sömu glerbrotunum og jafnvel sömu samferðamönnum, þá byrjar hugurinn að reika um heima og geima. Einbeitingin að umferðinni og ferðinni minnkar. Þetta er sennilega ekki góð þróun en á vafalaust við um bílstjóra líka. Þess vegna er talið mikilvægt að hjóla ekki alltaf sömu leiðina, heldur breyta til. Upplifa nýjar aðstæður, halda sér vakandi.

Á morgun tekur við þriggja vikna tímabil Hjólað í vinnuna. Þá verður mikil umferð á stígunum. Best að huga að nýjum leiðum.

Monday, May 3, 2010

3. maí

Veður: Sunnan 4 m/s og 7,8 stig
Ferðatími: 19:10 mín
Meðalhraði: 28,2 km/klst

Þetta er nú sennilega hlýjasti morguninn hingað til. Afskaplega notalegt og mér sýnist spá eitthvað svipuðu næstu daga. Hjólarar eru fleiri en áður, það er alveg ljóst.
Á laugardaginn hjóluðum við Kiddi einhverja tæpa 40 km, upp í Heiðmörk, suður í Hafnarfjörð, meðfram sjónum, Arnarnesið og inn Kópavogsdalinn. Þetta tók okkur um 2 tíma með stoppum. Þetta er æfing fyrir Arnarvatnsheiðina í júní.

Friday, April 30, 2010

30. apríl

Veður: Austan 3m/s og 2,4 stig, rigning
Ferðatími: 20:14 mín
Meðalhraði: 27,5 km/klst

Það ljóst að maður endurtekur sig þegar bloggað er á hverjum degi. Mér dettur heldur ekkert í hug í dag, sem er ekki endurtekning á því sem ég hef bloggað um tvisvar eða oftar.

Thursday, April 29, 2010

29. apríl

Veður: Austan 4 og 5,2 gráður, rigning
Ferðatími: 20:44 mín
Meðalhraði: 26,8 km/klst

Rigningin er góð. Mér brá pínu í Skógarselinu þegar stór jeppi ætlaði að svína fyrir mig. Kannski var hann með þetta allan tímann en þetta var pínu óþægilegt. Svo hjólaði ég Langholtsveginn. Það er 500 m lengri leið en maður getur hjólað býsna greitt. Mér finnst það í raun betra heldur en þetta sífellda sikk sakk, kriss og kruss við að elta stígana. Enda sést það á meðalhraðanum að maður getur haldið jafnari hraða á götunum. 

Wednesday, April 28, 2010

28. apríl

Veður: Norðan 1 m/s og 6,8 stig
Ferðatími: 20:01 mín
Meðalhraði: 26 km/klst

Vorið er komið, aftur. Við fengum flotta þjónustu niður í vinnu í gær. Sesselja Traustadóttir og Árni Davíðsson hjá verkefninu Hjólafærni komu og sögðu mannskapnum til varðandi hjólin, stillingar og viðhald. Voru með flestar græjur með sér og tóku hjólin í gegn. Bara gaman og kom manni í stuð. 

Tuesday, April 27, 2010

27. apríl

Veður: A 5 m/s og 3,4 stig
Ferðatími: 20:10 mín
Meðalhraði: 26 km/klst

Nú fjölgar hjólandi ört. Sá fjöldi mun væntanlega aukast fram í næstu viku þegar Hjólað í vinnuna byrjar.

Þegar svona gott er færið verður fátt um að skrifa. Þó læddist að mér sú hugsun hvort sveitarfélögin spili með í því að hafa stíga og aðstöðu í eins góðu standi og mögulegt er þegar hjólreiðar ná hámarki. Hvað með t.d. trjáklippingar, hreinsun stíga og annað viðhald?

Monday, April 26, 2010

26. apríl

Veður: Norðaustan 3m/s og 2,4 stig, rigning
Ferðatími:  21:00 mín
Meðalhraði: 24,9 km/klst

Vonandi er nú frostið hætt. Ég var að hugsa það á leiðinni að ekki hefur nú oft rignt í vetur. Samkvæmt mínum kokkabókum var rigning 9 daga af þeim 60 sem ég hef hjólað frá áramótum. Það er 15%. Er það mikið eða lítið. Mér finnst það lítið, hér á þessum stað. Snjókoma var ekki nema 2 daga.

Friday, April 23, 2010

23. apríl - sumar!

Veður: SA 2 m/s og -0,2 stig
Ferðatími: 20:20 mín
Meðalhraði: 25,7 km/klst

Slatti af svifryki í morgun, held það sé ekki aska, heldur bara ógeðslegt ryk af götunum. En mjög fínt veður þrátt fyrir að það sé heldur svalt. 

Wednesday, April 21, 2010

21. apríl - síðasti vetrardagur

Veður: Norðan 5m/s og 0,6 stiga hiti
Ferðatími: 21:35 mín
Meðalhraði: 24,3 km/klst

Ég var að hugsa um sólina í morgun. Nú blindar hún ökumenn á morgnana og því fylgja hættur fyrir hjólreiðamenn. Þá er spurning hvort er betra að vera með gott ljós. Ég veit það ekki. En það var svona mikil sól í morgun og allir með pírð augu. Ekki það að maður lenti í neinu á leiðinni, voru meira svona hugleiðingar.
En sumardagurinn fyrsti á morgun og ég á svosem ekki von á því að hjóla mikið þá en útivera æskileg.

Tuesday, April 20, 2010

20. apríl - 1000 km

Veður: Austan 3m/s og -2,4 stig
Ferðatími: 19:54 mín
Meðalhraði: 26,3 km/klst

Enn er sami kuldinn og svipað í kortunum þessa vikuna. Þetta frestar vorinu um sinn, sem er leitt, því það er enginn árstími skemmtilegri til hjólreiða en vorið þegar allt er á fullu. Fuglarnir í tilhugalífinu, trén að laufgast og allt að grænka. Þessu öllu tilheyrir sérstök lykt sem veður innum nefið á manni þegar maður geysist um stíga og götur.

