Friday, February 26, 2010

26. febrúar - meiri snjór

Veður: Suðvestan 2 m/s og -6,6 stig
Ferðatími: 35:21 mín
Meðalhraði: 15,5 km/klst

Það var ekki hægt að hjóla út úr hverfinu mínu vegna snjóa. Göturnar nánast ófærar af hálftroðnum snjó, sem er versta mögulega færi fyrir reiðhjól. Þegar komið var út á stofnstíga var búið að moka þá flesta en ekki þótti mér þó vandað til verka, skilin eftir 2-5 cm filma af snjó sem er ákaflega erfitt að hjóla í. En þetta hafðist. Ég mætti ekki mörgum hjólreiðamönnum í dag. Saknaði þess líka að hafa ekki myndavélina með. Og þegar ég horfði í augun á bílstjórunum í þá sá ég eitt spurningamerki, hvern fjandann er ég að gera á hjóli í þessari færð? Ok, ég skil það sjónarmið. En það er líka mikilvægt að fá upplýsingar um hvernig er að hjóla við þessar aðstæður.

Thursday, February 25, 2010

25. febrúar - snjór!

Veður: Austan 10 m/s og -5 stig, snjókoma.
Ferðatími: 30:05 mín
Meðalhraði: 18 km/klst

Það voru margir skaflar á leiðinni en sem betur fer viðstöðulítill snjór. Göturnar voru með afbrigðum erfiðar að hjóla þar sem bílar höfðu ekið. Þess vegna var skásti kostur að þræða gangstéttar og göngustíga þar sem lítil eða engin umferð hafði verið. Ekki var nú búið að moka marga stíga uppúr kl. 8, sem er nú ekki mjög metnaðarfullt af hálfu Kópavogs og Reykjavíkur. En ég verð að segja að mér finnst gaman að vera úti í þessu veðri, og ég þurfti bara ekkert að skafa eða bíða í umferðarteppu. 

Wednesday, February 24, 2010

24. febrúar - enn frost

Veður:NA 3m/s og -5,3 stig
Ferðatími: 22:33 mín
Meðalhraði: 23,6 km/klst

Frostið bítur í andlitið en birtan kemur sterk inn á þessum tíma, orðið vel sjónbjart um kl. 8. Það er svolítið vandasamt að klæða sig í svona veðri. Manni snarhitnar við hjólreiðarnar en að sama skapi kólna ákveðnir punktar hratt niður ef þeir eru ekki vel varðir. Vindvörn er í raun mikilvægust í þessu en hún myndar líka svita þannig að það er ekki bæði sleppt og haldið.

Tuesday, February 23, 2010

23. febrúar - frost

Veður: Norðaustan 1m/s og -6,5 stig
Ferðatími: 22:53 mín
Meðalhraði: 23,2 km/klst

Helvíti kalt í morgun en hlýnaði eftir því sem vestar dró. En það er engin hálka á svæðinu svo naglarnir sarga bara malbikið. Það er hins vegar nokkuð ljóst að ef ég tek þau undan þá kemur hálka. Hins vegar má nefna það að öskudagur mun eiga sér 18 bræður og því stefnir í norðanátt og frost til 7. mars.

Wednesday, February 17, 2010

17. febrúar - öskudagur

Veður: austan 1 m/s og -3 stig
Ferðatími: 24:29 mín
Meðalhraði: 23 km/klst

Það var farið seint út húsi í morgun og því orðið nokkuð bjart. Það er mikill munur. Ég hjólaði Langholtsveginn og fann óöryggi sumra bílstjóra gagnvart því hvar mætti fara frammúr hjólandi manni. Vafalítið pirraðir. En ef bílstjórar eiga að læra að hegða sér í blandaðri umferð þá verða einhverjir að fórna sér í að kenna þeim.

Tuesday, February 16, 2010

16. febrúar - 6 ára afmæli

Veður: Suðvestan 2m/s og 0,7 stiga hiti
Ferðatími: 23 mín sléttar
Meðalhraði: 23 km/klst

(Veit ekki hvað þetta er með 23 í dag) En í morgun opnaði 6 ára stelpan mín afmælispakka með hlaupahjóli. Ég fann ekkert annað en Hello Kitty dæmi og lét það gott heita. Hún valhoppaði síðan alla leið í leikskólann.
Allar aðstæður til hjólreiða voru uppá það besta í morgun. hægur vindur og autt. Svolítið svalt en ekkert til að gera veður út af. Ég sá ábendingu um það á danskri hjólasíðu að maður ætti að hjóla reglulega nýjar leiðir. Þá væri maður meira vakandi gagnvart umferðinni. Ég held þetta sé rétt. Ef maður hjólar sífellt sömu leið þá verður ferðin full vélræn og ósjálfráð.

Monday, February 15, 2010

15. febrúar - loksins norðanátt

Veður: Norðvestan 9m/s og -2,6 stig
Ferðatími: 31:05 mín
Meðalhraði: 17,5 km/klst

Það var bara helvíti erfitt að hjóla í morgun.Ég man varla eftir að hafa verið svona lengi á leiðinni til vinnu, þó ekki nema um hálftími, u.þ.b. jafnlengi og strætó. Svo var einhver þreyta í mér síðan í gærkvöldi, langur körfuboltatími sem tók svolítið í. Fann það jafnvel í kálfunum.
En þetta var eiginlega fyrsta alvöru norðanáttin í vetur.

