Tuesday, December 22, 2009

22. desember - ekki hjólað

Það er nú ekki eitthvað til að færa í bækur en til að minna mig á það þá hjólaði ég hvorki til vinnu í gær eða í dag. Ekki gott fordæmi eða endir á árinu.

Friday, December 18, 2009

18. desember - ekkert að skafa

Veður: Bíleigendur þurftu flestir að skafa í morgun. Það var froststilla, heiðskírt og afar huggulegt.
Ég var aðeins of léttklæddur. Þá kom í ljós að nárinn er hvað opnastur fyrir kælingu þegar hjólað er. Thermo buxurnar mínar þyrftu að vera með fóðri á þessu hluta og jafnvel á hnjánum líka. Fingurgómarnir eru líka viðkvæmir. Mér sýnist að léttur ullarbolur, sá þynnsti frá Devold, og vindstopper frá Cintamani séu mjög góð samsetningí svona veðri. Buxur þurfa að vera léttari. Hjólabuxur er mjög góðar en það gæti verið skynsamlegt að taka vindkælinguna af með þunnum utanyfirbuxum. Ullarsokkar eru bara málið og ég er með frekar dapra flíshanska. Það væri betra að vera með vindhelda hanska. Hausinn þarf síðan að klæða nokkuð vel, einkum um eyrun og hálsinn. Ég er með tvöfalda klæðningu af buffi, annað ofan á kollinum og niður fyrir eyru, hitt um hálsinn og upp fyrir eyru. Þannig næ ég tvöföldu um eyrun.

Thursday, December 17, 2009

17. desember

Veður: Hæg norðanátt og vel yfir frostmarki en ég fann að kalt loft er að síga suður yfir.
Það var mikil umferð og því betra að gæta að sér, ekki gerir það neinn annar. Á stígunum er mikill sandur og beygjurnar viðsjálverðar. Annars er þetta ótrúlega hagstæð tíð hjólreiðafólki.

Wednesday, December 16, 2009

16. desember

Veður: Gerist vart betra í desember. Milt (frostlaust) og lítill vindur.
Færð: Hálkulaust alla leiðina, held ég. Myrkrið verður æ svartara og aldrei mikilvægara að merkja sig vel. Ég er kominn með tvær lugtir aftaná, eina framaná og endurskinsvesti. Samt reikna ég ekki með því að bílstjórar sjái mig.

Tuesday, December 15, 2009

15. desember - kuldapollar

Veður: Hæglætis veður og víðast hvar yfir frostmarki. Ekki þó í Elliðaárdal, sem er einstaklega gott dæmi um kuldapoll. Þó hvergi annarsstaðar sé hálka, þá getur verið hálka í Elliðaárdal. Kuldapollur er þegar kalt loft streymir að úr öllum áttum og safnast fyrir í lægð (sbr Elliðaárdalur), en heldur síðan áfram að kólna.
Færð: Í Salahverfi voru litlir hálkublettir hér og þar. Þegar neðar dró varð hálkan samfelldari. Ekki til vandræða þó.

Friday, December 11, 2009

11. desember - sprungt

Ég var svo ákafur að bæta lofti í afturdekki hjá mér í morgun að slangan rifnaði við ventilinn. Þetta er franskur ventill og því mjór og tíkarlegur og reyndar of langur. Í hamaganginum tókst mér því að skemma slönguna og átti ekki varaslöngu. Næst fæ ég mér slöngu með styttri ventil og varaslöngu.

Thursday, December 10, 2009

10. desember - ísing og lýsing

Veður: Hægviðri og í kringum frostmark, a.m.k. við jörð, því það var ísing alla leið. Veðurstofan segir 5 stiga hiti. En veðurfarsskilyrði voru mjög fín.
Færð: Ísingin þakti alla stíga en nöglunum líkar þetta vel og sé ekki hjólað mjög gassalega þá er þessi ferðamáti fínn.
Annars þurfa sveitarfélögin að passa betur upp á lýsinguna á stígunum. Það eru sprungnar perur hér og þar, óbein lýsing frá akbrautarljósum ófullnægjandi og sumsstaðar vantar alla lýsingu. Nú er rétti tíminn til að fara yfir þessi mál.

Wednesday, December 9, 2009

9. desember - sandur

Veður: Ekki mikið út á það að setja. Hiti hátt í 10 stig eða sirka 8. Vindur nokkur eða 7 m/s og austanstæður, mér fannst vera aðeins norðan í honum, sérstaklega eftir Skógarselinu.
Færð: Allur klaki farinn, naglarnir skerast í malbikaða stígana og rífa þá í sundur. Viðnámið eykst um ca 34% og meðalhraði lækkar um annað eins. Og hljóðið er ekki viðkunnanlegt, sargandi og sárt. Sandurinn eftir samviskusama bæjarstarfsmenn liggur eftir, tilgangslaus og til trafala, bíður eftir því að vera sópað burt í vor. Býður líka uppá að hjól djarfra hjólreiðamanna skríði til hliðar í beygjunum, detti jafnvel í götuna og skrapi læri og olnboga knapans. En Ísland er ófyrirsjáanlegt og þeim vorkunn sem eiga að þjónusta samgönguæðar eins og hjólreiðastíga.