Monday, April 19, 2010

19. apríl - smá frost

Veður: NA 7 m/s og -0,4 stig
Ferðatími: 23:11 mín
Meðalhraði: 23 km/klst

Ansi kalt að fá frostið svona á vorin. Það er bara kaldara heldur en á veturna. Líkaminn er kominn í vorstemningur og er ekki viðbúinn svona köldum næðingi. Svo er vindurinn ekki til þess fallinn að bæta ástandið. Hann var á móti stóran hluta leiðarinnar en aðeins austanstæður svo síðari hlutinn var ekki afleitur.

Maður varð var við tilhugalíf fuglanna um helgina. Þrestirnir sungu af miklum móð. Ég held þeir hafi samt þagað í morgun, í frostinu. Svo er ansi mikið af mávi í kringum kanínurnar í Elliðaárdalnum. Þeir vita þarf að einhverju æti og hafa lítið annað að éta. Þeir fylla ekki loftið beint af fuglasöng og eru yfirleitt tákn um sóðaskap okkar mannanna. En kannski hafa þeir bara áhuga á kanínum.

Friday, April 16, 2010

16. apríl

Veður: SV 7 m/s og 4,5 stig, rigning
Ferðatími: 20:47 mín
Meðalhraði: 27 km/klst

Þrátt fyrir mótvindinn þá nær maður þessum hraða. En það er eitthvað við það að hjóla í rigningu. Ég býð hins vegar ekki í að hjóla í öskufalli eins og er fyrir austan. Hugur minn er hjá bændum eystra.

Thursday, April 15, 2010

15. apríl - nýtt hraðamet

Veður: SV 4 m/s og 5 stig
Ferðatími: 18:04 mín
Meðalhraði: 29,2 km/klst

Ég var svolítið seinna á ferðinni en vanalega, svona uppúr kl. 9. Það var lítil umferð og því tilvalið að nota göturnar til hins ítrasta. Með því náði ég enn meiri hraða og hef ekki fyrr verið svo snöggur til vinnu. Samt var mótvindur seinni hluta leiðarinnar. Þetta var ekki átakalaust en bara gaman. Svo skemmdi smá rigning ekki fyrir stemningunni.
Mér telst til að ég hafi hjólað 54 daga til vinnu frá áramótum. Að meðaltali eru þetta 51 mínúta á dag.

Wednesday, April 14, 2010

14. apríl

Veður: Suðvestan 5 og 4,5 stig
Ferðatími: 20:37 mín
Meðalhraði: 27,1 km/klst

Ég fæ einhvern veginn á tilfinninguna að vindur hafi meiri áhrif þegar ég er kominn á sumardekkin. Ég kemst mun hraðar og líklega eru áhrif mótvinds a.m.k. hlutfallslega meiri en þegar hjólað er á nöglum. Í vetur var að muna þetta 5 km/klst á heimferð og ferð í vinnu, yfirleitt í léttum mótvindi á leiðinni heim. Núna munar þetta 7-8 km/klst í svipuðum vindi. En þetta kemur betur í ljós þegar líður á vorið.

Tuesday, April 13, 2010

13. apríl

Veður: S 4m/s og 5 stiga hiti
Ferðatími: 18:33 mín
Meðalhraði: 28,2 km/klst

Þetta var nú frekar hraður morgun. Ég náði að klóra mig frammúr gírunum í gær og því smellvirkaði allt í morgun. Það var nett rigning og mér finnst mikið vor í lofti. Við þessi skilyrði er hvað skemmtilegast að hjóla. Enn eru ekki óhóflega margir á stígunum en fjöldinn eykst væntanlega jafnt og þétt næstu vikur og nær hámarki í kringum Hjólað í vinnuna, sem er snilldarverkefni.

Monday, April 12, 2010

12. apríl - nú er komið vor

Veður: Suðaustan 1m/s og 4,4 stig
Ferðatími: 19,3 stig
Meðalhraði: 27,6 km/klst

Kominn á sumardekkin og sveif áfram. Þvílík viðbrigði. Viðnámið snarminnkar. Ég fékk mér fínmynstruð dekk og það kemur mjög vel út. Þau eru aðeins belgmeiri eða 700 x 45 en ekki 700x 40 eins og vetrardekkin.
Ég náði hins vegar að afstilla gírana að framan og tókst ekki að ná þeim góðum aftur. Verð sennilega að leita til þjónustuaðila með þetta.

Friday, April 9, 2010

9. apríl

Þetta lítur nú ekki vel út í apríl en þessi vika fór í veikindi og aumingjaskap. Tók síðan strætó. Nagladekkin verða að fjúka um helgina.

Wednesday, March 31, 2010

31. mars

Af því að ég hjólaði nú ekki í dag þá nota ég tækifærið og birti línurit sem sýnir þróun í meðalhraða frá áramótum. Mesta óreglan í meðalhraða er í febrúar þegar færðin er hvað misjöfnust en síðustu vikurnar í mars er komið á meira jafnvægi. Merki um vorið er síðasti rauði punkturinn en hann sýnir að ég hef náð um 24 km/klst meðalhraða heim, sem gerist ekki nema við mjög góðar aðstæður. Þá var ég innan við 22 mín á leiðinni, enda smá meðvindur.

