Wednesday, March 31, 2010

31. mars

Af því að ég hjólaði nú ekki í dag þá nota ég tækifærið og birti línurit sem sýnir þróun í meðalhraða frá áramótum. Mesta óreglan í meðalhraða er í febrúar þegar færðin er hvað misjöfnust en síðustu vikurnar í mars er komið á meira jafnvægi. Merki um vorið er síðasti rauði punkturinn en hann sýnir að ég hef náð um 24 km/klst meðalhraða heim, sem gerist ekki nema við mjög góðar aðstæður. Þá var ég innan við 22 mín á leiðinni, enda smá meðvindur.

Tuesday, March 30, 2010

30. mars

Veður: NA 5m/s og 5,3 stiga frost
Ferðatími: 21:57 mín
Meðalhraði: 23,6 km/klst

Nú var ég á ferðinni fyrr en venjulega, uppúr kl. hálf átta. Þá virðast fleiri vera á ferðinni hjólandi en hálftíma síðar. Gaman að vita hvort einhverjar talningatölur liggja fyrir.
Ég sé að það er fundur um reiðhjólið, besta farartæki borgarinnar, í kvöld á vegum samtaka um bíllausan lífsstíl. Væri gaman að kíkja. Maður er búinn að vera svona frekar einangraður í þessu, svona fyrir utan vinnufélaga og nánustu ættingja.
Annars skráði ég mig í íslenska fjallahjólaklúbbinn um daginn. Kemur í ljós hvort maður verður eitthvað virkur í því starfi eða bara fljóti með og verði hluti af tölfræði. Þarna er reyndar möguleiki á þokkalegum afsláttum sem er full þörf á í dýrtíðinni. Rekstur á reiðhjóli getur orðið nokkur ef það er eitthvað notað.

Monday, March 29, 2010

29. mars

Veður: Norðan 10m/s og 4 stiga frost
Ferðatími: 25:14 mín
Meðalhraði: 21 km/klst

Helv. kalt í morgun. Mótvindur og frost. Ég var náttúrulega klæddur eins og vordagur væri og því orðinn kaldur í náranum og á puttunum. En hlýleg sturtan jafnaði það út. 

Friday, March 26, 2010

25. mars - 100. bloggið

Veður: SA 1 m/s og 1 stig
Ferðatími: 20:15 mín
Meðalhraði: 25,9 km/klst

Kallinn var aðeins að flýta sér í morgun. Ekki það að það muni nú miklu í tíma hvort maður flýtir sér eða ekki, kannski 3-4 mín. Það segir ákveðna sögu. En hjóla síðan heim á morgun.
Þetta er sumsé 100. bloggfærslan síðan síðasta haust. Það er nokkurn veginn sá fjöldi daga sem ég hef hjólað síðan í lok ágúst. Inn í þessu er 1 mánuður í fæðingarorlofi þegar ég hjólaði ekki neitt. 100 dagar sinnum 18 km á dag eru 1800 km. Hvað ætli það séu margar hitaeiningar? Sennilega um 60.000. Hvað ætli kosti að brenna 60.000 hitaeiningum í líkamsræktarstöð og hvað ætli sé eytt mikilli orku við að láta mann brenna því t.d. í formi rafmagns? Bara pæling.

Tuesday, March 23, 2010

23. mars - sópað

Veður: Austan 11 m/s og 4,4 stig
Ferðatími: 21:33 mín
Meðalhraði: 24,4 km/klst

Rok af þessari stærðargráðu getur haft talsverð áhrif á ferðina. Mótvindurinn dregur með tímanum úr manni mátt, ekki síður andlega en líkamlega. Hliðarvindurinn getur hent manni út af. Og meðvindurinn er hjálplegur en getur líka blekkt mann til að hjóla alltof hratt þar sem aðstæður leyfa það ekki.

Annars verð ég að hrósa Reykjavíkurborg fyrir að sópa stígana í gær. Þurr sandurinn er byrjaður að fjúka auk þess sem hann myndar hættulegt yfirborð. Ég held þetta hljóti að vera óvenju snemmt.

