Friday, October 30, 2009

30. október

Ástandið enn við það sama. Náði ekki að gera við í gær svo strætó naut nærveru minnar. Tók 7:30 strætó heima og hann var pakkaður af framhaldsskólanemum. Það gladdi mitt sóthjarta.

Thursday, October 29, 2009

29. september

Sprungið í morgun. Tók strætó.

Wednesday, October 28, 2009

28. september - settur dagur

Veður: Miklu hlýrra en ég gerði ráð fyrir og var því of vel klæddur. Ég verð að fá nýjan hitamæli á eldhúsgluggann. Smá vindur, suðaustanstæður. Verður væntanlega meiri á heimleiðinni.

Tuesday, October 27, 2009

27. október

Veður: Enn er vorveður hér á höfuðborgarsvæðinu. Bara huggulegt að hjóla. Eingöngu birtustigið gefur vísbendingu um að nú sé skammdegið að ná yfirhöndinni.
Öryggi: Blikkandi fram- og afturljós reiðhjólanna gefur vísbendingar um hjólreiðamenn á ferð. Þeir sem ekki hafa slíkt á sínu hjóli eru hættulegir sjálfum sér og öðrum.
Myndataka hefur legið niðri um nokkurt skeið. Þar kemur einkum tvennt til. Annars vegar hef ég verið of latur til að hjóla lengri leiðir heim eða til vinnu og hins vegar eru birtuskilyrði til myndatöku ekki uppá það besta.

Monday, October 26, 2009

26. október

Veður: Það var bara uppá það besta, hægur norðan vindur og milt. Kannski 5-6 gráður. Örlítil úrkoma, sem er bara hressandi.
Öryggi: Myrkrið er orðið allsráðandi á morgnana og eins gott að fara sér hægt og gera ekki ráð fyrir að maður sjáist. Þannig er það bara.
Ég hef verið að spá í heyrnina sem hluta af öryggisnetinu og er nokkuð viss um að ef maður heyrir í umferðinni, er ekki með eitthvað í eyrunum, þá eru minni líkur á árekstri. Maður heyrir í bíl sem er á leiðinni, þó hann sjáist ekki. Ég held þetta sé ekki ímyndun.

Thursday, October 22, 2009

22. október - lýsing

Ok, ég fór á bíl í vinnuna í gær.
Veður: Lagði snemma af stað í morgun og var kominn niður í vinnu fyrir kl. 8. Veðrið var frábært, milt, hægur vindur og létt úrkoma.
Öryggi: Vegna þess hversu árla ég var á ferðinni þá gerði ég mér ljóst að taka þarf sérstaka umfjöllun um lýsingar á stígum. Þær þarf víða að laga en annarsstaðar eru þær í fínu standi. T.a.m. vantar lýsingu í brekkunni niður frá Álfabakka ofaní Elliðaárdal. Þar er ekki ein ljósapera. Hins vegar er um hættulegan kafla að ræða sem þarf að lýsa upp. Eins þarf að bæta lýsingu meðfram afreininni af Miklubraut í átt að Sprengisandi. Þar er hættuleg blindbeygja, sem reyndar er hægt að laga auðveldlega og mikil þörf á lýsingu.

Tuesday, October 20, 2009

20. október - popp eða rokk

Veður: Grænfáninn við Fífusali lá niður með fánastönginni í morgun. Það þótti mér gott vitni þess að ekki væri miklum vindi fyrir að fara. Enda var það raunin. Hins vegar var ansi kalt og skv Veðurstofunni í frostmarki. Ég held reyndar að suðaustanáttin hafi verið u.þ.b. komin í Salahverfinu en ennþá köld norðanátt í Elliðaárdal því þar var bara frost.
Ég skipti um lagalista á leiðinni, tók meira popp framyfir rokkið. Er ekki frá því að með þessu sé maður afslappaðri á hjólinu, ekki eins aggressívur. 