Tuesday, December 8, 2009

8. desember - jólalegt

Veður: Hæg norðlæg átt og í kringum frostmark. Spáir asahláku með suðaustan roki og rigningu næstu daga, sem þýðir að maður hjólar væntanlega á auðu á næstunni. Það er reyndar hið versta mál þegar naglarnir eru komnir undir, meira viðnám og skemmir naglana.
Annars er dálítill jólafílingur að hjóla um íbúðahverfin, seríur og skraut.

Monday, December 7, 2009

7. desember - aftur af stað

Fæðingarorlofið búið í bili og þá segir konan: "skemmtu þér vel í vinnunni". Kominn á nagladekk og ekkert að vanbúnaði.
Veður: Kyrrt og hiti í kringum frostmark. Mikil ísing, nema á fjölförnustu götum sem búið er að salta.
Ég líki því ekki saman hversu stresslaus ferðamáti hjólreiðarnar eru miðað við bílismann. Á þessum tíma er helst að illa upplýstir vegfarendur, gangandi eða hjólandi, séu ógn við umferðaröryggi. En ferðin í morgun gekk sumsé vel. Þarf aðeins að aðlaga klæðnaðinn, var orðinn kófsveittur af lítilli áreynslu og það má segja að reglan sé að manni eigi að verða kalt í kyrrstöðu, þá sé maður líklega hæfilega klæddur fyrir hjólreiðar.

Monday, November 9, 2009

9. nóvember - orlof

Nú verður lítið um að ég hjóli í vinnuna næstu vikurnar þar sem ég reikna með að vera í fæðingarorlofi. Það gætu þó orðið einhverjir túrar til að halda sér í formi og hausnum í lagi.

Thursday, November 5, 2009

5. nóvember

Veður: Rólegheita vindur, austanstæður. Rétt ofan við frostmark en greinilega frost niður við jörð nokkuð víða. Tungl óð í skýjum.
Með lagni er ekkert mál að hjóla án nagla í þessu færi en það þarf sumsé að gæta að sér því hálkan leynist nokkuð víða. Það hins vegar breytist þegar kemur svell. Þá eru naglarnir grundvallaratriði.

Wednesday, November 4, 2009

4. nóvember

Veður: Kyrrt og svalt. Þetta er hagstæður tími hér á höfuðborgarsvæðinu. Maður þarf að klæða sig þokkalega, annars blána útlimir af kulda en ef maður er í ull næst sér og tekur af vind með einhverju öðru þá er maður í góðum málum.
Öryggi: Hálka var dálítil í efri byggðum enda frost í nótt. Það var samt ekki vandamál á sumardekkjum. Hins vegar varð ég þess áþreifanlega var að aldrei skyldi maður ætla að maður sjáist. BMW í Breiðholti svínaði gróflega fyrir mig í Skógarselsbrekkunni og hafði greinilega ekki hugmynd að ég væri nánast inní bílnum hjá honum.

Tuesday, November 3, 2009

3. nóvember og myrkrið

Veður: Bjart og svalt, nánast logn. Tunglið umvafið skýjaslæðu sem varpaði daufri birtu yfir borgina. Dæmalaust huggulegt.
Öryggi: Það eru allskyns verur á ferli í myrkrinu, tvífættir og fjórfættir. Fuglarnir skoppa á lítt upplýstum stígunum, kettir skjótast og blindast af beinskeyttum geisla framljósanna. Hundar eru óútreiknanlegir, sem og þeirra eigendur, í bandi eða ekki í bandi. Svo eru það illa upplýstir fótgangendur og kolleggar á hjólum, sem dúkka upp þá og þegar.
Stígarnir voru að mestu þurrir og því ekkert mál að hjóla á sumardekkjunum. Best að láta vikuna líða og sjá hvort kólnar frekar eða hvort stefnir í rauðan nóvember.

Monday, November 2, 2009

2. nóvember

Veður: Kalt í morgun og ansi launhált, sérstaklega í efri byggðum. yfirborð stíga og vega var blautt og því hafði myndast ísing þar sem hiti var í kringum 0-ið. Suðaustanáttin er söm við sig og eftir Skógarselið er mjög auðvelt fyrir mig að hjóla það sem eftir er.
Öryggið: Afturljósið var u.þ.b. að þrotum komið og því hjólaði ég aðallega á gangstéttum og stígum. Það væri ábyrgðarlaust að henda sér út í bílaumferð með enga týru aftaná hjólinu. Atriði númer eitt er að sjást þegar þessi árstími er. Ég er með blikkandi hvítt ljós að framan og blikkandi rautt ljós að aftan. Ljósið að framan gegnir fyrst og fremst þeim tilgangi að vekja athygli á mér en það nýtist nánast ekkert til að sjá framfyrir sig. Sama gildir um ljósið aftaná, því er fyrst og fremst ætlað að vekja athygli. Blikkandi ljós vekja frekar athygli en þau sem loga stanslaust. Slík ljós renna saman við önnur ljós í umhverfinu, útiljós, götulýsingar o.s.frv. Maður greinir þau varla fyrr en þau eru komin mjög nálægt. Ég mætti einni konu í morgun með blikkandi afturljós framaná og ekkert ljós aftaná. Lengi vel hélt ég að einhver væri á undan mér en svo kom hún bara á móti mér.
Annars lenti ég á umferðarskilti í morgun þegar ég smeygði mér yfir götu á gangbraut. Frekar hallærislegt.

