Thursday, November 18, 2010

18. nóvember

Ef ég skoða hraðagögnin hjá mér þá er nóvember hingað til hægasti mánuðurinn minn síðan um síðustu áramót. Þetta kemur á óvart þar sem vindur hefur ekki verið mikið til trafala og færið alveg þokkalegt. Formið sem ég er í sjálfur ætti að vera í nokkuð góðu standi. Þá er spurning hvað veldur þessu. Dagsformið er eitt en það gildir yfirleitt bara í einn dag. Kannski hef ég verið meira klæddur. Reyndar hefur norðanátt verið ríkjandi í mánuðinum. Það veldur því að ég er í mótvindi helming leiðarinnar í vinnuna og helming leiðarinnar heim. Síðasta vetur voru austlægar og suðaustlægar áttir ríkjandi og þær eru erfiðastar á heimleiðinni en ekki eins kaldar enda var ekki oft frost þá. Ég hef komist að því að köld og sterk norðanátt er versta áttin. Þegar hún er á móti þá dregur hún úr manni mátt með kuldanum auk vindáhrifa. Einn hægasti og erfiðasti dagurinn minn hingað til var 15. febrúar en þá var norðvestan 9 m/s og 2,6 stiga frost. Hægari dagar voru bara ef færð var mjög slæm vegna snjóa.

No comments:

Post a Comment