Tuesday, March 30, 2010

30. mars

Veður: NA 5m/s og 5,3 stiga frost
Ferðatími: 21:57 mín
Meðalhraði: 23,6 km/klst

Nú var ég á ferðinni fyrr en venjulega, uppúr kl. hálf átta. Þá virðast fleiri vera á ferðinni hjólandi en hálftíma síðar. Gaman að vita hvort einhverjar talningatölur liggja fyrir.
Ég sé að það er fundur um reiðhjólið, besta farartæki borgarinnar, í kvöld á vegum samtaka um bíllausan lífsstíl. Væri gaman að kíkja. Maður er búinn að vera svona frekar einangraður í þessu, svona fyrir utan vinnufélaga og nánustu ættingja.
Annars skráði ég mig í íslenska fjallahjólaklúbbinn um daginn. Kemur í ljós hvort maður verður eitthvað virkur í því starfi eða bara fljóti með og verði hluti af tölfræði. Þarna er reyndar möguleiki á þokkalegum afsláttum sem er full þörf á í dýrtíðinni. Rekstur á reiðhjóli getur orðið nokkur ef það er eitthvað notað.

Monday, March 29, 2010

29. mars

Veður: Norðan 10m/s og 4 stiga frost
Ferðatími: 25:14 mín
Meðalhraði: 21 km/klst

Helv. kalt í morgun. Mótvindur og frost. Ég var náttúrulega klæddur eins og vordagur væri og því orðinn kaldur í náranum og á puttunum. En hlýleg sturtan jafnaði það út. 

Friday, March 26, 2010

25. mars - 100. bloggið

Veður: SA 1 m/s og 1 stig
Ferðatími: 20:15 mín
Meðalhraði: 25,9 km/klst

Kallinn var aðeins að flýta sér í morgun. Ekki það að það muni nú miklu í tíma hvort maður flýtir sér eða ekki, kannski 3-4 mín. Það segir ákveðna sögu. En hjóla síðan heim á morgun.
Þetta er sumsé 100. bloggfærslan síðan síðasta haust. Það er nokkurn veginn sá fjöldi daga sem ég hef hjólað síðan í lok ágúst. Inn í þessu er 1 mánuður í fæðingarorlofi þegar ég hjólaði ekki neitt. 100 dagar sinnum 18 km á dag eru 1800 km. Hvað ætli það séu margar hitaeiningar? Sennilega um 60.000. Hvað ætli kosti að brenna 60.000 hitaeiningum í líkamsræktarstöð og hvað ætli sé eytt mikilli orku við að láta mann brenna því t.d. í formi rafmagns? Bara pæling.

Tuesday, March 23, 2010

23. mars - sópað

Veður: Austan 11 m/s og 4,4 stig
Ferðatími: 21:33 mín
Meðalhraði: 24,4 km/klst

Rok af þessari stærðargráðu getur haft talsverð áhrif á ferðina. Mótvindurinn dregur með tímanum úr manni mátt, ekki síður andlega en líkamlega. Hliðarvindurinn getur hent manni út af. Og meðvindurinn er hjálplegur en getur líka blekkt mann til að hjóla alltof hratt þar sem aðstæður leyfa það ekki.

Annars verð ég að hrósa Reykjavíkurborg fyrir að sópa stígana í gær. Þurr sandurinn er byrjaður að fjúka auk þess sem hann myndar hættulegt yfirborð. Ég held þetta hljóti að vera óvenju snemmt.

Monday, March 22, 2010

22. mars

Veður: NA 4m/s og 4,6 stig
Ferðatími: 21:56 mín
Meðalhraði: 224 km/klst

Hann var svalur í morgun og nokkuð stífur á móti fyrri hluta leiðarinnar en varð síðan þægileg hliðarátt. Spáin er þannig að það mun ekki frjósa á næstunni og ég reikna með að taka naglana undan í kvöld. 

Thursday, March 18, 2010

18. mars

Veður: Norðausan 2m/s og 4,6 stiga hiti
Ferðatími: 22:45 mín
Meðalhraði:23,2 km/klst

Nú snarfjölgar hjólreiðamönnum og það á bara eftir að aukast. Það gæti orðið áhugavert að fylgjast með hvort aukin umferð hjólreiðamanna hafi áhrif á ferðatímann hjá manni. Allavega sýnist mér ljóst að þetta stígakerfi springi í vor. 

Wednesday, March 17, 2010

17. mars

Veður: Austan 5m/s og 6 stiga hiti
Ferðatími:  21:28 mín
Meðalhraði: 24,5 km/klst

Ég hafði það á tilfinningunni í morgun að fleiri séu vaknaðir til lífsins og fari nú ferða sinna á hjóli. Vortilfinningin er að breiðast út. Skemmtilegast er að fylgjast með vorkomunni í Elliðaárdal og Laugardal, altsvo á minni hefðbundnu leið. Strandlengjan er líka skemmtileg á þessum tíma, fuglarnir hrúgast inn í vogana.

En ég finn það alltaf betur og betur hvað hjólreiðar eiga illa samleið með gangandi umferð. Þá á ég við samgönguhjólreiðar en ekki fjölskylduútgáfuna. Hjólreiðamenn á yfir 20 km/klst hraða eiga ekki heima á göngustígum. Hvað þá yfir 30 km/klst. Göturnar eru þá mun betri kostur. En þá er maður kominn í sömu stöðu og gangandi fólk á göngustíg gagnvart hjólreiðamönnum, bara hættulegra. Ég er þó ekki frá því að bílstjórar séu farnir að venjast hjólreiðunum. Það væri gaman að sjá könnun á viðhorfi bílstjóra til hjólreiða í umferðinni, eru þær pirrandi, á að banna þær eða er þetta bara besta mál.

Tuesday, March 16, 2010

16. mars

Veður: Austan 6m/s og 2,7 stig
Ferðatími: 22:23 mín
Meðalhraði: 23,6 km/klst

Hálf kuldalegt í morgun, austan kuldi með slyddu. Mótvindur fyrri helming leiðarinnar en svo meðvindur. Mjóddin tekur nánast allar vindáttir og gerir úr þeim mótvind eða meðvind. Það gerir mannvirkjabeltið.