Monday, March 22, 2010

22. mars

Veður: NA 4m/s og 4,6 stig
Ferðatími: 21:56 mín
Meðalhraði: 224 km/klst

Hann var svalur í morgun og nokkuð stífur á móti fyrri hluta leiðarinnar en varð síðan þægileg hliðarátt. Spáin er þannig að það mun ekki frjósa á næstunni og ég reikna með að taka naglana undan í kvöld. 

Thursday, March 18, 2010

18. mars

Veður: Norðausan 2m/s og 4,6 stiga hiti
Ferðatími: 22:45 mín
Meðalhraði:23,2 km/klst

Nú snarfjölgar hjólreiðamönnum og það á bara eftir að aukast. Það gæti orðið áhugavert að fylgjast með hvort aukin umferð hjólreiðamanna hafi áhrif á ferðatímann hjá manni. Allavega sýnist mér ljóst að þetta stígakerfi springi í vor. 

Wednesday, March 17, 2010

17. mars

Veður: Austan 5m/s og 6 stiga hiti
Ferðatími:  21:28 mín
Meðalhraði: 24,5 km/klst

Ég hafði það á tilfinningunni í morgun að fleiri séu vaknaðir til lífsins og fari nú ferða sinna á hjóli. Vortilfinningin er að breiðast út. Skemmtilegast er að fylgjast með vorkomunni í Elliðaárdal og Laugardal, altsvo á minni hefðbundnu leið. Strandlengjan er líka skemmtileg á þessum tíma, fuglarnir hrúgast inn í vogana.

En ég finn það alltaf betur og betur hvað hjólreiðar eiga illa samleið með gangandi umferð. Þá á ég við samgönguhjólreiðar en ekki fjölskylduútgáfuna. Hjólreiðamenn á yfir 20 km/klst hraða eiga ekki heima á göngustígum. Hvað þá yfir 30 km/klst. Göturnar eru þá mun betri kostur. En þá er maður kominn í sömu stöðu og gangandi fólk á göngustíg gagnvart hjólreiðamönnum, bara hættulegra. Ég er þó ekki frá því að bílstjórar séu farnir að venjast hjólreiðunum. Það væri gaman að sjá könnun á viðhorfi bílstjóra til hjólreiða í umferðinni, eru þær pirrandi, á að banna þær eða er þetta bara besta mál.

Tuesday, March 16, 2010

16. mars

Veður: Austan 6m/s og 2,7 stig
Ferðatími: 22:23 mín
Meðalhraði: 23,6 km/klst

Hálf kuldalegt í morgun, austan kuldi með slyddu. Mótvindur fyrri helming leiðarinnar en svo meðvindur. Mjóddin tekur nánast allar vindáttir og gerir úr þeim mótvind eða meðvind. Það gerir mannvirkjabeltið.

Monday, March 15, 2010

15. mars

Veður: Vestan 2m/s og 3,5 stig
Ferðatími: 21:29 mín
Meðalhraði: 24,5 km/klst

Nú er orðið bjart fyrir kl. 8. Ferðirnar eru fremur viðburðalitlar þessa dagana en mjög fín skilyrði fyrir utan sandinn á stígunum. Það styttist í 100. hjólabloggfærsluna sem er nú ágætt. Ég er núna búinn að hjóla 652 km síðan 11. janúar og eingöngu til og frá vinnu, á rúmum tveimur mánuðum. Það þýðir að maður ætti að hjóla ca 3.000 km á árinu. Mér segir svo hugur að það kalli á eitthvert viðhald á hjólinu. Ég skipti um bremsuborða í haust og þarf núna að skipta um bremsuborða að aftan. Svo þarf að stilla gírana eitthvað hjá mér, efstu og neðstu eru ekki alveg hljóðlausir. Reyndar er þetta hjól frekar lágt gírað og ég nota aldrei neðstu gírana þ.e.a.s. minnsta tannhjólið að framan og ekki heldur stærstu tannhjólin að aftan. Efstu gírarnir mættu líka vera hraðari.

