Wednesday, January 19, 2011

18. janúar

Mikill mótvindur á heimleiðinni í gær og líka snjór. En það var yfirleitt þokkalega hreinsað af stígunum. En heimferðin var drjúgerfið.

Monday, January 17, 2011

17. janúar

Ótrúleg hálka í morgun. snjór yfir ísingarlagi og naglarnir náðu varla í hálkuna. Hjólið skrikaði nokkrum sinnum í beygjum. Datt einu sinni. En Reykjavík var komin af stað að moka vel fyrir kl 8 og eiga hrós skilið fyrir að. Þetta þarf náttúrulega að gerast kl. 7 svo það gagnist sem flestum. En með því að fara snemma af stað þá treðst snjórinn síður og hreinsast betur af stígunum.

Friday, January 14, 2011

13. janúar

Heimleiðin í gær var í 11 m/s mótvindi. Þetta telst fremur mikill vindur og hvín nokkuð í eyrum. Þegar hjólað er í svona miklum vindi er kostur ef til staðar eru hjólaleiðir með trjágróðri í næsta nágrenni eða inní þéttri byggð. Verst er að vera á berangri eða milli hárra bygginga sem vindur á greiða leið á milli í formi vindhviða. Mótvindur hefur ekki hvað síst sálræn áhrif því maður mjakast ótrúlega áfram þrátt fyrir vindinn. Hann er hins vegar afar hvimleiður í eyrum og getur þannig haft lamandi áhrif.
En ég mæli með að trjágróður sé frekar regla en undantekning með hjólastígum hér á höfuðborgarsvæðinu, a.m.k. þar sem komið er út fyrir þéttustu byggðina.

Wednesday, January 12, 2011

12. janúar

Talandi um mengun. Það hefur verið talsvert svifryk á minni hjólaleið síðustu daga, einkum þar sem ég er nálægt Miklubraut og Reykjanesbraut en líka þegar kemur inn í Seljahverfið. Þetta er megnasti óþverri. Samkvæmt upplýsingavef Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur þá er svifryk (PM10) agnir sem eru minni en 10 míkrómetrar (µm) að stærð. Svifryk sem er 10 µm að stærð eru aðeins 1/6 af þvermáli hárs. Hérlendis hefur verið framkvæmd ein rannsókn á uppruna svifryks að vetrarlagi og kom þar eftirfarandi samsetning í ljós: malbik (55%), bremsuborðar (2%), sót (7%), salt (11%) og jarðvegur (25%). Þ.e. yfir 60 % allra mengunar að vetri til verður til vegna samgöngutækja og þar spila nagladekkin stórt hlutverk þar sem þau rífa upp malbikið.

Maður finnur þetta setjast inn í öndunarfærin og það er ekki gott að vita til þess að malbik og bremsuborðar sitji þar.En það gæti verið skynsamlegt að setja grímu fyrir vitin þegar ástandið er verst.

Friday, January 7, 2011

6. janúar

Þrettándi dagur jóla þetta árið er sennilega kaldasti dagur sem ég hef lifað hér á höfuðborgarsvæðinu. 10 stiga frost og norðan 10-18 m/s. Ég hjólaði heim og það var ekkert mál undan vindi en ef ég sneri lítillega á móti vindi þá beit frostið gríðarlega í andlitið. Ég mætti ekki nema einum hjólreiðamanni og hann var með hulið andlit og skíðagleraugu, sem betur fer fyrir hann. Hef sett það hér fram áður að kaldur mótvindur er versti óvinur hjólreiðamannsins.

Wednesday, January 5, 2011

5. janúar

Smá uppgjör fyrir árið 2010
Alls hjólaðir km á árinu: 3.230 km
Hjólaðir dagar: 174
Að meðaltali 18,5 km/dag
Meðal ferðatími heim: 27:12 mín
Meðal ferðatími til vinnu: 23 mín
Rigning: 29 dagar eða 17%
Hálka: 20 dagar eða 11%
Mesti vindur: 12 m/s, fyrir utan hviður
Algengustu vindáttir: SA 22% og A 22%. NA 18%.

Monday, January 3, 2011

3. janúar 2011

Gleðilegt ár!
Veit ekki hvort ég blogga eitthvað á þessu ári um hjólaferðir, kannski bara þegar mig langar. En árið byrjar vel með mildu veðri, sem á reyndar að enda í kvöld með frostakafla út vikuna. Kannski fer ég í að blogga svona almennt um hjólreiðar nú eða samgöngur. T.d. hvort aðgengi að hjólastígum og almenningssamgöngum muni hafa áhrif á fasteignaverð á næstunni í ljósi fábreytni í fjárfestingakostum Íslendinga. Það er að mínu mati t.d. frekar undarlegt að nú sé skorin niður ákveðin grunnþjónusta í almenningssamgöngum, þegar fæstir hafa orðið ráð á að reka bíl, hvað þá tvo. T.d. koma lok á kvöldakstri vagna sér mjög illa fyrir ungt fólk sem er í alls kyns tómstundastarfi.