Monday, May 31, 2010

31. maí

Eftir stutt sauðburðarhlé var ágætt að setjasta aftur á hjólið. Veðrið var líka hið ákjósanlegasta. Það er enn nokkur umferð hjólandi fólks þrátt fyrir að Hjólað í vinnuna sé að baki. Höfuðborgarsvæðið er orðið grænt. Það sá ég vel við komuna í bæinn í gær. Það skemmir ekki fyrir.

Friday, May 21, 2010

21. maí

Veðrið í morgun var frábært, nánast logn og 10 stiga hiti.Það er kjörhiti, sagði Magnús Bergsson á fræðslufundi um ferðalög á hjólum í gær. Má helst ekki vera meira. Ég er á því að hjólaleiðin um Rauðavatn, að Grafarholti og Grafarvogur sé ein af skemmtilegri leiðum á höfuðborgarsvæðinu. Sjávarsíðan er líka víða frábær. En þarna er maður lítið inní byggð og fallegt víða.
Nú er ég búinn að þræða helstu leiðir á höfuðborgarsvæðinu síðustu vikur. Þar er misjafn sauður í mörgu fé. Mig langar til að taka saman yfirlit yfir helstu leggina, lengdir, galla og kosti og einkenni leiðar. Þetta gæti verið gagnlegt. Sennilega þarf ég samt að fara aðra ferð og taka myndir af því sem fyrir augu ber svo þetta verði betri gögn.

Thursday, May 20, 2010

20. maí

Það var nett rigning í morgun og frekar kalt. Leiðin lá eftir Fossvogsdalnum og vestur Ægissíðuna, fyrir Seltjarnarnes og svo austur aftur, í Borgartúnið. Þetta tók svolítið í vegna vinds. Kom fram einhverskonar þreyta í rassvöðvana.

En það var fámennara á stígunum í dag, kannski var ég líka seinna á ferðinni.

Wednesday, May 19, 2010

19. maí

Ég fékk grænmetisbúst í kaffitjaldinu í Fífuhvamminum. Það var nú ekki mjög gott á bragðið en örugglega mjög hollt. Svo fékk ég nokkrar flugur ofaní mig í Fossvoginum. Þannig að morgunmaturinn kom þarna fyrirhafnarlítið. En leiðin var hefðbundin, Kársnes, Fossvogur að Suðurgötu, Lækjargata og Skúlagata, 18,7 km. Rigning og um 10 stig, gerist varla betra.

Tuesday, May 18, 2010

18. maí

Þessi kuldi á vorin hefur sína kosti. Það hef ég alltaf sagt. Gróðurinn kemur hægt og örugglega og heldur næringargildi sínu lengur fram í sumarið. En það er nú meira landbúnaðartengt. Mér var allavega ansi kalt á puttunum í morgun þegar ég hjólaði vestan Seltjarnarnesið, á móti ísköldum vindi. 6-7 gráður er ekki veruleg hlýindi. Rigning er bara hressandi. En þetta voru tæpir 24 km. Ég skil enn ekki þessa slöku tengingu milli Reykjavíkur og Seltjarnarness að sunnanverðu. Af hverju virðist vera reiknað með að enginn þurfi að hjóla vestur fyrir Hofsvallagötu? Eins eru þveranir norður-suður af annars ágætum stíg meðfram Skerjafirði arfaslakar. Sveitarfélögin verða að fara að átta sig á því að gangandi fólki er ekki bjóðandi að hafa hjólandi fólk á gangstéttum og bílstjórum á ekki að bjóða upp á að hafa sífellt hjólreiðamenn kriss krossandi götuna. Þar gæti Besti flokkurinn komið sterkur inn með Sjón sem samgönguráðherra. En þetta gildir um öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Monday, May 17, 2010

17. maí

Dálítið kalt í morgun en sólin var hátt á lofti og frábært vorveður. Sá einn lax í Elliðaánni. Hjólaði niður Elliðaárdal og síðan meðfram Sæbrautinni. Hún er nú bara slysagildra fyrir hjólreiðamenn. Erfitt að þvera götur án þess að snúa hausnum 180° til að fylgjast með umferð. Miklu betra að taka Langholtsveginn niður í bæ miðað við þessar aðstæður. Prófaði líka að hjóla Skútuvoginn til að sleppa við þverun Sæbrautar. Það er frekar leiðinleg leið með vörubílum og svifryki. Fór síðan Holtaveginn upp á Sæbraut. Þetta voru 14,3 km.

Friday, May 14, 2010

14. maí

Byrjaði morguninn á því að hjóla yfir á Garðatorg til tannlæknis. Góð byrjun! Það er nú ekki greið leið úr Salahverfinu yfir í Garðabæinn á hjóli en hafðist svosem. Þar vantar góða tengingu með Arnarnesveginum, bæði núverandi og væntanlegum.

Síðan var þetta hefðbundinn túr, reyndar yfir Arnarneshæðina og svo fyrir Kársnesið. Alls um 22 km. Flugur eru orðið víða á ferð og betra að halda munninum lokuðum. Svo koma gleraugu sterk inn á þessum árstíma, ekki bara gagnvart sól.