Friday, October 30, 2009

30. október

Ástandið enn við það sama. Náði ekki að gera við í gær svo strætó naut nærveru minnar. Tók 7:30 strætó heima og hann var pakkaður af framhaldsskólanemum. Það gladdi mitt sóthjarta.

Thursday, October 29, 2009

29. september

Sprungið í morgun. Tók strætó.

Wednesday, October 28, 2009

28. september - settur dagur

Veður: Miklu hlýrra en ég gerði ráð fyrir og var því of vel klæddur. Ég verð að fá nýjan hitamæli á eldhúsgluggann. Smá vindur, suðaustanstæður. Verður væntanlega meiri á heimleiðinni.

Tuesday, October 27, 2009

27. október

Veður: Enn er vorveður hér á höfuðborgarsvæðinu. Bara huggulegt að hjóla. Eingöngu birtustigið gefur vísbendingu um að nú sé skammdegið að ná yfirhöndinni.
Öryggi: Blikkandi fram- og afturljós reiðhjólanna gefur vísbendingar um hjólreiðamenn á ferð. Þeir sem ekki hafa slíkt á sínu hjóli eru hættulegir sjálfum sér og öðrum.
Myndataka hefur legið niðri um nokkurt skeið. Þar kemur einkum tvennt til. Annars vegar hef ég verið of latur til að hjóla lengri leiðir heim eða til vinnu og hins vegar eru birtuskilyrði til myndatöku ekki uppá það besta.

Monday, October 26, 2009

26. október

Veður: Það var bara uppá það besta, hægur norðan vindur og milt. Kannski 5-6 gráður. Örlítil úrkoma, sem er bara hressandi.
Öryggi: Myrkrið er orðið allsráðandi á morgnana og eins gott að fara sér hægt og gera ekki ráð fyrir að maður sjáist. Þannig er það bara.
Ég hef verið að spá í heyrnina sem hluta af öryggisnetinu og er nokkuð viss um að ef maður heyrir í umferðinni, er ekki með eitthvað í eyrunum, þá eru minni líkur á árekstri. Maður heyrir í bíl sem er á leiðinni, þó hann sjáist ekki. Ég held þetta sé ekki ímyndun.

Thursday, October 22, 2009

22. október - lýsing

Ok, ég fór á bíl í vinnuna í gær.
Veður: Lagði snemma af stað í morgun og var kominn niður í vinnu fyrir kl. 8. Veðrið var frábært, milt, hægur vindur og létt úrkoma.
Öryggi: Vegna þess hversu árla ég var á ferðinni þá gerði ég mér ljóst að taka þarf sérstaka umfjöllun um lýsingar á stígum. Þær þarf víða að laga en annarsstaðar eru þær í fínu standi. T.a.m. vantar lýsingu í brekkunni niður frá Álfabakka ofaní Elliðaárdal. Þar er ekki ein ljósapera. Hins vegar er um hættulegan kafla að ræða sem þarf að lýsa upp. Eins þarf að bæta lýsingu meðfram afreininni af Miklubraut í átt að Sprengisandi. Þar er hættuleg blindbeygja, sem reyndar er hægt að laga auðveldlega og mikil þörf á lýsingu.

Tuesday, October 20, 2009

20. október - popp eða rokk

Veður: Grænfáninn við Fífusali lá niður með fánastönginni í morgun. Það þótti mér gott vitni þess að ekki væri miklum vindi fyrir að fara. Enda var það raunin. Hins vegar var ansi kalt og skv Veðurstofunni í frostmarki. Ég held reyndar að suðaustanáttin hafi verið u.þ.b. komin í Salahverfinu en ennþá köld norðanátt í Elliðaárdal því þar var bara frost.
Ég skipti um lagalista á leiðinni, tók meira popp framyfir rokkið. Er ekki frá því að með þessu sé maður afslappaðri á hjólinu, ekki eins aggressívur. 

Monday, October 19, 2009

19. október - ísing

Veður: Ansi kalt í morgun, norðanátt og ekki langt ofan frostmarks. Kom mér aðeins á óvart og ég sé að engan veginn er hægt að treysta heimilishitamælinum.
Öryggi: Stígarnir nánast alla leið voru blautir og ísing á þeim h.u.b. alla leið. Það var því ráðlegt að fara varlega í sakirnar. Þetta tókst ágætlega enda vil ég helst ekki setja nagladekkin undir fyrr en hálka er frekar regla en undantekning, svona undir lok mánaðarins.
Svona til að fullkomna morguninn þá var ég kominn niður brekkuna í Skógarselinu þegar ég uppgötvaði að engar buxur voru í bakpokanum. Og frekar en að vera í aðsniðunum hjólabuxum allan daginn þá hjólaði ég aftur upp brekkuna og heim, heimti þar buxur og hélt á ný af stað.

