Friday, April 30, 2010

30. apríl

Veður: Austan 3m/s og 2,4 stig, rigning
Ferðatími: 20:14 mín
Meðalhraði: 27,5 km/klst

Það ljóst að maður endurtekur sig þegar bloggað er á hverjum degi. Mér dettur heldur ekkert í hug í dag, sem er ekki endurtekning á því sem ég hef bloggað um tvisvar eða oftar.

Thursday, April 29, 2010

29. apríl

Veður: Austan 4 og 5,2 gráður, rigning
Ferðatími: 20:44 mín
Meðalhraði: 26,8 km/klst

Rigningin er góð. Mér brá pínu í Skógarselinu þegar stór jeppi ætlaði að svína fyrir mig. Kannski var hann með þetta allan tímann en þetta var pínu óþægilegt. Svo hjólaði ég Langholtsveginn. Það er 500 m lengri leið en maður getur hjólað býsna greitt. Mér finnst það í raun betra heldur en þetta sífellda sikk sakk, kriss og kruss við að elta stígana. Enda sést það á meðalhraðanum að maður getur haldið jafnari hraða á götunum. 

Wednesday, April 28, 2010

28. apríl

Veður: Norðan 1 m/s og 6,8 stig
Ferðatími: 20:01 mín
Meðalhraði: 26 km/klst

Vorið er komið, aftur. Við fengum flotta þjónustu niður í vinnu í gær. Sesselja Traustadóttir og Árni Davíðsson hjá verkefninu Hjólafærni komu og sögðu mannskapnum til varðandi hjólin, stillingar og viðhald. Voru með flestar græjur með sér og tóku hjólin í gegn. Bara gaman og kom manni í stuð. 

Tuesday, April 27, 2010

27. apríl

Veður: A 5 m/s og 3,4 stig
Ferðatími: 20:10 mín
Meðalhraði: 26 km/klst

Nú fjölgar hjólandi ört. Sá fjöldi mun væntanlega aukast fram í næstu viku þegar Hjólað í vinnuna byrjar.

Þegar svona gott er færið verður fátt um að skrifa. Þó læddist að mér sú hugsun hvort sveitarfélögin spili með í því að hafa stíga og aðstöðu í eins góðu standi og mögulegt er þegar hjólreiðar ná hámarki. Hvað með t.d. trjáklippingar, hreinsun stíga og annað viðhald?

Monday, April 26, 2010

26. apríl

Veður: Norðaustan 3m/s og 2,4 stig, rigning
Ferðatími:  21:00 mín
Meðalhraði: 24,9 km/klst

Vonandi er nú frostið hætt. Ég var að hugsa það á leiðinni að ekki hefur nú oft rignt í vetur. Samkvæmt mínum kokkabókum var rigning 9 daga af þeim 60 sem ég hef hjólað frá áramótum. Það er 15%. Er það mikið eða lítið. Mér finnst það lítið, hér á þessum stað. Snjókoma var ekki nema 2 daga.

Friday, April 23, 2010

23. apríl - sumar!

Veður: SA 2 m/s og -0,2 stig
Ferðatími: 20:20 mín
Meðalhraði: 25,7 km/klst

Slatti af svifryki í morgun, held það sé ekki aska, heldur bara ógeðslegt ryk af götunum. En mjög fínt veður þrátt fyrir að það sé heldur svalt. 

Wednesday, April 21, 2010

21. apríl - síðasti vetrardagur

Veður: Norðan 5m/s og 0,6 stiga hiti
Ferðatími: 21:35 mín
Meðalhraði: 24,3 km/klst

Ég var að hugsa um sólina í morgun. Nú blindar hún ökumenn á morgnana og því fylgja hættur fyrir hjólreiðamenn. Þá er spurning hvort er betra að vera með gott ljós. Ég veit það ekki. En það var svona mikil sól í morgun og allir með pírð augu. Ekki það að maður lenti í neinu á leiðinni, voru meira svona hugleiðingar.
En sumardagurinn fyrsti á morgun og ég á svosem ekki von á því að hjóla mikið þá en útivera æskileg.

Tuesday, April 20, 2010

20. apríl - 1000 km

Veður: Austan 3m/s og -2,4 stig
Ferðatími: 19:54 mín
Meðalhraði: 26,3 km/klst

Enn er sami kuldinn og svipað í kortunum þessa vikuna. Þetta frestar vorinu um sinn, sem er leitt, því það er enginn árstími skemmtilegri til hjólreiða en vorið þegar allt er á fullu. Fuglarnir í tilhugalífinu, trén að laufgast og allt að grænka. Þessu öllu tilheyrir sérstök lykt sem veður innum nefið á manni þegar maður geysist um stíga og götur.