Wednesday, May 12, 2010

12. maí

Það blés á vestan í morgun, sérstaklega vestur Kársnesið. Ég böðlaðist samt vestur að Seltjarnarnesi, alls 20,3 km. Gott að fá meðvindinn í gegnum bæinn og í Borgartúnið.

Tuesday, May 11, 2010

11. maí

Hjólaði Fossvoginn og vestur á Suðurgötu. Það voru bestu aðstæður enda náði ég 28 km/klst meðalhraða. Það vekur mann til umhugsunar hversu illa er búið að hjólreiðafólki í miðbænum. Gangstéttar eru fullar af gangandi fólki og hjól eru óvelkomin á götunni. Enda er það gamla sagan að hjólreiðamenn velja það skásta af hvoru tveggja.

Monday, May 10, 2010

10. maí

Veðrið er bara ljómandi fínt þessa dagana þó maður finni kaldan vindinn næða um fingurgómana.
Ég hjólaði fyrir Kársnes og vestur á Suðurgötu, geymi Seltjarnarnesið. Um helgina hjólaði ég 50 km hring um Heiðmörk og Hafnarfjörð.
Það var rætt um öryggi á stígum hérna í vinnunni áðan. Eitthvað sem maður velti mikið fyrir sér til að byrja með en hugsar minna um núna. En það eru margar slysagildrur eins og ég kortlagði á nokkrum leiðum. Það á ekki síst við annars vegar undirgöng og hins vegar blindbeygjur. Lausnir á þessu eru einkum tvær; að laga aðkomu að undirgöngum þannig að maður sjái betur inn í þau, eða setja upp spegla (sem síðan eru væntanlega brotnir) og að setja garðyrkjudeildir sveitarfélaganna vel inní málin, hvar þurfi að klippa gróður extra vel eða fjarlægja gróður.

Friday, May 7, 2010

7. maí

Ég fór efri leiðina í dag, gegnum Breiðholtið að Rauðavatni, austur fyrir Grafarholtsvöllinn og niður í Grafarvog og síðan Langholtsveginn. Þetta eru 20 km. Bara mjög fín leið að mestu leyti. Versti gallinn er þverun Sæbrautar. Þar þarf nauðsynlega að bæta aðstöðu hjólreiðafólks með undirgöngum.

Svo eru útivistarstígarnir bara ekki hannaðir fyrir samgönguhjólreiðar, enn og aftur. En ég gat samt haldið 24 km/klst meðalhraða enda er lítil hækkun á þessari leið fyrir mig.

Thursday, May 6, 2010

6. maí

Veður: suðaustan 1m/s og 8,3 stig, rigning
Ferðatími: 23:04 mín
Meðalhraði: 25,3 km/klst

Rigningin er góð. Ég nennti ekki að hjóla langt í morgun, bara um 10 km. Þarf að fara snemma heim á eftir.
Nú þarf að gera eitthvað með þessa aðstöðu til að geyma hjólin. Það gengur ekki að skilja það eftir úti, án þess að geta fest það.

Wednesday, May 5, 2010

5. maí

Veður: SV 2m/s og 8 stig, rigning
Ferðatími: 49:27 mín
Meðalhraði: 22,8 km/klst

Ég hjólaði fyrir Kársnesið, Öskjuhlíðina og vestur á Suðurgötu. Þetta var um 19 km leið. Svakaleg umferð af hjólandi fólki og satt best að segja eru margar slysagildrur á þessari leið. Ég tók engar myndir en Kópavogur þarf að taka sig á í stígagerðinni. Það er ekki nóg að hafa marga km af stígum. Þeir þurfa að geta þjónað sem samgöngustígar.

Tuesday, May 4, 2010

4. maí

Veður: Suðvestan 2m/s og 6 stig. 
Ferðatími: 19:16 mín
Meðalhraði: 27,1 km/klst

Þegar hjólað er nánast sömu leið daglega, með sömu beygjunum, sömu glerbrotunum og jafnvel sömu samferðamönnum, þá byrjar hugurinn að reika um heima og geima. Einbeitingin að umferðinni og ferðinni minnkar. Þetta er sennilega ekki góð þróun en á vafalaust við um bílstjóra líka. Þess vegna er talið mikilvægt að hjóla ekki alltaf sömu leiðina, heldur breyta til. Upplifa nýjar aðstæður, halda sér vakandi.

Á morgun tekur við þriggja vikna tímabil Hjólað í vinnuna. Þá verður mikil umferð á stígunum. Best að huga að nýjum leiðum.

Monday, May 3, 2010

3. maí

Veður: Sunnan 4 m/s og 7,8 stig
Ferðatími: 19:10 mín
Meðalhraði: 28,2 km/klst

Þetta er nú sennilega hlýjasti morguninn hingað til. Afskaplega notalegt og mér sýnist spá eitthvað svipuðu næstu daga. Hjólarar eru fleiri en áður, það er alveg ljóst.
Á laugardaginn hjóluðum við Kiddi einhverja tæpa 40 km, upp í Heiðmörk, suður í Hafnarfjörð, meðfram sjónum, Arnarnesið og inn Kópavogsdalinn. Þetta tók okkur um 2 tíma með stoppum. Þetta er æfing fyrir Arnarvatnsheiðina í júní.