Friday, October 16, 2009

16. október

Veður: Enn sami vindurinn en hlýtt og hin bestu skilyrði. Heimleiðin þó á fótinn hvað vindinn varðar, og náttúrulega landið. En þó það sé erfitt að hjóla á móti vindi þá er það á vissan hátt hreinsandi ferli, mikið loft í lungun og maður glímir við þetta andlega mótlæti. Ef maður hættir að hjóla, gefst upp, þá kemst maður einfaldlega ekkert áfram og taki maður það ráð að teyma hjólið, þá fer maður einfaldlega hægar.
Öryggi: Það er orðið mjög mikilvægt að hafa ljós, bæði að framan og aftan. Helst líka glitaugu á teinunum. Endurskinsvesti eða jakki er líka mjög góður og ætti að nota á öllum tímum árs. Hjólreiðamenn ofmeta gjarnan hversu vel þeir sjást í umferðinni og þó maður sé snöggur og klár þá getur eitthvað klikkað. Þess vegna er þessi fornvarnabúnaður mjög skynsamleg fjárfesting. Ég ætti sennilega að fjárfesta í nýjum hjálmi í vetur. Minn er að komast á eftirlaun. Verð að skrá það niður að í morgun var svínað fyrir Hafliða á hjólareininni í Lönguhlíð. Engin slys á fólki en hefði getað farið verr. Sennilega rispaðist bíllinn eitthvað.

Thursday, October 15, 2009

15. október - Det snurrar i min skalle

Veður: Ansi hreint hvasst að heyra í morgun, og hryðjurigning. En þegar út var komið, sunnan 7 og 8 stiga hiti. Ferðin niður í Borgartún var því hröð og skemmtileg. Seinnipartinn hafði heldur lægt og því ekki afleitt að hjóla móti vindi.
Öryggi og umferð: Það var eitthvað öðruvísi í morgun. Mikil bílaumferð um Skógarselið og ég ákvað að skjóta mér ekki inní og hossaðist þess í stað gangstéttina. Þegar komið var að Álfabakkanum skapaðist örtröð hjólreiðamanna. Við lá árekstri oftar en einu sinni. T.d. vorum við fjögur í röð niður í Elliðaárdal. Mér var reyndar starsýnt á einn sem var með lítið barn aftaná. Hann hjólaði ansi rökslega og þegar hann fór yfir skoruna á malarstígnum í Elliðaárdal lá við að blessað barnið skoppaði út í á. En mín reynsla af börnum aftaná hjóli er að þau hafa mjög gaman af slíku. Svona rösklegt skopp getur þó orsakað óttablandinn svip á djarfasta barni.
Upplifun: Ég fer ekki ofan af því að lagið "Det snurrar i min skalle" með Familjen er besta hjólalag ever.

Wednesday, October 14, 2009

14. október

Veður: Svolítið hvasst en hlýtt og notalegt enda var ég kófsveittur eftir morguntúrinn. Réttur klæðnaður er lykilatriði í þessu og þá helst að klæða sig ekki of mikið. Ég er í þunnum ullarbol og vind- og vatnsþéttum léttum jakka yfir og þar utaná er gula vestið.
Öryggi: Maður er svolítið mikið að skjótast á hjólinu en kannski er maður stundum að misreikna snerpuna og verður því seinn. Þetta gengur við bestu aðstæður en ef maður sést illa eða viðnám á götum er ekki uppá það besta, þá er best að velja frekar lengri leiðina.

Tuesday, October 13, 2009

13. október og Kópavogsdalurinn

Veður: Bara snilld, hægur vindur og örugglega 6 stiga hiti, nú eða 8 eins og stendur á heimasíðu Veðurstofunnar. Hjólaði m.a.s. Kársnesið og Kópavogsdalinn heim í blíðskaparveðri, en sú leið er annars mjög opin fyrir vindi úr öllum áttum.
Öryggi: Sumir morgnar eru þannig að maður hittir á nánast dauðan tímapunkt í umferðinni. Það munar geysilega miklu. Ég fer oft af stað um kl. 8 og þá er áttatraffíkin búin og níutraffíkin ekki byrjuð. Þannig getur maður hjólað götur meira, sem þýðir oft hraðari för.
Ég tók nokkrar myndir á bakaleiðinni um Fossvog, Kársnes og Kópavogsdalinn. Kársnesið er skemmtileg leið og Kópavogsdalurinn líka, en þar er ruglingslegasta stígakerfi á höfuðborgarsvæðinu og þó víðar væri leitað.
Upplifun: Meðfram Suðurlandsbrautinni berst á einum stað að vitum manns ilmur af nýbökuðu bakkelsi. Þetta ærir mann eins og syngjandi tröllskessa. Ég hef ekki látið undan freistingunni enn. Ströndin við Kársnes er skemmtilegt umhverfi til að hjóla í, nema þegar er rok.

Monday, October 12, 2009

12. október

Veður: Nú er bara vor í lofti, 6 stiga hiti og austan 10 m/s. Létt að hjóla í morgun, ef undanskilinn er þessi kafli í Skógarselinu þar sem alltaf er mótvindur. Svo er alltaf talsvert hvassara þarna í efri byggðum en niður í bæ í austanátt.
Ég mætti nokkrum á leiðinni og gat ekki stillt mig um að kinka kolli í virðingarskyni þar sem ég gerði mér grein fyrir að þau hefðu ríkulega útilátinn vind í fangið.
Það var einhver notalega rotnunarlykt í loftinu á köflum, laufblöðin væntanlega, sem bendir til þess að örverur séu að störfum þrátt fyrir kuldann.
Öryggi: Mér datt í hug að taka mynd þar sem ég hjóla oft eftir Hofteignum. Þar eru bílastæðin þannig að bílar sjást illa og maður sést líka illa. Ef þeim er bakkað út úr stæði þá koma þeir þvert á aksturs-/hjólastefnu.