Monday, March 15, 2010

15. mars

Veður: Vestan 2m/s og 3,5 stig
Ferðatími: 21:29 mín
Meðalhraði: 24,5 km/klst

Nú er orðið bjart fyrir kl. 8. Ferðirnar eru fremur viðburðalitlar þessa dagana en mjög fín skilyrði fyrir utan sandinn á stígunum. Það styttist í 100. hjólabloggfærsluna sem er nú ágætt. Ég er núna búinn að hjóla 652 km síðan 11. janúar og eingöngu til og frá vinnu, á rúmum tveimur mánuðum. Það þýðir að maður ætti að hjóla ca 3.000 km á árinu. Mér segir svo hugur að það kalli á eitthvert viðhald á hjólinu. Ég skipti um bremsuborða í haust og þarf núna að skipta um bremsuborða að aftan. Svo þarf að stilla gírana eitthvað hjá mér, efstu og neðstu eru ekki alveg hljóðlausir. Reyndar er þetta hjól frekar lágt gírað og ég nota aldrei neðstu gírana þ.e.a.s. minnsta tannhjólið að framan og ekki heldur stærstu tannhjólin að aftan. Efstu gírarnir mættu líka vera hraðari.

Í haust sendi ég sjúkrasjóði BHM erindi þar sem ég benti þeim á mismunun í reglum sjóðsins varðandi líkamsræktarstyrki. Reglurnar hafa miðast við þá sem kaupa einhverskonar kort í líkamsrækt, einhverja stöðina, skíði eða sund. Þeir sem stunda útihlaup nú eða hjóla hafa ekki átt kost á þessu. Reglunum var síðan eitthvað breytt og ég á eftir að láta á það reyna hvort hægt er að fá styrk vegna viðhalds á reiðhjóli, nú eða til að kaupa sér einhvern hjólabúnað. Ef einhver les þetta þá væri áhugavert að fá einhverjar reynslusögur eða viðhorf.

Friday, March 12, 2010

12. mars

Veður: Vestan 2m/s og 3,5 stig
Ferðatími: 21:27 mín
Meðalhraði: 24,2 km/klst

Það var svolítið kalt á kafla, svalur vindurinn, en annars frábært veður. Ég pakkaði lambhúshettunni niður og setti buffið upp. Það kemur betur út þegar orðið er svona hlýtt.

Heimleiðin: Meðalhraði 18,9 km/klst, hámarkshraði 35,6, tími 32:17 og vegalengd 10,2 km. Suðvestan 5 og 5,5 stiga hiti.

Wednesday, March 10, 2010

10. mars

Veður: SA 3m/s og 5 stiga hiti
Ferðatími: 19:52 mín
Meðalhraði: 26,5 km/klst

Það er bara kominn mikill vorhugur í kallinn núna og ekki ólíklegt að maður fari að lengja leiðina þegar veður er svona hagstætt. Möguleikarnir eru nokkrir, niður Kópavogsdalinn, fyrir Kársnes, Fossvogurinn, Sæbrautin, Suðurgata o.s.frv. Þetta eru mislangir leggir en líka gaman að safna upplýsingum um ferðatíma á þessum leiðum við mismunandi skilyrði. Það er varla óhætt að taka naglana undan en ansi er það nú freistandi.

En ég tók eina mynd á leiðinni þar sem sandurinn er nú svona ríkjandi yfirborðsgerð á stígunum um þessar mundir.

Tuesday, March 9, 2010

9. mars - talsvert vorlegt

Veður: SA 7m/s og 6,6 stiga hiti
Ferðatími: 19:26 mín
Meðalhraði: 27 km/klst

Ég viðurkenni það fúslega að það munar um meðvind. Ferðin gekk mjög greiðlega og þessi meðalhraði er frekar hár svo ekki sé meira sagt. Enda er það svo að þegar maður nær að hjóla á götum þá eru þær hannaðar með það í huga að farartæki séu fljót á milli staða. Það gildir hins vegar sjaldnast um stíga. Þeir eru alsettir hindrunum s.s. beygjum sem draga úr hraða. Þá er ég ekki að tala um aflíðandi beygjur heldur 90° beygjur.
En það er vor í lofti og vindur hlýr. Rigningin er bara til bóta. Hins vegar klæddi ég mig of mikið í morgun og er af þeim sökum að svitna langt fram eftir morgni þrátt fyrir sturtu. Nú er nóg að vera í hjólabuxunum, þunnum bol og vind-/regnjakka, og að sjálfsögðu endurskinsvesti ef jakkinn er ekki þannig á litinn. Reyndar er að verða vel bjart um kl. 8.
Nú er sandur á stígum í miklum mæli. Hann er sérstaklega varasamur í áðurnefndum beygjum. Yfirleitt er beðið eftir að hann rigni eða fjúki burt á veturna. Það er ekki sópað fyrr en í vor.

Monday, March 8, 2010

8. mars

Veður: Suðaustan 4m/s og 6 stiga hiti
Ferðatími: 22:08 mín
Meðalhraði: 24,4 km/klst

Megnið af snjónum hvarf í nótt. Dálítið krap eftir á stígunum, mismikið þó. Það styttist í vorið hér á láglendinu. Hins vegar virðist færðin í efri byggðum hafa verið lakari í morgun. Hvernig er þetta vaktað af bæjarfélögunum? Ég efast ekki um að farið er snemma á fætur á þeim bænum.

Friday, March 5, 2010

5. mars

Veður: SV 7m/s og 5 stiga hiti
Ferðatími: 22:29 mín
Meðalhraði: 25,2 km/klst

Það var nú bara vel ásættanlegt að hjóla. Ansi blautt á köflu, eins og þessi pollur eða tjörn í Elliðaárdal.  Eins og tölurnar hér að ofan gefa til kynna var nokkuð þægilegur meðvindur og hraðinn því með ágætum en ég hjólaði líka götuna um 90 % leiðarinnar.