Í haust sendi ég sjúkrasjóði BHM erindi þar sem ég benti þeim á mismunun í reglum sjóðsins varðandi líkamsræktarstyrki. Reglurnar hafa miðast við þá sem kaupa einhverskonar kort í líkamsrækt, einhverja stöðina, skíði eða sund. Þeir sem stunda útihlaup nú eða hjóla hafa ekki átt kost á þessu. Reglunum var síðan eitthvað breytt og ég á eftir að láta á það reyna hvort hægt er að fá styrk vegna viðhalds á reiðhjóli, nú eða til að kaupa sér einhvern hjólabúnað. Ef einhver les þetta þá væri áhugavert að fá einhverjar reynslusögur eða viðhorf.

Friday, March 12, 2010

12. mars

Veður: Vestan 2m/s og 3,5 stig
Ferðatími: 21:27 mín
Meðalhraði: 24,2 km/klst

Það var svolítið kalt á kafla, svalur vindurinn, en annars frábært veður. Ég pakkaði lambhúshettunni niður og setti buffið upp. Það kemur betur út þegar orðið er svona hlýtt.

Heimleiðin: Meðalhraði 18,9 km/klst, hámarkshraði 35,6, tími 32:17 og vegalengd 10,2 km. Suðvestan 5 og 5,5 stiga hiti.

Wednesday, March 10, 2010

10. mars

Veður: SA 3m/s og 5 stiga hiti
Ferðatími: 19:52 mín
Meðalhraði: 26,5 km/klst

Það er bara kominn mikill vorhugur í kallinn núna og ekki ólíklegt að maður fari að lengja leiðina þegar veður er svona hagstætt. Möguleikarnir eru nokkrir, niður Kópavogsdalinn, fyrir Kársnes, Fossvogurinn, Sæbrautin, Suðurgata o.s.frv. Þetta eru mislangir leggir en líka gaman að safna upplýsingum um ferðatíma á þessum leiðum við mismunandi skilyrði. Það er varla óhætt að taka naglana undan en ansi er það nú freistandi.

En ég tók eina mynd á leiðinni þar sem sandurinn er nú svona ríkjandi yfirborðsgerð á stígunum um þessar mundir.

Tuesday, March 9, 2010

9. mars - talsvert vorlegt

Veður: SA 7m/s og 6,6 stiga hiti
Ferðatími: 19:26 mín
Meðalhraði: 27 km/klst

Ég viðurkenni það fúslega að það munar um meðvind. Ferðin gekk mjög greiðlega og þessi meðalhraði er frekar hár svo ekki sé meira sagt. Enda er það svo að þegar maður nær að hjóla á götum þá eru þær hannaðar með það í huga að farartæki séu fljót á milli staða. Það gildir hins vegar sjaldnast um stíga. Þeir eru alsettir hindrunum s.s. beygjum sem draga úr hraða. Þá er ég ekki að tala um aflíðandi beygjur heldur 90° beygjur.
En það er vor í lofti og vindur hlýr. Rigningin er bara til bóta. Hins vegar klæddi ég mig of mikið í morgun og er af þeim sökum að svitna langt fram eftir morgni þrátt fyrir sturtu. Nú er nóg að vera í hjólabuxunum, þunnum bol og vind-/regnjakka, og að sjálfsögðu endurskinsvesti ef jakkinn er ekki þannig á litinn. Reyndar er að verða vel bjart um kl. 8.
Nú er sandur á stígum í miklum mæli. Hann er sérstaklega varasamur í áðurnefndum beygjum. Yfirleitt er beðið eftir að hann rigni eða fjúki burt á veturna. Það er ekki sópað fyrr en í vor.

Monday, March 8, 2010

8. mars

Veður: Suðaustan 4m/s og 6 stiga hiti
Ferðatími: 22:08 mín
Meðalhraði: 24,4 km/klst

Megnið af snjónum hvarf í nótt. Dálítið krap eftir á stígunum, mismikið þó. Það styttist í vorið hér á láglendinu. Hins vegar virðist færðin í efri byggðum hafa verið lakari í morgun. Hvernig er þetta vaktað af bæjarfélögunum? Ég efast ekki um að farið er snemma á fætur á þeim bænum.