Friday, February 12, 2010

12. febrúar

Veður: Norðaustan 4m/s
Ferðatími: 21:24 mín
Meðalhraði: 24,7 km/klst

Þetta er náttúrulega ótrúleg veðrátta í janúar og febrúar. Bara eins og maí morgunn, bara aðeins dimmara og engir fuglar. Það eru reyndar nokkrir fuglar á ferðinni sem telja óþarfa að þeir sjáist, nóg að þeir sjái aðra. Þetta eru einkum hjólreiðamenn. Þrátt fyrir að vera á góðum hjólum þá leggja þeir ekki í að splæsa í ljósabúnað. Ekki gott.

Wednesday, February 10, 2010

10. febrúar

Veður: Suðaustan 4 m/s og 4 stiga hiti
Ferðatími: 20:30 mín
Meðalhraði: 26,1 km/klst

Það var ósköp þægilegt að hjóla, lítill vindur, notalegur raki og ekki of mikil umferð. Í gær var ég ekki í stuði til að taka á því heim en var samt ekki nema 28 mínútur á leiðinni. Málið er að ná að halda jöfnum hraða sem mestan hluta leiðarinnar.

Tuesday, February 9, 2010

9. febrúar - vor

Veður: Suðaustan 1m/s og 4,5 stiga hiti
Ferðatími: 21:39 mín
Meðalhraði: 24,5 km/klst

Ég er að fá alveg nóg af því að hjóla á nagladekkjum þessa dagana, alautt og vor í lofti. Kannski fullsnemmt þó að telja veturinn að baki.
En það er bara snilld að hjóla þessa dagana, lítill vindur og milt veður. Sennilega einhver besti hjólavetur sem um getur á þessu svæði.

Monday, February 8, 2010

8. febrúar

Veður: Suðaustan 1m/s
Ferðatími:21:40 mín
Meðalhraði: 24,4 km/klst

Það voru góð skilyrði til hjólreiða í morgun og hægt að hjóla greitt. Fleiri á ferðinni hjólandi en undanfarið.

Friday, February 5, 2010

5. febrúar

Veður: Austan 5m/s og 0,5 stiga hiti
Ferðatími: 22:42 mín
Meðalhraði: 23,2 km/klst

Ég er eitthvað að klæða mig of mikið núna. Hitamælir heimilisins sýnir hörkufrost en úti fyrir er í kringum frostmark.
Svifrykið fór hamförum í gær. Ég var feginn að geta sett buff fyrir vitin þar sem ástandið var verst þó það taki ekki nema stærstu kornin. Leiðinlegt að fá öndunarfærasjúkdóm við að stunda líkamsrækt.

Thursday, February 4, 2010

4. febrúar - svartur köttur

Veður: Austan 3m/s og 1,7 stiga frost.
Ferðatími: 23:02 mín
Meðalhraði: 22,9 km/klst

Það var hlýrra en ég bjóst við í morgun svo ég var við öllu búinn.
Nú fann ég hvað svona hliðartaska getur verið góð. Tók feltföt með mér og ekkert mál. Yfirleitt er hún óþarflega stór.
En það skokkaði svartur köttur þvert yfir stíginn á leiðinni. Hann var eitthvað að kíkja á kanínurnar í Elliðaárdalnum. En það gerðist svosem ekkert á leiðinni.

Wednesday, February 3, 2010

3. febrúar

Veður: Austan 4m/s og 1,6 stiga frost
Ferðatími: 23:10 mín
Meðalhraði 22,8 km/klst

Það var ansi mikil umferð í morgun og ég þurfti nokkrum sinnum að stoppa til að bíða eftir bílum. En skítakuldi.
Ég setti upp mynd sem sýnir meðalhraða alla hjólaða daga í janúar, annars vegar til vinnu og hins vegar heim. Meðalhraðinn til vinnu er um 23 km/klst en heim um 19 km/klst. Það er nokkur sveifla í þessu. Ástæðurnar geta verið margar en vindur ræður þar augljóslega nokkru. Einnig getur umferðin haft nokkuð að segja og ekki síður dagsformið.

Tuesday, February 2, 2010

2. febrúar


Veður: Austan 3 m/s og 1 stigs hiti
Ferðatími:22:10 mín
Meðalhraði: 23,7 km/klst

Það var svalt í morgun, austanáttin náði að vera mér mótstæð á kafla. Vindur er stúdía út af fyrir sig varðandi hjólreiðar og hönnun og skipulag hjólreiðastíga. Hvað eru ríkjandi vindáttir? Hvernig er míkróveðrið? Hvaða áhrif hafa mannvirki á vind? Hvernig má vega á móti áhrifum vinds á hjólaleiðum? Þetta er verðug stúdía, ekki síst hér á landi hinna miklu vinda.

Til gamans má geta þess að meðalvindhraði á mínum ferðum í janúar eru 5,6 m/s. Á bak við þessa rannsókn eru 28 athuganir. Ríkjandi vindáttir eru sunnan og austanstæðar, sérstaklega suðaustanátt. Meðalhiti er er 4,4 gráður í plús. Þetta gæti verið verra, svona í janúar.

Monday, February 1, 2010

1. febrúar

Veður: Austan 2m/s og 2 stiga hiti.
Ég núllstillti óvart hraðamælinn þannig að allar ferðaupplýsingar morgunsins þurrkuðust út. En það var sumsé hálka víða á leiðinni. Ótrúlega dimmt.