Tuesday, December 22, 2009

22. desember - ekki hjólað

Það er nú ekki eitthvað til að færa í bækur en til að minna mig á það þá hjólaði ég hvorki til vinnu í gær eða í dag. Ekki gott fordæmi eða endir á árinu.

Friday, December 18, 2009

18. desember - ekkert að skafa

Veður: Bíleigendur þurftu flestir að skafa í morgun. Það var froststilla, heiðskírt og afar huggulegt.
Ég var aðeins of léttklæddur. Þá kom í ljós að nárinn er hvað opnastur fyrir kælingu þegar hjólað er. Thermo buxurnar mínar þyrftu að vera með fóðri á þessu hluta og jafnvel á hnjánum líka. Fingurgómarnir eru líka viðkvæmir. Mér sýnist að léttur ullarbolur, sá þynnsti frá Devold, og vindstopper frá Cintamani séu mjög góð samsetningí svona veðri. Buxur þurfa að vera léttari. Hjólabuxur er mjög góðar en það gæti verið skynsamlegt að taka vindkælinguna af með þunnum utanyfirbuxum. Ullarsokkar eru bara málið og ég er með frekar dapra flíshanska. Það væri betra að vera með vindhelda hanska. Hausinn þarf síðan að klæða nokkuð vel, einkum um eyrun og hálsinn. Ég er með tvöfalda klæðningu af buffi, annað ofan á kollinum og niður fyrir eyru, hitt um hálsinn og upp fyrir eyru. Þannig næ ég tvöföldu um eyrun.

Thursday, December 17, 2009

17. desember

Veður: Hæg norðanátt og vel yfir frostmarki en ég fann að kalt loft er að síga suður yfir.
Það var mikil umferð og því betra að gæta að sér, ekki gerir það neinn annar. Á stígunum er mikill sandur og beygjurnar viðsjálverðar. Annars er þetta ótrúlega hagstæð tíð hjólreiðafólki.

Wednesday, December 16, 2009

16. desember

Veður: Gerist vart betra í desember. Milt (frostlaust) og lítill vindur.
Færð: Hálkulaust alla leiðina, held ég. Myrkrið verður æ svartara og aldrei mikilvægara að merkja sig vel. Ég er kominn með tvær lugtir aftaná, eina framaná og endurskinsvesti. Samt reikna ég ekki með því að bílstjórar sjái mig.

Tuesday, December 15, 2009

15. desember - kuldapollar

Veður: Hæglætis veður og víðast hvar yfir frostmarki. Ekki þó í Elliðaárdal, sem er einstaklega gott dæmi um kuldapoll. Þó hvergi annarsstaðar sé hálka, þá getur verið hálka í Elliðaárdal. Kuldapollur er þegar kalt loft streymir að úr öllum áttum og safnast fyrir í lægð (sbr Elliðaárdalur), en heldur síðan áfram að kólna.
Færð: Í Salahverfi voru litlir hálkublettir hér og þar. Þegar neðar dró varð hálkan samfelldari. Ekki til vandræða þó.

Friday, December 11, 2009

11. desember - sprungt

Ég var svo ákafur að bæta lofti í afturdekki hjá mér í morgun að slangan rifnaði við ventilinn. Þetta er franskur ventill og því mjór og tíkarlegur og reyndar of langur. Í hamaganginum tókst mér því að skemma slönguna og átti ekki varaslöngu. Næst fæ ég mér slöngu með styttri ventil og varaslöngu.

Thursday, December 10, 2009

10. desember - ísing og lýsing

Veður: Hægviðri og í kringum frostmark, a.m.k. við jörð, því það var ísing alla leið. Veðurstofan segir 5 stiga hiti. En veðurfarsskilyrði voru mjög fín.
Færð: Ísingin þakti alla stíga en nöglunum líkar þetta vel og sé ekki hjólað mjög gassalega þá er þessi ferðamáti fínn.
Annars þurfa sveitarfélögin að passa betur upp á lýsinguna á stígunum. Það eru sprungnar perur hér og þar, óbein lýsing frá akbrautarljósum ófullnægjandi og sumsstaðar vantar alla lýsingu. Nú er rétti tíminn til að fara yfir þessi mál.

Wednesday, December 9, 2009

9. desember - sandur

Veður: Ekki mikið út á það að setja. Hiti hátt í 10 stig eða sirka 8. Vindur nokkur eða 7 m/s og austanstæður, mér fannst vera aðeins norðan í honum, sérstaklega eftir Skógarselinu.
Færð: Allur klaki farinn, naglarnir skerast í malbikaða stígana og rífa þá í sundur. Viðnámið eykst um ca 34% og meðalhraði lækkar um annað eins. Og hljóðið er ekki viðkunnanlegt, sargandi og sárt. Sandurinn eftir samviskusama bæjarstarfsmenn liggur eftir, tilgangslaus og til trafala, bíður eftir því að vera sópað burt í vor. Býður líka uppá að hjól djarfra hjólreiðamanna skríði til hliðar í beygjunum, detti jafnvel í götuna og skrapi læri og olnboga knapans. En Ísland er ófyrirsjáanlegt og þeim vorkunn sem eiga að þjónusta samgönguæðar eins og hjólreiðastíga.

Tuesday, December 8, 2009

8. desember - jólalegt

Veður: Hæg norðlæg átt og í kringum frostmark. Spáir asahláku með suðaustan roki og rigningu næstu daga, sem þýðir að maður hjólar væntanlega á auðu á næstunni. Það er reyndar hið versta mál þegar naglarnir eru komnir undir, meira viðnám og skemmir naglana.
Annars er dálítill jólafílingur að hjóla um íbúðahverfin, seríur og skraut.

Monday, December 7, 2009

7. desember - aftur af stað

Fæðingarorlofið búið í bili og þá segir konan: "skemmtu þér vel í vinnunni". Kominn á nagladekk og ekkert að vanbúnaði.
Veður: Kyrrt og hiti í kringum frostmark. Mikil ísing, nema á fjölförnustu götum sem búið er að salta.
Ég líki því ekki saman hversu stresslaus ferðamáti hjólreiðarnar eru miðað við bílismann. Á þessum tíma er helst að illa upplýstir vegfarendur, gangandi eða hjólandi, séu ógn við umferðaröryggi. En ferðin í morgun gekk sumsé vel. Þarf aðeins að aðlaga klæðnaðinn, var orðinn kófsveittur af lítilli áreynslu og það má segja að reglan sé að manni eigi að verða kalt í kyrrstöðu, þá sé maður líklega hæfilega klæddur fyrir hjólreiðar.