Monday, October 19, 2009

19. október - ísing

Veður: Ansi kalt í morgun, norðanátt og ekki langt ofan frostmarks. Kom mér aðeins á óvart og ég sé að engan veginn er hægt að treysta heimilishitamælinum.
Öryggi: Stígarnir nánast alla leið voru blautir og ísing á þeim h.u.b. alla leið. Það var því ráðlegt að fara varlega í sakirnar. Þetta tókst ágætlega enda vil ég helst ekki setja nagladekkin undir fyrr en hálka er frekar regla en undantekning, svona undir lok mánaðarins.
Svona til að fullkomna morguninn þá var ég kominn niður brekkuna í Skógarselinu þegar ég uppgötvaði að engar buxur voru í bakpokanum. Og frekar en að vera í aðsniðunum hjólabuxum allan daginn þá hjólaði ég aftur upp brekkuna og heim, heimti þar buxur og hélt á ný af stað.

Friday, October 16, 2009

16. október

Veður: Enn sami vindurinn en hlýtt og hin bestu skilyrði. Heimleiðin þó á fótinn hvað vindinn varðar, og náttúrulega landið. En þó það sé erfitt að hjóla á móti vindi þá er það á vissan hátt hreinsandi ferli, mikið loft í lungun og maður glímir við þetta andlega mótlæti. Ef maður hættir að hjóla, gefst upp, þá kemst maður einfaldlega ekkert áfram og taki maður það ráð að teyma hjólið, þá fer maður einfaldlega hægar.
Öryggi: Það er orðið mjög mikilvægt að hafa ljós, bæði að framan og aftan. Helst líka glitaugu á teinunum. Endurskinsvesti eða jakki er líka mjög góður og ætti að nota á öllum tímum árs. Hjólreiðamenn ofmeta gjarnan hversu vel þeir sjást í umferðinni og þó maður sé snöggur og klár þá getur eitthvað klikkað. Þess vegna er þessi fornvarnabúnaður mjög skynsamleg fjárfesting. Ég ætti sennilega að fjárfesta í nýjum hjálmi í vetur. Minn er að komast á eftirlaun. Verð að skrá það niður að í morgun var svínað fyrir Hafliða á hjólareininni í Lönguhlíð. Engin slys á fólki en hefði getað farið verr. Sennilega rispaðist bíllinn eitthvað.

Thursday, October 15, 2009

15. október - Det snurrar i min skalle

Veður: Ansi hreint hvasst að heyra í morgun, og hryðjurigning. En þegar út var komið, sunnan 7 og 8 stiga hiti. Ferðin niður í Borgartún var því hröð og skemmtileg. Seinnipartinn hafði heldur lægt og því ekki afleitt að hjóla móti vindi.
Öryggi og umferð: Það var eitthvað öðruvísi í morgun. Mikil bílaumferð um Skógarselið og ég ákvað að skjóta mér ekki inní og hossaðist þess í stað gangstéttina. Þegar komið var að Álfabakkanum skapaðist örtröð hjólreiðamanna. Við lá árekstri oftar en einu sinni. T.d. vorum við fjögur í röð niður í Elliðaárdal. Mér var reyndar starsýnt á einn sem var með lítið barn aftaná. Hann hjólaði ansi rökslega og þegar hann fór yfir skoruna á malarstígnum í Elliðaárdal lá við að blessað barnið skoppaði út í á. En mín reynsla af börnum aftaná hjóli er að þau hafa mjög gaman af slíku. Svona rösklegt skopp getur þó orsakað óttablandinn svip á djarfasta barni.
Upplifun: Ég fer ekki ofan af því að lagið "Det snurrar i min skalle" með Familjen er besta hjólalag ever.