Ég tók nokkrar myndir í gær en þær voru ferkar slappar, regndropi á linsunni og vond birta. En það má skoða þær hér. Færið var afleitt á stígunum, troðinn snjórinn að bráðna og hjólið datt niður í gegnum krapann hér og þar.
Uppáhaldsmyndin er þessi, sem sýnir samstarf Reykjavíkur og Kópavogs í hnotskurn.
Ég náði því miður ekki góðri mynd af röstunum eftir moksturstækin en þessi gefur vísbendingu um það sem gerist þegar þeir þvera stígana og skilja eftir snjórastir.
Heimleiðin var ansi erfið eftir körfuboltaæfingu enda Suðvestan 10m/s. Gott að fá sér einn kaldann að því loknu. En ég var 39:23 mín á leiðinni, 10,5 km, meðalhraði 15,9 km/klst, hámarkshraði 33,5. Það var reyndar athyglisvert að hinn nýji hjólastígur í Fossvoginu hefur alls ekki verið mokaður. Hmm, hvaða forgangsröðun ætli ráði þar um?

Thursday, March 4, 2010

4. mars

Veður: SV 4m/s og 2 stiga hiti
Ferðatími: 25:23 mín
Meðalhraði: 21,1 km/klst

Ok, þetta var mun betra í dag. Snjórinn orðinn þéttari og á köflum búið að skafa betur. Best er þó að nota göturnar þar sem er 50 km hámarkshraði eða minna. Líklega eru bílstjórar margir hverjir að venjast hjólreiðafólki í auknum mæli, veit það þó ekki. En það er mikið slabb og salt sem lendir á hjólinu. Ég ætla að taka nokkrar vel valdar myndir á heimleiðinni til að skrásetja aðstæður.

Tuesday, March 2, 2010

2. mars

Eftir að hafa hossast heim í gær eftir illa hreinsuðum stígum og sjá fram á að aðeins hafi bætt á snjóinn á þessum sömu stígum með tilheyrandi hossi þá ákvað ég að taka strætó í morgun. Ég verð nú að segja að vegna seinagangs við hreinsun á stígunum þá misstu menn af upplögðu tækifæri til að láta sólina hreinsa stígana í gær. Það gerðist einmitt í Elliðaárdalnum. Ef á annað borð er verið að leitast við að hreinsa stígana þá á að gera það sem fyrst áður en snjórinn treðst niður. Einnig virðist á köflum þurfa að stika stígana en víða er ruðningurinn að mestu úti á grasflötunum. Svo virðist ekki vera nokkur tilfinning fyrir því að laga snjógarða og rastir sem myndast þvert á stíga. Ég er semsagt frekar óhress með hvernig staðið er að hreinsuninni þessa dagana.

Monday, March 1, 2010

1. mars - ekkert hrós

Veður: Austan 5m/s og 0 stig
Ferðatíminn: Eitthvað skrítinn, snjór á nemanum.

Það fær hvorugt bæjarfélagið Kópavogur eða Reykjavík hrós fyrir góða hreinsun á stígum í dag. Eina leiðin var að hjóla göturnar í saltslabbinu.Smá kafli stíga í Elliðaárdalnum er áberandi best hreinsaður.
En það er komið að uppgjöri febrúarmánaðar og hér er mynd sem sýnir meðalhraða frá áramótum. Eins og sést eru síðustu dagarnir nokkuð strembnir á leið til vinnu vegna snjóa. Vantar gögn fyrir heimferðina.

Friday, February 26, 2010

26. febrúar - meiri snjór

Veður: Suðvestan 2 m/s og -6,6 stig
Ferðatími: 35:21 mín
Meðalhraði: 15,5 km/klst

Það var ekki hægt að hjóla út úr hverfinu mínu vegna snjóa. Göturnar nánast ófærar af hálftroðnum snjó, sem er versta mögulega færi fyrir reiðhjól. Þegar komið var út á stofnstíga var búið að moka þá flesta en ekki þótti mér þó vandað til verka, skilin eftir 2-5 cm filma af snjó sem er ákaflega erfitt að hjóla í. En þetta hafðist. Ég mætti ekki mörgum hjólreiðamönnum í dag. Saknaði þess líka að hafa ekki myndavélina með. Og þegar ég horfði í augun á bílstjórunum í þá sá ég eitt spurningamerki, hvern fjandann er ég að gera á hjóli í þessari færð? Ok, ég skil það sjónarmið. En það er líka mikilvægt að fá upplýsingar um hvernig er að hjóla við þessar aðstæður.

Thursday, February 25, 2010

25. febrúar - snjór!

Veður: Austan 10 m/s og -5 stig, snjókoma.
Ferðatími: 30:05 mín
Meðalhraði: 18 km/klst

Það voru margir skaflar á leiðinni en sem betur fer viðstöðulítill snjór. Göturnar voru með afbrigðum erfiðar að hjóla þar sem bílar höfðu ekið. Þess vegna var skásti kostur að þræða gangstéttar og göngustíga þar sem lítil eða engin umferð hafði verið. Ekki var nú búið að moka marga stíga uppúr kl. 8, sem er nú ekki mjög metnaðarfullt af hálfu Kópavogs og Reykjavíkur. En ég verð að segja að mér finnst gaman að vera úti í þessu veðri, og ég þurfti bara ekkert að skafa eða bíða í umferðarteppu. 

Wednesday, February 24, 2010

24. febrúar - enn frost

Veður:NA 3m/s og -5,3 stig
Ferðatími: 22:33 mín
Meðalhraði: 23,6 km/klst

Frostið bítur í andlitið en birtan kemur sterk inn á þessum tíma, orðið vel sjónbjart um kl. 8. Það er svolítið vandasamt að klæða sig í svona veðri. Manni snarhitnar við hjólreiðarnar en að sama skapi kólna ákveðnir punktar hratt niður ef þeir eru ekki vel varðir. Vindvörn er í raun mikilvægust í þessu en hún myndar líka svita þannig að það er ekki bæði sleppt og haldið.

