Monday, August 31, 2009

31. ágúst

Veður: Logn og svalt. Bjart og fallegt veður

Umferð: Bílaumferðin er enn að aukast. Skógarselið er orðið svolítið bisí um 8 leytið. En sama er með hjólaumferðina, hún er mun meiri en í fyrra og nokkuð um fólk með börn í stól aftaná. Það er gaman að sjá.

Öryggi: Ég sneri bremsuklossunum að aftan við, eitthvað misslitnir, og lengdi þar með líftíma þeirra um einhverjar vikur. Ég verð að viðurkenna að ég nota það skásta úr því sem til er, göturnar sumsstaðar og stígana annarsstaðar. Þetta hefur í för mér sér að maður skáskýtur sér inn á milli bíla til að ná sem stystum ferðatíma. En það verður að hafa í huga að stofna ekki öryggi annarra í hættu.
Undirlag: Laus sandur hér og þar í beygjum.

Upplifun: Hjólaði talsvert hratt á eftir einhverjum alveg frá Sprengisandi niður í Borgartún. Hann fór mjög hratt yfir svo ég svitnaði gríðarlega.
Ég verð að láta þess getið að Odometerinn á hjólinu hjá mér, sem ég byrjaði að nota vorið 2007 er loksins kominn í 3000 km. Gott að skrásetja það og skoða svo aftur eftir ár.

Friday, August 28, 2009

28. ágúst 2009 - Örlagadagur í íslenskri sögu

Þessi færsla á að vera prufukeyrsla áður en alvaran tekur við:

Veður: Norðanátt og kalt, fyrsti kaldi dagurinn í sumar en þurrt.

Umferð: Margir hjólandi. Bílum fjölgar dag frá degi, pirringur eykst í bílaröðunum og þar með minnkar tillitssemi. Afar fáir stoppa þar sem ég þarf að þvera götur. Blótaði einum.
Fólki á gangstígum fjölgar líka, aðallega framhaldsskólanemar. Erfitt að komast framhjá blaðrandi hálffullorðnu fólkinu sem fyllir þvert yfir stíginn. Þá er bjallan nauðsynleg en viðbrögð við henni eru oft blendin.

Öryggi: Hornið á Miklubraut og Reykjanesbraut er alltaf stórhættulegt þar sem hjólarar úr vestri koma á 30-40 km hraða fyrir blindbeygju og gróður hangir langt út á stíginn. Hægri umferð gildir líka á stígum. Betra að byrja að hafa afturljósið kveikt þar sem hjólað er á götunni. Þarf líklega að skipta um bremsuklossa, sarg í bremsunni að aukast.

Undirlag: Stígarnir og göturnar nokkurn veginn þurrar. Helst glerbrot hér og þar, sömu brotin og ég hjólaði yfir í júní. Hvernig væri að sópa einstaka sinnum?

Upplifun: Haust í loftinu. Gróður hallast inn á stígana, ekki síst illgresið í Elliðaárdalnum, hvar kanína skýst líka þvert yfir stíginn fyrir framan mig.

Dagbók hjólreiðamannsins 2009/2010

Á þessari síðu er ætlunin að færa dagbók um reynslu hjólreiðamannsins af því að hjóla til og frá vinnu frá 1. september 2009 - 31. ágúst 2010.

Markmiðið er að tíunda hvaðeina sem drífur á daga á meðan á ferð stendur, hvað kemur á óvart, hvar mætti bæta aðstöðu hjólreiðamannsin og hvað er gott, og að þessar upplýsingar geti nýst fyrir skipulag eða stefnumótun sem snertir hjólreiðar innan borgarinnar Reykjavíkur.