Thursday, October 8, 2009

8. október - meðvindur, og mótvindur

Veður: Austan rok, 0 gráður og þurrt. Þokkalegur meðvindur fyrir mig eftir að komið var norður fyrir Breiðholtsbraut. Ég var um 18:30 mín. á leiðinni sem er nokkuð gott. Bakaleiðin var óneitanlega erfiðari. Rigning og rok í Borgartúninu, sem var orðið rok og éljagangur í Salahverfi. Var um 30 mín á leiðinni.
Undirlag: Það er enn klaki víða á stígum og því öruggara að hjóla á götum. Auk þess hefur á köflum verið dreift sandi eftir að stígur var hreinsaður, en sandur á auðum stígum er einn versti óvinur hjólreiðamannsins.

Það er annars lítið að frétta.

Wednesday, October 7, 2009

7. október

Veður: Þrátt fyrir að mbl.is segi að það hafi verið suðaustan 3 í morgun þá veit ég að það var norðan 5 og 0 stiga hiti. Ansi kalt niður Skógarselið. Á heimleiðinni, í þetta skipti frá Norræna húsinu, var mótvindur og hryssingskuldi. Meðfram strönd Skerjafjarðar er ansi berangurslegt og ekkert skjól, fínt á sólríkum sumardegi en kuldalegt í október.
Undirlag: Eins og mig grunaði í gær þá voru stígar sem ekki var búið að moka í gær, klammaðir og hálir í morgun. Ég skil svosem vel að menn hafi ekki verið á tánum og gert bara ráð fyrir að snjórinn bráðnaði. En hann gerði það ekki. Ég hjólaði Fossvoginn í morgun og yfirleitt voru stígarnir góðir. Helst var það tengingin milli Elliðaárdals og Fossvogs sem var slæm.
Upplifun: Hjólareinin í Lönguhlíð fær skotið í dag. Ég hef aldrei skilið þetta fyrirbæri. Skv Google Earth eru þetta alls 350 metrar sem hafa kostað formúgu. Maður er ca 15 sekúndur að hjóla þessa leið og það er engin skýr tenging við endana. Hefði kannski verið nær að hafa íburðinn aðeins minni og nota fjármagnið á lengri kafla. Það er ekki gaman að hjóla meðfram Lönguhlíðinni, niður í Nóatún og mætti bæta þá leið verulega.
Kortið: Hér er hægt að sjá Google kort með myndum af hjólaleiðinni.

Tuesday, October 6, 2009

6. október - snjór - Kópavogur -1 stig

Veður: Vægt frost og austanátt.
Undirlag: Snjór og krap.
Öryggi: Engir naglar og því ástæða til að hjóla hægar en vanalega. Nánast floginn á hausinn við það að fara skáhallt upp á gangstétt. Ekki skynsamlegt.
Upplifun: Kosturinn við frost er að þá er oft lítill vindur. Það getur því verið "hlýrra" að hjóla í frosti en miklum vindi og hærra hitastigi.
Mér tókst ekki að afmeyja neinn stíg. Allsstaðar var einhver búinn að hjóla á undan mér.
En það er einhver friðsæld yfir því að hjóla í snjó. Náttúran á Íslandi er hönnuð fyrir snjó og verður því oft mjög falleg, þó ekki sé mikið um "náttúru" í þeim skilningi á minni leið.
Á heimleiðinni kom í ljós að Kópavogur er ekki að standa sig í mokstrinum. Sjá þessa og þessa. Það má fyrirgefa það þennan fyrsta snjódag en vonandi er þetta ekki það sem koma skal.

Monday, October 5, 2009

5. október - frost

Veður: Norðan 5 m/s og -2°C hiti.
Stígarnir eru þurrir og því engin hálka, nema maður vandi sig við að hitta á gamla polla sem aldrei þorna.
En maður þarf helst að vera í ull þegar frostið er komið því það eru ákveðnir líkamshlutar sem kólna og kólna alla hjólaferðina. Þar ber helst að nefna nárann, fingur og tær. Það er allavega mín reynsla. Nú snýst líka dæmið við og í stað þess að fara í kalda sturtu þá er hún stillt á 35° og notuð til að hita mann upp.

Mér sýnist sama harðnaglagengið halda áfram að hjóla þó að kólni aðeins. Það gildir líka hér niður í vinnu.

Friday, October 2, 2009

30. september - fyrsta hálkan

Fyrsta hálkan var í morgun ef hálku skyldi kalla. Örlítið í Elliðaárdalnum. Samt alltof snemmt að skipta á nagla. Planið er að skipta fyrst um að framan, sjá svo til.

Annars er að verða talsvert kalt að hjóla og því betra að vera vindþéttur, með vettlinga og buff. Ég prófaði að vera í thermo stuttbuxum með síðu buxunum til að hlífa náranum. Það kemur ágætlega út.