Tuesday, February 23, 2010

23. febrúar - frost

Veður: Norðaustan 1m/s og -6,5 stig
Ferðatími: 22:53 mín
Meðalhraði: 23,2 km/klst

Helvíti kalt í morgun en hlýnaði eftir því sem vestar dró. En það er engin hálka á svæðinu svo naglarnir sarga bara malbikið. Það er hins vegar nokkuð ljóst að ef ég tek þau undan þá kemur hálka. Hins vegar má nefna það að öskudagur mun eiga sér 18 bræður og því stefnir í norðanátt og frost til 7. mars.

Wednesday, February 17, 2010

17. febrúar - öskudagur

Veður: austan 1 m/s og -3 stig
Ferðatími: 24:29 mín
Meðalhraði: 23 km/klst

Það var farið seint út húsi í morgun og því orðið nokkuð bjart. Það er mikill munur. Ég hjólaði Langholtsveginn og fann óöryggi sumra bílstjóra gagnvart því hvar mætti fara frammúr hjólandi manni. Vafalítið pirraðir. En ef bílstjórar eiga að læra að hegða sér í blandaðri umferð þá verða einhverjir að fórna sér í að kenna þeim.

Tuesday, February 16, 2010

16. febrúar - 6 ára afmæli

Veður: Suðvestan 2m/s og 0,7 stiga hiti
Ferðatími: 23 mín sléttar
Meðalhraði: 23 km/klst

(Veit ekki hvað þetta er með 23 í dag) En í morgun opnaði 6 ára stelpan mín afmælispakka með hlaupahjóli. Ég fann ekkert annað en Hello Kitty dæmi og lét það gott heita. Hún valhoppaði síðan alla leið í leikskólann.
Allar aðstæður til hjólreiða voru uppá það besta í morgun. hægur vindur og autt. Svolítið svalt en ekkert til að gera veður út af. Ég sá ábendingu um það á danskri hjólasíðu að maður ætti að hjóla reglulega nýjar leiðir. Þá væri maður meira vakandi gagnvart umferðinni. Ég held þetta sé rétt. Ef maður hjólar sífellt sömu leið þá verður ferðin full vélræn og ósjálfráð.

Monday, February 15, 2010

15. febrúar - loksins norðanátt

Veður: Norðvestan 9m/s og -2,6 stig
Ferðatími: 31:05 mín
Meðalhraði: 17,5 km/klst

Það var bara helvíti erfitt að hjóla í morgun.Ég man varla eftir að hafa verið svona lengi á leiðinni til vinnu, þó ekki nema um hálftími, u.þ.b. jafnlengi og strætó. Svo var einhver þreyta í mér síðan í gærkvöldi, langur körfuboltatími sem tók svolítið í. Fann það jafnvel í kálfunum.
En þetta var eiginlega fyrsta alvöru norðanáttin í vetur.

Friday, February 12, 2010

12. febrúar

Veður: Norðaustan 4m/s
Ferðatími: 21:24 mín
Meðalhraði: 24,7 km/klst

Þetta er náttúrulega ótrúleg veðrátta í janúar og febrúar. Bara eins og maí morgunn, bara aðeins dimmara og engir fuglar. Það eru reyndar nokkrir fuglar á ferðinni sem telja óþarfa að þeir sjáist, nóg að þeir sjái aðra. Þetta eru einkum hjólreiðamenn. Þrátt fyrir að vera á góðum hjólum þá leggja þeir ekki í að splæsa í ljósabúnað. Ekki gott.

Wednesday, February 10, 2010

10. febrúar

Veður: Suðaustan 4 m/s og 4 stiga hiti
Ferðatími: 20:30 mín
Meðalhraði: 26,1 km/klst

Það var ósköp þægilegt að hjóla, lítill vindur, notalegur raki og ekki of mikil umferð. Í gær var ég ekki í stuði til að taka á því heim en var samt ekki nema 28 mínútur á leiðinni. Málið er að ná að halda jöfnum hraða sem mestan hluta leiðarinnar.

Tuesday, February 9, 2010

9. febrúar - vor

Veður: Suðaustan 1m/s og 4,5 stiga hiti
Ferðatími: 21:39 mín
Meðalhraði: 24,5 km/klst

Ég er að fá alveg nóg af því að hjóla á nagladekkjum þessa dagana, alautt og vor í lofti. Kannski fullsnemmt þó að telja veturinn að baki.
En það er bara snilld að hjóla þessa dagana, lítill vindur og milt veður. Sennilega einhver besti hjólavetur sem um getur á þessu svæði.

Monday, February 8, 2010

8. febrúar

Veður: Suðaustan 1m/s
Ferðatími:21:40 mín
Meðalhraði: 24,4 km/klst

Það voru góð skilyrði til hjólreiða í morgun og hægt að hjóla greitt. Fleiri á ferðinni hjólandi en undanfarið.

Friday, February 5, 2010

5. febrúar

Veður: Austan 5m/s og 0,5 stiga hiti
Ferðatími: 22:42 mín
Meðalhraði: 23,2 km/klst

Ég er eitthvað að klæða mig of mikið núna. Hitamælir heimilisins sýnir hörkufrost en úti fyrir er í kringum frostmark.
Svifrykið fór hamförum í gær. Ég var feginn að geta sett buff fyrir vitin þar sem ástandið var verst þó það taki ekki nema stærstu kornin. Leiðinlegt að fá öndunarfærasjúkdóm við að stunda líkamsrækt.