Wednesday, October 14, 2009

14. október

Veður: Svolítið hvasst en hlýtt og notalegt enda var ég kófsveittur eftir morguntúrinn. Réttur klæðnaður er lykilatriði í þessu og þá helst að klæða sig ekki of mikið. Ég er í þunnum ullarbol og vind- og vatnsþéttum léttum jakka yfir og þar utaná er gula vestið.
Öryggi: Maður er svolítið mikið að skjótast á hjólinu en kannski er maður stundum að misreikna snerpuna og verður því seinn. Þetta gengur við bestu aðstæður en ef maður sést illa eða viðnám á götum er ekki uppá það besta, þá er best að velja frekar lengri leiðina.

Tuesday, October 13, 2009

13. október og Kópavogsdalurinn

Veður: Bara snilld, hægur vindur og örugglega 6 stiga hiti, nú eða 8 eins og stendur á heimasíðu Veðurstofunnar. Hjólaði m.a.s. Kársnesið og Kópavogsdalinn heim í blíðskaparveðri, en sú leið er annars mjög opin fyrir vindi úr öllum áttum.
Öryggi: Sumir morgnar eru þannig að maður hittir á nánast dauðan tímapunkt í umferðinni. Það munar geysilega miklu. Ég fer oft af stað um kl. 8 og þá er áttatraffíkin búin og níutraffíkin ekki byrjuð. Þannig getur maður hjólað götur meira, sem þýðir oft hraðari för.
Ég tók nokkrar myndir á bakaleiðinni um Fossvog, Kársnes og Kópavogsdalinn. Kársnesið er skemmtileg leið og Kópavogsdalurinn líka, en þar er ruglingslegasta stígakerfi á höfuðborgarsvæðinu og þó víðar væri leitað.
Upplifun: Meðfram Suðurlandsbrautinni berst á einum stað að vitum manns ilmur af nýbökuðu bakkelsi. Þetta ærir mann eins og syngjandi tröllskessa. Ég hef ekki látið undan freistingunni enn. Ströndin við Kársnes er skemmtilegt umhverfi til að hjóla í, nema þegar er rok.

Monday, October 12, 2009

12. október

Veður: Nú er bara vor í lofti, 6 stiga hiti og austan 10 m/s. Létt að hjóla í morgun, ef undanskilinn er þessi kafli í Skógarselinu þar sem alltaf er mótvindur. Svo er alltaf talsvert hvassara þarna í efri byggðum en niður í bæ í austanátt.
Ég mætti nokkrum á leiðinni og gat ekki stillt mig um að kinka kolli í virðingarskyni þar sem ég gerði mér grein fyrir að þau hefðu ríkulega útilátinn vind í fangið.
Það var einhver notalega rotnunarlykt í loftinu á köflum, laufblöðin væntanlega, sem bendir til þess að örverur séu að störfum þrátt fyrir kuldann.
Öryggi: Mér datt í hug að taka mynd þar sem ég hjóla oft eftir Hofteignum. Þar eru bílastæðin þannig að bílar sjást illa og maður sést líka illa. Ef þeim er bakkað út úr stæði þá koma þeir þvert á aksturs-/hjólastefnu.

Thursday, October 8, 2009

8. október - meðvindur, og mótvindur

Veður: Austan rok, 0 gráður og þurrt. Þokkalegur meðvindur fyrir mig eftir að komið var norður fyrir Breiðholtsbraut. Ég var um 18:30 mín. á leiðinni sem er nokkuð gott. Bakaleiðin var óneitanlega erfiðari. Rigning og rok í Borgartúninu, sem var orðið rok og éljagangur í Salahverfi. Var um 30 mín á leiðinni.
Undirlag: Það er enn klaki víða á stígum og því öruggara að hjóla á götum. Auk þess hefur á köflum verið dreift sandi eftir að stígur var hreinsaður, en sandur á auðum stígum er einn versti óvinur hjólreiðamannsins.

Það er annars lítið að frétta.