Thursday, September 24, 2009

24. september

Veður: Nett rigning og sennilega suðvestan átt. Þetta var frekar hagstætt fyrir mig. Meðvindur mestan hluta leiðarinnar en dálítill mótvindur á köflum. Það er sérstaklega erfitt að reikna út vindinn í byggðum, lítt grónum hverfum þar sem lítið er um tré. Byggingar valda ótrúlegum sviptivindum þannig að það sem eitt sinn var meðvindur, verður mótvindur.
Öryggi: Nú er spurningin, heldur einhver utanum þann fjölda slysa sem verður vegna hjólreiðamanna? Er nokkur tölfræði til um það hversu margir hjólreiðamenn lenda í slysum, og þá af hvaða ástæðum?

23. september og hundur í bandi

Ég hjólaði jú bara aðra leiðina í dag, þ.e. heim, þar sem ég hjólaði bara til vinnu á þriðjudaginn. Það var vinnutengt.
Veður: Það var æði fátt markvert, einhvernveginn verður veðrið svo jafnágætt þegar maður hjólar. Þó það rigni eða blási þá er það eitthvað svo óverulegt a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu. Enda verður að segja eins og er að trjágróður sem skjól og hjólreiðar fara ágætlega saman. Þessi stígur meðfram Álfabakka er gott vitni um það.

Öryggi: Eitt það hættulegast á stígum sem ætlaðir eru fyrir hjólreiðar og gangandi fólk eru hundar. Hvort sem þeir eru í bandi eða ekki. Ef þeir eru ekki í bandi geta þeir einfaldlega hlaupið fyrir hjólið en á því er minni hætta. Ef þeir eru hins vegar í bandi, sérstaklega þessari gerð sem hægt er að lengja í nokkra metra, þá er eins víst að þeir hlaupi þvert yfir stíginn og maður hjóli á bandið. Það getur orðið allsherjar flækja. Ég lenti á eftir einum hundaeiganda í gær, konu með svartan hund. Konan hélt sig vinstra megin á stígnum svo ég ætlaði að dóla mér fram úr hægra megin, bæði í ósamræmi við gildandi umferðarreglur. Þá tekur hundurinn, í bandi, á rás frá eiganda sínum, þvert yfir stíginn. Ég tók það ráð að sveiga langt út fyrir stíginn, upp í hljóðmön eina all bratta, framhjá hundi og konu. Gat síðan haldið áfram og allir óskaddaðir.
Mér finnst þetta að mestu leyti mér að kenna en hættan er engu að síður fyrir hendi.

Monday, September 21, 2009

21. september

Loksins kominn á rétt ról eftir að hafa ekki hjólað í nokkra daga.
Veður: Hitamælirinn heima sagði mér að það væri a.m.k. 10 stiga hiti. Puttarnir á mér voru nær 6 stiga hita þegar ég kom niður í vinnu. Annars var nett rigning og smá norðvestanátt
Öryggi: Í morgun setti ég framljósið á. Kannski ekki mikil þörf ennþá en samt, ef rignir.
Umferð: Ég fór fram úr a.m.k. fjórum á sömu leið og ég og mætti auk þess nálægt 10.

Friday, September 18, 2009

17. september

Nú er rigning og vindur u.þ.b. standard veður hvern dag. Það er svosem ekkert að því en aðeins erfiðara að hjóla. Bleytan er frekar hressandi.
Ég bætti við fleiri myndum í myndaalbúmið , tók nokkrar á leið í vinnu. Þessi dokumentasjón verður vonandi markvissari með tímanum og ég reikna með að hjóla fjölbreyttari leiðir til að byggja upp meiri gagnabanka.

Hjólið var tilbúið í dag og það koma á daginn sem mig grunaði, felgan var ónýt og það kostaði mig 12000 kall. Skipti líka um bremsuklossa. Markið rukkaði mig fyrir 1/4 úr klukkutíma vinnu, sem er öðrum orðum kortér. Það er ekki langur tími að skipta um felgu á hjóli.

Wednesday, September 16, 2009

16. september, fyrstu myndirnar

Veður: Það var bæði vindur og rigning en allt í lagi, ekki kalt. Dálítill mótvindur á heimleiðinni.
Öryggi: Ekkert nýtt.
Upplifun: Nú byrjaði kallinn að taka myndir. Dró fram gömlu Kodak 3 mpix myndavélina, tróð í hana rafhlöðum og af stað. Ég stoppaði nokkrum sinnum til að taka myndir. Nú er ég búinn að setja þær í Picasa albúmið og tengja við google kort. Sjáum hvernig þetta virkar.
Vonandi fæ ég hjólið mitt á morgun.

Tuesday, September 15, 2009

15. september

Veður: Rigning og meðvindur í morgun gerði hjólaferðina frekar létta og frískandi. Það er líka bara hlýtt ennþá, minnst 10 stig á morgnana, a.m.k. á meðan þessi sunnanátt endist. Hún hefur þó þann ókost að henni fylgir vindur og rigning. Seinnipartinn var hins vegar sól og talsverður vindur, sem blés af suðvestri. Þá fæ ég ekki mótvind nema í gegnum Mjóddina.
Umferð: Maður verður mannþekkjari á því að hjóla í bílaumferðinni. Konur á fínum bílum, gjarnan jeppum, eru hvað verstar. Þær horfa ekki einu sinni á mann. Karlar á sambærilegum bílum eru þó skárri en samt slæmir. En maður finnur hversu erfitt er orðið að skjótast inn á götuna þegar maður vill flýta sér, allsstaðar eru bílar.