Thursday, February 4, 2010

4. febrúar - svartur köttur

Veður: Austan 3m/s og 1,7 stiga frost.
Ferðatími: 23:02 mín
Meðalhraði: 22,9 km/klst

Það var hlýrra en ég bjóst við í morgun svo ég var við öllu búinn.
Nú fann ég hvað svona hliðartaska getur verið góð. Tók feltföt með mér og ekkert mál. Yfirleitt er hún óþarflega stór.
En það skokkaði svartur köttur þvert yfir stíginn á leiðinni. Hann var eitthvað að kíkja á kanínurnar í Elliðaárdalnum. En það gerðist svosem ekkert á leiðinni.

Wednesday, February 3, 2010

3. febrúar

Veður: Austan 4m/s og 1,6 stiga frost
Ferðatími: 23:10 mín
Meðalhraði 22,8 km/klst

Það var ansi mikil umferð í morgun og ég þurfti nokkrum sinnum að stoppa til að bíða eftir bílum. En skítakuldi.
Ég setti upp mynd sem sýnir meðalhraða alla hjólaða daga í janúar, annars vegar til vinnu og hins vegar heim. Meðalhraðinn til vinnu er um 23 km/klst en heim um 19 km/klst. Það er nokkur sveifla í þessu. Ástæðurnar geta verið margar en vindur ræður þar augljóslega nokkru. Einnig getur umferðin haft nokkuð að segja og ekki síður dagsformið.

Tuesday, February 2, 2010

2. febrúar


Veður: Austan 3 m/s og 1 stigs hiti
Ferðatími:22:10 mín
Meðalhraði: 23,7 km/klst

Það var svalt í morgun, austanáttin náði að vera mér mótstæð á kafla. Vindur er stúdía út af fyrir sig varðandi hjólreiðar og hönnun og skipulag hjólreiðastíga. Hvað eru ríkjandi vindáttir? Hvernig er míkróveðrið? Hvaða áhrif hafa mannvirki á vind? Hvernig má vega á móti áhrifum vinds á hjólaleiðum? Þetta er verðug stúdía, ekki síst hér á landi hinna miklu vinda.

Til gamans má geta þess að meðalvindhraði á mínum ferðum í janúar eru 5,6 m/s. Á bak við þessa rannsókn eru 28 athuganir. Ríkjandi vindáttir eru sunnan og austanstæðar, sérstaklega suðaustanátt. Meðalhiti er er 4,4 gráður í plús. Þetta gæti verið verra, svona í janúar.

Monday, February 1, 2010

1. febrúar

Veður: Austan 2m/s og 2 stiga hiti.
Ég núllstillti óvart hraðamælinn þannig að allar ferðaupplýsingar morgunsins þurrkuðust út. En það var sumsé hálka víða á leiðinni. Ótrúlega dimmt. 

Friday, January 29, 2010

29. janúar

Veður: Austan 1m/s og 1,5 stiga frost
Ferðatími: 23:22 mín
Meðalhraði: 22,5 km/klst
Mér tókst að detta þegar ég hjólaði á stein á miðjum göngustíg. Ekki nokkur leið að sjá hann í myrkrinu. Ekkert alvarlegt þar sem ég var á hægri ferð.

Ég verð að hrósa hverfamiðstöð Reykjavíkur í Breiðholti fyrir snögg viðbrögð. Sendi þeim póst á miðvikudaginn þar sem ég lét þá vita af stórri holu í stígnum í Elliðaárdal. Það var búið að fylla í hana morguninn eftir.

Það er einn hjólreiðamaður búinn að niðurlægja mig tvo morgna í röð, hjólar frammúr mér á sama stað, að því er virðist fyrirhafnarlaust. Þetta er ekki gott fyrir egóið.

Thursday, January 28, 2010

28. janúar

Veður: Vestan 3m/s og 3 stiga hiti
Ferðatími: 22:41 mín
Meðalhraði: 23,2 km/klst
Ég var aðeins seinna á ferðinni í dag og lenti í meiri umferð en vanalega. Það sannar sig enn og aftur að bílstjórar sjá mann ekki vel við þessi erfiðu skilyrði, myrkur og bleyta. Reyndar verður að segjast eins og er að sumir bílstjórar sjá betur en aðrir. Hefur eitthvað með hraða þeirra í lífinu að gera almennt og virðingu fyrir því sem er í kringum þá.
En við vorum að ræða aðstöðu hjólreiðamanna hér á Íslandi og í Danmörku í vinnunni. Góðir stígar, góð sturtuaðstaða í fyrirtækjum og stofnunum og síðast en ekki síst, flatt. Og svo er náttúrulega munur á veðri. Þar þarf, að öllu jöfnu, ekki að splæsa í nagladekk undir hjólin.

Wednesday, January 27, 2010

27. janúar - vestanstæður

Veður: norðvestan 4 m/s og innan við 3
Ferðatími: 22:31 mín
Meðalhraði: 23,4 km/klst

Það var hægur mótvindur, vestanstæður, í morgun. Þetta er frekar sjaldgæft en ágæt tilbreyting. Það gæti þá orðið mótvindur heim, sem er að sama skapi sjaldgæft.
Eitt öryggisatriði á leiðinni: Í Elliðaárdal er komin gríðarstór hola í stórum polli sem hefur myndast þar í rigningum síðustu daga.Holan sést ekki þegar pollurinn er en hún er hættuleg hjólandi fólki. Eins er ljóslaus ljósastaur í brekkunni niður í Elliðaárdal frá stekkjunum. Þar er bæði beygja og talsverður halli og því afar óheppilegt að hafa þar slæma lýsingu.

Tuesday, January 26, 2010

26. janúar

Veður: Suðvestan 3 m/s og 4 stiga hiti.
Ferðatími: 21:51 mín
Meðalhraði: 25,7 km/klst

Algjörar snilldaraðstæður í dag. Rólegur vindur og þægilegt hitastig. Ég hjólaði aðra leið en vanalega, Langholtsveg og Laufásveg og síðan Sundlaugarveginn. Það er fín leið, lítil umferð og litlar hæðabreytingar.