Monday, April 19, 2010

19. apríl - smá frost

Veður: NA 7 m/s og -0,4 stig
Ferðatími: 23:11 mín
Meðalhraði: 23 km/klst

Ansi kalt að fá frostið svona á vorin. Það er bara kaldara heldur en á veturna. Líkaminn er kominn í vorstemningur og er ekki viðbúinn svona köldum næðingi. Svo er vindurinn ekki til þess fallinn að bæta ástandið. Hann var á móti stóran hluta leiðarinnar en aðeins austanstæður svo síðari hlutinn var ekki afleitur.

Maður varð var við tilhugalíf fuglanna um helgina. Þrestirnir sungu af miklum móð. Ég held þeir hafi samt þagað í morgun, í frostinu. Svo er ansi mikið af mávi í kringum kanínurnar í Elliðaárdalnum. Þeir vita þarf að einhverju æti og hafa lítið annað að éta. Þeir fylla ekki loftið beint af fuglasöng og eru yfirleitt tákn um sóðaskap okkar mannanna. En kannski hafa þeir bara áhuga á kanínum.

Friday, April 16, 2010

16. apríl

Veður: SV 7 m/s og 4,5 stig, rigning
Ferðatími: 20:47 mín
Meðalhraði: 27 km/klst

Þrátt fyrir mótvindinn þá nær maður þessum hraða. En það er eitthvað við það að hjóla í rigningu. Ég býð hins vegar ekki í að hjóla í öskufalli eins og er fyrir austan. Hugur minn er hjá bændum eystra.

Thursday, April 15, 2010

15. apríl - nýtt hraðamet

Veður: SV 4 m/s og 5 stig
Ferðatími: 18:04 mín
Meðalhraði: 29,2 km/klst

Ég var svolítið seinna á ferðinni en vanalega, svona uppúr kl. 9. Það var lítil umferð og því tilvalið að nota göturnar til hins ítrasta. Með því náði ég enn meiri hraða og hef ekki fyrr verið svo snöggur til vinnu. Samt var mótvindur seinni hluta leiðarinnar. Þetta var ekki átakalaust en bara gaman. Svo skemmdi smá rigning ekki fyrir stemningunni.
Mér telst til að ég hafi hjólað 54 daga til vinnu frá áramótum. Að meðaltali eru þetta 51 mínúta á dag.

Wednesday, April 14, 2010

14. apríl

Veður: Suðvestan 5 og 4,5 stig
Ferðatími: 20:37 mín
Meðalhraði: 27,1 km/klst

Ég fæ einhvern veginn á tilfinninguna að vindur hafi meiri áhrif þegar ég er kominn á sumardekkin. Ég kemst mun hraðar og líklega eru áhrif mótvinds a.m.k. hlutfallslega meiri en þegar hjólað er á nöglum. Í vetur var að muna þetta 5 km/klst á heimferð og ferð í vinnu, yfirleitt í léttum mótvindi á leiðinni heim. Núna munar þetta 7-8 km/klst í svipuðum vindi. En þetta kemur betur í ljós þegar líður á vorið.

Tuesday, April 13, 2010

13. apríl

Veður: S 4m/s og 5 stiga hiti
Ferðatími: 18:33 mín
Meðalhraði: 28,2 km/klst

Þetta var nú frekar hraður morgun. Ég náði að klóra mig frammúr gírunum í gær og því smellvirkaði allt í morgun. Það var nett rigning og mér finnst mikið vor í lofti. Við þessi skilyrði er hvað skemmtilegast að hjóla. Enn eru ekki óhóflega margir á stígunum en fjöldinn eykst væntanlega jafnt og þétt næstu vikur og nær hámarki í kringum Hjólað í vinnuna, sem er snilldarverkefni.

Monday, April 12, 2010

12. apríl - nú er komið vor

Veður: Suðaustan 1m/s og 4,4 stig
Ferðatími: 19,3 stig
Meðalhraði: 27,6 km/klst

Kominn á sumardekkin og sveif áfram. Þvílík viðbrigði. Viðnámið snarminnkar. Ég fékk mér fínmynstruð dekk og það kemur mjög vel út. Þau eru aðeins belgmeiri eða 700 x 45 en ekki 700x 40 eins og vetrardekkin.
Ég náði hins vegar að afstilla gírana að framan og tókst ekki að ná þeim góðum aftur. Verð sennilega að leita til þjónustuaðila með þetta.

Friday, April 9, 2010

9. apríl

Þetta lítur nú ekki vel út í apríl en þessi vika fór í veikindi og aumingjaskap. Tók síðan strætó. Nagladekkin verða að fjúka um helgina.