14. september

Dagurinn byrjaði á því að koma hjólinu mínu í yfirhalningu hjá Markinu, gjörðin orðin svolítið skökk og þetta því orðin tímabær ráðstöfun. Allt benti því til að ég yrði að taka strætó heim. En ég tók traustataki annað fyrirtækishjólið, auðvitað konuútgáfan, og hjólaði heim.
Mótvindurinn var talsvert stífur og tók í. Ég fann að mótstaðan var talsvert meiri á fjallahjólinu en "hybrid" hjólinu mínu, þ.e.a.s. dekkin taka mun meira til sín þar sem þau eru breiðari.
Hins vegar varð ég dálítið hissa á því að verkstæðið í Markinu tæki sér 4 daga í að yfirfara hjólið. Þeir ættu þá að gera það vel.

Sunday, September 13, 2009

11. september

Veður: Enn fínt, heldur blautara þó en ekkert alvarlegt.
Lenti í því að þurfa að snarhemla og við það skekktist hjá mér gjörðin á hjólinu. Nú þarf bara uppherslu á greyið.

Wednesday, September 9, 2009

9. september

Veður: Norðan svali í morgun, hægur vindur, afar hagstæð skilyrði.
Umferð: Vægast sagt lítil, enda fór ég af stað um kl. 7 í morgun og setti nýja viðmiðun. 18:10 er nýr tími til að miða við á ferðinni niðureftir. Það er talsverð bæting og óvíst að það náist að bæta það í bráð. Allar aðstæður mjög hagfelldar.
Upplifun: Það er góð lykt af gróðrinum þessa dagana. Lynglykt og ber. Rakinn á nóttunni losar þessa haustlykt úr læðingi og þetta er góð upplifun á þeim köflum þar sem hjólað er með trjágróðrinum.

7. - 8. september

Þetta er hættan við svona dagbækur. Manni hættir til að sleppa degi og degi.
Annars voru þessir tveir dagar keimlíkir ef undanskilinn er seinnipartur þriðjudagsins 8. sept en þá var þvílík rjómablíða enda tekið vel á því á heimleiðinni. Ég gleymdi hins vegar að núllstilla mælinn til að athuga hvort nokkuð markvert hefði gerst í ferðatímanum.
Veður: Sumsé hægur norðan andvari og rakt nema seinnipart þriðjudags.
Umferð: Tiltölulega stabíl á þessum tíma á morgnana, uppúr kl. 8 og svo aftur milli hálf 4 og 4.

Friday, September 4, 2009

4. september

Veður: Nánast logn, dálítið svalt en annars frábært hjólaveður. Lítur út fyrir rigningu í dag.
Umferð: Mikil umferð á hjólastígunum. Nokkrir sem hjóluðu frekar rösklega. Það setur mann alltaf í gírinn, ekki láta ná sér eða að fara fram úr þeim sem er á undan. Enda var ég orðinn vel sveittur í Borgartúninu. Ég verð að segja það einu sinni enn, það kemur mér enn á óvart hvað íslenskir bílstjórar eru þó tillitssamir við hjólreiðamenn, a.m.k. innanbæjar.

Thursday, September 3, 2009

3. september

Ég fór á bíl í vinnuna í morgun. Það kom ekki til af góðu þar sem ég ætlaði til tannlæknis eftir hádegi. Berti tannlæknir sveik mig hins vegar svo nú sit ég uppi með bíl hér í vinnunni og þarf að keyra á honum heim.
Á leið í vinnuna var mikil umferð á Kringlumýrarbrautinni, ég beið í nokkar mínútur á ljósunum við Miklubraut og síðan við Laugaveg. Þetta er ótrúlega glataður samgöngumáti á þessum tíma. Ég verð að láta þess getið að ég hitti sennilega akkúrat á 9-umferðartoppinn.

Wednesday, September 2, 2009

2. september

Veður: Aftur frekar kalt í morgun, smávegis norðanátt sem beit í puttana. Spurning hvort fer að koma tími á vettlinga. Annars hefur þetta ár verið ótrúlega gott hjólaár. Vindur með ólíkindum hagstæður.

Á heimleiðinni hjólaði ég Lönguhlíðina, yfir í Fossvog, fyrir Kársnesið og inn Kópavogsdalinn. Þetta er skemmtileg leið að mörgu leyti. Það hins vegar vantar alltaf mikið uppá það að hjólreiðamenn hafi skýran valkost fyrir sína leið. Hjólareinin við Lönguhlíð, sem annars er voða fín, endar bara sisona og þá er mjög óljóst til hvers er ætlast af hjólreiðamanni, að hann taki götuna eða gangstéttina. Sama gildir þegar maður rennir sér niður í Fossvoginn. Þar tek ég alltaf götuna þó það sé 30 km hámarkshraði, betri kostur en gangstétt með endalausum þvergötum. Svo þarf að sveigja inn á hjólastíginn við gamla Landgræðslusjóðshúsið. Stígurinn út á Kársnesið endar líka út á götu. Kópavogsdalurinn er síðan kapítuli út af fyrir sig. Þar er aragrúi stíga og ekki eitt merki til að segja til um hvaða leið á að velja. Þannig gæti maður hringsólað í dalnum fram eftir degi. Hann hentar því ágætlega til rólegheita gönguferðar en illa sem samgönguleið, frá A til B.