Monday, January 25, 2010

25. janúar - meðvindur

Veður: Sunnan 12 m/s og 10 stiga hiti. Hviður upp í 30 m/s
Ferðatími: 21:31 mín
Meðalhraði: 24,6 km/klst

Það var ansi hreint góður meðvindur í morgun. Þurfti að standa á bremsunni á köflum. Og svo var svo hlýtt að maður svitnaði eins og andskotinn. En meðvindurinn dugði ekki til að setja nein hraðamet. Það þarf fleira að koma til, engin stopp, það þarf allt að liggja fyrir manni. Ég þurfti að stoppa a.m.k. þrisvar á leiðinni. Það þýðir að maður þarf að vinna upp hraðann á nýjan leik og það tekur svolítið á, kostar mikinn tíma.

Thursday, January 21, 2010

21. janúar - stormviðvörun

Veður: Suðaustan 11 m/s
Ferðatími: 21:19 mín
Meðalhraði: 25 m/s
Vindurinn náði að vera bæði með og á móti en aðallega var þó meðvindur. Þá nær maður þessum meðalhraða. En það er heimferðin sem gæti orðið fróðleg í dag þar sem stormviðvörun liggur í loftinu og mótvindur í þokkabót.
Það voru fáir á ferli í morgun, kannski einhverjir skilið hjólið eftir heima?
En svo þarf ég líka að kaupa hákarl í heimleiðinni, nú eða á morgun.

Seinnipartur: Þetta var ósköp lítið mál. Hviðurnar voru ansi harðar en ég var einhvern hálftíma á leiðinni, sem er tiltölulega eðlilegt.

Wednesday, January 20, 2010

20. janúar - rigning

Veður: Suðaustan 2m/s og 4 °C.
Ferðatími: 21:25 mín
Meðalhraði: 24,6 km/klst
Þetta var nú frekar viðburðalítil ferð í morgun. Notaleg rigning sem hríslaðist um lærin, talsverð umferð hjólandi fólks.

Tuesday, January 19, 2010

19. janúar - asahláka og meðvindur

Veður; Sunnan 6m/s og 9 stiga hiti.
Ferðatími: 20:18 mín

Meðalhraði: 26,1 km/klst
Þetta var frekar létt í morgun. Engin hálka, meðvindur og hlýtt. Og það var nánast engin umferð á stígunum.

Monday, January 18, 2010

18. janúar - hálka

Veður: Suðvestan 4 m/s og 3 stiga hiti.
Ferðatími: klikkaði eitthvað.
Déskoti hált í morgun, a.m.k. á stígunum. Fjölfarnar götur voru auðar. Ég hjólaði hægt nánast alla leið en tókst ekki að dokumentera þessa ferð, eitthvert pikkles í hraðamælinum.

Friday, January 15, 2010

15. janúar - jeppar og hundar

Veður: Suðaustan 4 m/s og 4 stiga hiti.
Ferðatími:  26:35 mín
Meðalhraði: 20,6 km/klst

Hálka víða um borgina í morgun.
Upphækkaðir jeppar eiga ekki upp á pallborðið hjá mér í umferðinni. Ökumenn þeirra sjá mann ekki eða vilja ekki sjá mann. Einn svoleiðis svínaði fyrir mig í morgun. Og ég er bara fordómafullur. En ég tel mig geta þekkt nokkuð úr þá sem svína.
Svo lenti ég í smá uppákomu við Kringlumýrarbrautina. Fullorðin kona með hund í bandi, bandið þvert yfir stíginn. Ég náði að stoppa og blessuð konan afsakaði sig í bak og fyrir. Þetta litla dæmi segir mér að hundar úti að labba með eigendur sína og hjólreiðamenn eiga ekki heima á sama stíg.

Thursday, January 14, 2010

14. janúar - hratt

Veður: Sunnan 6m/s og 6 stiga hiti.
Meðalhraði: 26,1 m/s
Ferðatími: 20:15 mín

Það var meðvindur í morgun og ég hjólaði nokkuð hratt. Þetta skapar augljóslega hættu fyrir mig og aðra, ekki síst við þessar aðstæður, myrkur og sandaða göngustíga. Margir eru illsjáanlegir á þessum slóðum, gangandi og hjólandi, svo ekki sé minnst á hundana. Það þarf því að hafa augun vel hjá sér og reyndar eyrun.

Wednesday, January 13, 2010

13. janúar - vindur

Veður: SA 6 m/s og 5 stiga hiti.
Ferðatími: 22:41 mín
Meðalhraði: 23,2 km/klst

Öll hálka er nú horfin af stígum og bara sandur og möl situr þar eftir. Göturnar eru hins vegar nokkuð hreinar.
Mætti einum í morgun sem horfði stíft ofan í stýrið á hjólinu og virtist ekki hafa hugmynd um að aðrir væru á ferð. Það er ekki bara það að bílstjórar eru illa meðvitaðir um tilveru hjólreiðamanna heldur eru hjólreiðamenn margir hverjir haldnir sömu einkennum.

Tuesday, January 12, 2010

12. janúar - rannsókn hafin

Veður: Austan 4 m/s og 2 stiga hiti.
Ferðatími: 22:53 mín

Meðalhraði: 23 km/klst

Við erum að tala um að nú er komin rannsókn í gang. Hér eftir verður safnað gögnum um vind og ferðatíma. Þessi gögn verða síðan greind með það í huga að sjá hversu mikil áhrif vindur hefur á ferðatíma. Þetta er auðvelt þar sem ég hjóla nánast alltaf sömu leið og samanburður því auðveldur.
Ég fékk sumsé hraðamæli í gær og reyndar nýja lambhúshettu sem er hinn mesti kostagripur.