Wednesday, October 7, 2009

7. október

Veður: Þrátt fyrir að mbl.is segi að það hafi verið suðaustan 3 í morgun þá veit ég að það var norðan 5 og 0 stiga hiti. Ansi kalt niður Skógarselið. Á heimleiðinni, í þetta skipti frá Norræna húsinu, var mótvindur og hryssingskuldi. Meðfram strönd Skerjafjarðar er ansi berangurslegt og ekkert skjól, fínt á sólríkum sumardegi en kuldalegt í október.
Undirlag: Eins og mig grunaði í gær þá voru stígar sem ekki var búið að moka í gær, klammaðir og hálir í morgun. Ég skil svosem vel að menn hafi ekki verið á tánum og gert bara ráð fyrir að snjórinn bráðnaði. En hann gerði það ekki. Ég hjólaði Fossvoginn í morgun og yfirleitt voru stígarnir góðir. Helst var það tengingin milli Elliðaárdals og Fossvogs sem var slæm.
Upplifun: Hjólareinin í Lönguhlíð fær skotið í dag. Ég hef aldrei skilið þetta fyrirbæri. Skv Google Earth eru þetta alls 350 metrar sem hafa kostað formúgu. Maður er ca 15 sekúndur að hjóla þessa leið og það er engin skýr tenging við endana. Hefði kannski verið nær að hafa íburðinn aðeins minni og nota fjármagnið á lengri kafla. Það er ekki gaman að hjóla meðfram Lönguhlíðinni, niður í Nóatún og mætti bæta þá leið verulega.
Kortið: Hér er hægt að sjá Google kort með myndum af hjólaleiðinni.

Tuesday, October 6, 2009

6. október - snjór - Kópavogur -1 stig

Veður: Vægt frost og austanátt.
Undirlag: Snjór og krap.
Öryggi: Engir naglar og því ástæða til að hjóla hægar en vanalega. Nánast floginn á hausinn við það að fara skáhallt upp á gangstétt. Ekki skynsamlegt.
Upplifun: Kosturinn við frost er að þá er oft lítill vindur. Það getur því verið "hlýrra" að hjóla í frosti en miklum vindi og hærra hitastigi.
Mér tókst ekki að afmeyja neinn stíg. Allsstaðar var einhver búinn að hjóla á undan mér.
En það er einhver friðsæld yfir því að hjóla í snjó. Náttúran á Íslandi er hönnuð fyrir snjó og verður því oft mjög falleg, þó ekki sé mikið um "náttúru" í þeim skilningi á minni leið.
Á heimleiðinni kom í ljós að Kópavogur er ekki að standa sig í mokstrinum. Sjá þessa og þessa. Það má fyrirgefa það þennan fyrsta snjódag en vonandi er þetta ekki það sem koma skal.

Monday, October 5, 2009

5. október - frost

Veður: Norðan 5 m/s og -2°C hiti.
Stígarnir eru þurrir og því engin hálka, nema maður vandi sig við að hitta á gamla polla sem aldrei þorna.
En maður þarf helst að vera í ull þegar frostið er komið því það eru ákveðnir líkamshlutar sem kólna og kólna alla hjólaferðina. Þar ber helst að nefna nárann, fingur og tær. Það er allavega mín reynsla. Nú snýst líka dæmið við og í stað þess að fara í kalda sturtu þá er hún stillt á 35° og notuð til að hita mann upp.

Mér sýnist sama harðnaglagengið halda áfram að hjóla þó að kólni aðeins. Það gildir líka hér niður í vinnu.

Friday, October 2, 2009

30. september - fyrsta hálkan

Fyrsta hálkan var í morgun ef hálku skyldi kalla. Örlítið í Elliðaárdalnum. Samt alltof snemmt að skipta á nagla. Planið er að skipta fyrst um að framan, sjá svo til.

Annars er að verða talsvert kalt að hjóla og því betra að vera vindþéttur, með vettlinga og buff. Ég prófaði að vera í thermo stuttbuxum með síðu buxunum til að hlífa náranum. Það kemur ágætlega út.