Mig langar til að taka myndir á hjólaleiðinni, bæði ljósmyndir og kvikmyndir. Gallinn við ljósmyndir er að þá þarf maður helst að stoppa og þar er sálrænn þröskuldur sem þarf að yfirvinna. Það væri hægt að festa upptökuvél á hjólið, sem tekur kvikmyndir. Það þarf nefnilega að fanga með einhverjum hætti það sem fyrir augu ber og upplifunina að hjóla hér í bænum.

Annars lærði Birna Kristín, yngri stelpan mín, að hjóla í gær. Ekkert smá ánægð með það en hún komst að því í morgun að hún er með óteljandi marbletti á fótleggjunum.

Tuesday, September 1, 2009

1. september

Upphafið á þessu hausti lofar góðu. Logn og nettur svali. Í morgun var ákveðið að hjóla nokkurn veginn án svita og gekk það að mestu eftir. Ástæðan er að ég ætla í fótbolta með Badda í hádeginu og nenni ekki í sturtu þrisvar í dag.
Ef ég er á ferðinni alveg um kl. 8 þá er alveg ótrúlegur fjöldi hjólreiðamanna á ferðinni. Við erum að tala um byltingu frá því í fyrra.
En ég er að brjóta með mér að kaupa bögglabera og töskur fyrir veturinn. Þannig er hægt að vera með hæfilegt magn skjólfatnaðar og íþróttaföt ef þannig stendur á. Spurning reyndar um fjárveitingu á heimilinu, þetta er fokdýr pakki.

Monday, August 31, 2009

31. ágúst

Veður: Logn og svalt. Bjart og fallegt veður

Umferð: Bílaumferðin er enn að aukast. Skógarselið er orðið svolítið bisí um 8 leytið. En sama er með hjólaumferðina, hún er mun meiri en í fyrra og nokkuð um fólk með börn í stól aftaná. Það er gaman að sjá.

Öryggi: Ég sneri bremsuklossunum að aftan við, eitthvað misslitnir, og lengdi þar með líftíma þeirra um einhverjar vikur. Ég verð að viðurkenna að ég nota það skásta úr því sem til er, göturnar sumsstaðar og stígana annarsstaðar. Þetta hefur í för mér sér að maður skáskýtur sér inn á milli bíla til að ná sem stystum ferðatíma. En það verður að hafa í huga að stofna ekki öryggi annarra í hættu.
Undirlag: Laus sandur hér og þar í beygjum.

Upplifun: Hjólaði talsvert hratt á eftir einhverjum alveg frá Sprengisandi niður í Borgartún. Hann fór mjög hratt yfir svo ég svitnaði gríðarlega.
Ég verð að láta þess getið að Odometerinn á hjólinu hjá mér, sem ég byrjaði að nota vorið 2007 er loksins kominn í 3000 km. Gott að skrásetja það og skoða svo aftur eftir ár.

Friday, August 28, 2009

28. ágúst 2009 - Örlagadagur í íslenskri sögu

Þessi færsla á að vera prufukeyrsla áður en alvaran tekur við:

Veður: Norðanátt og kalt, fyrsti kaldi dagurinn í sumar en þurrt.

Umferð: Margir hjólandi. Bílum fjölgar dag frá degi, pirringur eykst í bílaröðunum og þar með minnkar tillitssemi. Afar fáir stoppa þar sem ég þarf að þvera götur. Blótaði einum.
Fólki á gangstígum fjölgar líka, aðallega framhaldsskólanemar. Erfitt að komast framhjá blaðrandi hálffullorðnu fólkinu sem fyllir þvert yfir stíginn. Þá er bjallan nauðsynleg en viðbrögð við henni eru oft blendin.

Öryggi: Hornið á Miklubraut og Reykjanesbraut er alltaf stórhættulegt þar sem hjólarar úr vestri koma á 30-40 km hraða fyrir blindbeygju og gróður hangir langt út á stíginn. Hægri umferð gildir líka á stígum. Betra að byrja að hafa afturljósið kveikt þar sem hjólað er á götunni. Þarf líklega að skipta um bremsuklossa, sarg í bremsunni að aukast.

Undirlag: Stígarnir og göturnar nokkurn veginn þurrar. Helst glerbrot hér og þar, sömu brotin og ég hjólaði yfir í júní. Hvernig væri að sópa einstaka sinnum?

Upplifun: Haust í loftinu. Gróður hallast inn á stígana, ekki síst illgresið í Elliðaárdalnum, hvar kanína skýst líka þvert yfir stíginn fyrir framan mig.

Dagbók hjólreiðamannsins 2009/2010

Á þessari síðu er ætlunin að færa dagbók um reynslu hjólreiðamannsins af því að hjóla til og frá vinnu frá 1. september 2009 - 31. ágúst 2010.

Markmiðið er að tíunda hvaðeina sem drífur á daga á meðan á ferð stendur, hvað kemur á óvart, hvar mætti bæta aðstöðu hjólreiðamannsin og hvað er gott, og að þessar upplýsingar geti nýst fyrir skipulag eða stefnumótun sem snertir hjólreiðar innan borgarinnar Reykjavíkur.