Wednesday, December 22, 2010

22. desember

Nú stefnir í það að ég hjóli ekki mikið meira á þessu ári, nema heim úr vinnu í dag. Hugsanlega í fyrramálið. En þá verður líka komið að uppgjöri ársins eftir áramót. Spennandi!?

Tuesday, December 21, 2010

21. desember

Ja hérna, það eru bara alveg að koma jól.Stysti dagur ársins í dag og tunglmyrkvi í morgun. Ekki lítið huggulegt. Ég hafði tunglið á vinstri hönd og svo beint framundan svo ég naut þess að horfa á þessa rauðbleiku jólakúlu alla leiðina. Það var líka frost en kom á óvart hvað það beit lítið í andlitið. Sennilega lágt rakastig.
En mér var lítið kalt, aðallega á tánum. Fór í ullarbolinn í morgun og setti eyrnaband yfir eyrun, utanyfir lambhúshettuna. Það virkaði snilldar vel.

Monday, December 20, 2010

20. desember

Ég gerði smá hlé í síðustu viku vegna óreglu í vinnu og félagslífi.
Veit ekki hversu góð ástundun verður í þessari viku, Þorláksmessa og reyndar spáir miklum kulda á morgun. Spurning hvort maður tekur það eða ekki.
Mér finnst rannsóknin mín hafa leitt í ljós að kuldi er í raun meira hamlandi á hjólreiðar en vindur þ.e.a.s. hæfilega hlýr vindur.

Wednesday, December 15, 2010

15. desember

Þessi hlýindi eru ósköp næs á árstíma sem býður oft upp á frost og kulda. En þetta er ekki beint jólalegt eða þannig. Stefnir ótrautt í rauð jól. En fyrir hjólamenn þá er betra að hafa hlýindin.Jólin eru hið innra.

Tuesday, December 14, 2010

14. desember

Það er kominn 14. desember og aðeins um tvær vikur þangað til árinu verður lokað á hjólablogginu. Miðað við undanfarna daga þá verður væntanlega ekki eins mikið um blogg árið 2011 enda verður þá ekki lengur markmiðið að blogga daglega.

Monday, December 13, 2010

13. desember

Vegna misgóðrar lýsingar á stígunum þá á maður oft á hættu að sjá ekki yfirborðið. Oftar en einu sinni hef ég lent í því að hjóla á harðan köggul eða stein á stígnum, sem ég sé ekki vegna myrkurs. Ljósin á hjólinu eru að öllu jöfnu nánast gangslaus í þessu samhengi þar sem þeirra hlutverk er fyrst og fremst að gera mann sýnilegan en ekki til að bæta vegsýn. Það er nefnilega ansi dimmt víða á stígum þessa dagana.

Friday, December 10, 2010

10. desember

Þessi hláka með sínu myrkri, bleytu og vindi er svosem allt í lagi. Það er hlýtt og notalegt.

Thursday, December 9, 2010

9. desember

Hlákan tók öll völd í nótt og hálka og ís voru horfin í morgun. Það verður að segjast eins og er að það er ansi mikið léttara að hjóla ef maður þarf ekki að klæða sig fyrir frost. Sennilega er það ekki síður áhrifavaldur en vindurinn.

Wednesday, December 8, 2010

8. desember

Það var kominn tími á að dæla í dekkin og ég fór á sjálfvirku dæluna á Olís við Suðurlandsbraut. Ég er með franskan ventil og því þarf ég millistykki til að dæla með bílpumpu. Yfirleitt þarf að nota stillingu eins og um sprungið dekk sé að ræða til að dælan taki við sér en stilla jafnframt á þrýstinginn sem maður vill hafa í dekkinu. Þá á þetta að ganga stóráfallalaust fyrir sig. En maður hefur óneitanlega á tilfinningunni að þetta geti sprengt slönguna bara sisona. Þetta gerir maður ef ekki er til almennileg pumpa með þrýstingsmæli á heimilinu.

Tuesday, December 7, 2010

7. desember

Mun hlýrra í dag en ansi var kalt á leiðinni heim í gær.

Svona þegar maður hugsar um það þá annað hvort hætti ég að blogga á næsta ári eða þá að ég verð fræðilegri þá, skoða gögn varðandi hjólreiðar og læt gamminn geisa um þau. Spái í það. Stundum hefur maður mjög lítið að segja og hver dagur verður öðrum líkur. Hins vegar stefni ég á skýrslu þar sem árið 2010 verður gert upp í heild sinni.

Monday, December 6, 2010

6. desember

Helv kalt í morgun, um 7 stiga frost. Það er kaldasti dagurinn í haust held ég.

Thursday, December 2, 2010

2. desember

Aftur komið frost og hálka. En þetta vindleysi er hreint snilld.

Wednesday, December 1, 2010

1. desember

Fullveldisdagurinn í allri sinni dýrð. Rigning og myrkur að morgni.
Til gamans birti ég hér að neðan vindgögn hingað til á árinu. Nóvember raðar sér í flokk með júlí þar sem meðalvindhraði er 3,3 m/s en í nóvember var nánast sami vindhraði til og frá vinnu en það er óvenjulegt. Ríkjandi vindátt var norðaustanátt. Meðalhraði var með því lægsta sem ég hef mælt á árinu, bæði til og frá vinnu eða svipað og í febrúar. Meðalhraði til vinnu var 22 km/klst en 19 km/klst heim. Þessi litli munur skýrist væntanlega af ríkjandi norðaustanátt.