Friday, March 5, 2010

5. mars

Veður: SV 7m/s og 5 stiga hiti
Ferðatími: 22:29 mín
Meðalhraði: 25,2 km/klst

Það var nú bara vel ásættanlegt að hjóla. Ansi blautt á köflu, eins og þessi pollur eða tjörn í Elliðaárdal.  Eins og tölurnar hér að ofan gefa til kynna var nokkuð þægilegur meðvindur og hraðinn því með ágætum en ég hjólaði líka götuna um 90 % leiðarinnar.

Ég tók nokkrar myndir í gær en þær voru ferkar slappar, regndropi á linsunni og vond birta. En það má skoða þær hér. Færið var afleitt á stígunum, troðinn snjórinn að bráðna og hjólið datt niður í gegnum krapann hér og þar.
Uppáhaldsmyndin er þessi, sem sýnir samstarf Reykjavíkur og Kópavogs í hnotskurn.
Ég náði því miður ekki góðri mynd af röstunum eftir moksturstækin en þessi gefur vísbendingu um það sem gerist þegar þeir þvera stígana og skilja eftir snjórastir.
Heimleiðin var ansi erfið eftir körfuboltaæfingu enda Suðvestan 10m/s. Gott að fá sér einn kaldann að því loknu. En ég var 39:23 mín á leiðinni, 10,5 km, meðalhraði 15,9 km/klst, hámarkshraði 33,5. Það var reyndar athyglisvert að hinn nýji hjólastígur í Fossvoginu hefur alls ekki verið mokaður. Hmm, hvaða forgangsröðun ætli ráði þar um?

Thursday, March 4, 2010

4. mars

Veður: SV 4m/s og 2 stiga hiti
Ferðatími: 25:23 mín
Meðalhraði: 21,1 km/klst

Ok, þetta var mun betra í dag. Snjórinn orðinn þéttari og á köflum búið að skafa betur. Best er þó að nota göturnar þar sem er 50 km hámarkshraði eða minna. Líklega eru bílstjórar margir hverjir að venjast hjólreiðafólki í auknum mæli, veit það þó ekki. En það er mikið slabb og salt sem lendir á hjólinu. Ég ætla að taka nokkrar vel valdar myndir á heimleiðinni til að skrásetja aðstæður.

Tuesday, March 2, 2010

2. mars

Eftir að hafa hossast heim í gær eftir illa hreinsuðum stígum og sjá fram á að aðeins hafi bætt á snjóinn á þessum sömu stígum með tilheyrandi hossi þá ákvað ég að taka strætó í morgun. Ég verð nú að segja að vegna seinagangs við hreinsun á stígunum þá misstu menn af upplögðu tækifæri til að láta sólina hreinsa stígana í gær. Það gerðist einmitt í Elliðaárdalnum. Ef á annað borð er verið að leitast við að hreinsa stígana þá á að gera það sem fyrst áður en snjórinn treðst niður. Einnig virðist á köflum þurfa að stika stígana en víða er ruðningurinn að mestu úti á grasflötunum. Svo virðist ekki vera nokkur tilfinning fyrir því að laga snjógarða og rastir sem myndast þvert á stíga. Ég er semsagt frekar óhress með hvernig staðið er að hreinsuninni þessa dagana.

Monday, March 1, 2010

1. mars - ekkert hrós

Veður: Austan 5m/s og 0 stig
Ferðatíminn: Eitthvað skrítinn, snjór á nemanum.

Það fær hvorugt bæjarfélagið Kópavogur eða Reykjavík hrós fyrir góða hreinsun á stígum í dag. Eina leiðin var að hjóla göturnar í saltslabbinu.Smá kafli stíga í Elliðaárdalnum er áberandi best hreinsaður.
En það er komið að uppgjöri febrúarmánaðar og hér er mynd sem sýnir meðalhraða frá áramótum. Eins og sést eru síðustu dagarnir nokkuð strembnir á leið til vinnu vegna snjóa. Vantar gögn fyrir heimferðina.