Friday, January 29, 2010

29. janúar

Veður: Austan 1m/s og 1,5 stiga frost
Ferðatími: 23:22 mín
Meðalhraði: 22,5 km/klst
Mér tókst að detta þegar ég hjólaði á stein á miðjum göngustíg. Ekki nokkur leið að sjá hann í myrkrinu. Ekkert alvarlegt þar sem ég var á hægri ferð.

Ég verð að hrósa hverfamiðstöð Reykjavíkur í Breiðholti fyrir snögg viðbrögð. Sendi þeim póst á miðvikudaginn þar sem ég lét þá vita af stórri holu í stígnum í Elliðaárdal. Það var búið að fylla í hana morguninn eftir.

Það er einn hjólreiðamaður búinn að niðurlægja mig tvo morgna í röð, hjólar frammúr mér á sama stað, að því er virðist fyrirhafnarlaust. Þetta er ekki gott fyrir egóið.

Thursday, January 28, 2010

28. janúar

Veður: Vestan 3m/s og 3 stiga hiti
Ferðatími: 22:41 mín
Meðalhraði: 23,2 km/klst
Ég var aðeins seinna á ferðinni í dag og lenti í meiri umferð en vanalega. Það sannar sig enn og aftur að bílstjórar sjá mann ekki vel við þessi erfiðu skilyrði, myrkur og bleyta. Reyndar verður að segjast eins og er að sumir bílstjórar sjá betur en aðrir. Hefur eitthvað með hraða þeirra í lífinu að gera almennt og virðingu fyrir því sem er í kringum þá.
En við vorum að ræða aðstöðu hjólreiðamanna hér á Íslandi og í Danmörku í vinnunni. Góðir stígar, góð sturtuaðstaða í fyrirtækjum og stofnunum og síðast en ekki síst, flatt. Og svo er náttúrulega munur á veðri. Þar þarf, að öllu jöfnu, ekki að splæsa í nagladekk undir hjólin.

Wednesday, January 27, 2010

27. janúar - vestanstæður

Veður: norðvestan 4 m/s og innan við 3
Ferðatími: 22:31 mín
Meðalhraði: 23,4 km/klst

Það var hægur mótvindur, vestanstæður, í morgun. Þetta er frekar sjaldgæft en ágæt tilbreyting. Það gæti þá orðið mótvindur heim, sem er að sama skapi sjaldgæft.
Eitt öryggisatriði á leiðinni: Í Elliðaárdal er komin gríðarstór hola í stórum polli sem hefur myndast þar í rigningum síðustu daga.Holan sést ekki þegar pollurinn er en hún er hættuleg hjólandi fólki. Eins er ljóslaus ljósastaur í brekkunni niður í Elliðaárdal frá stekkjunum. Þar er bæði beygja og talsverður halli og því afar óheppilegt að hafa þar slæma lýsingu.

Tuesday, January 26, 2010

26. janúar

Veður: Suðvestan 3 m/s og 4 stiga hiti.
Ferðatími: 21:51 mín
Meðalhraði: 25,7 km/klst

Algjörar snilldaraðstæður í dag. Rólegur vindur og þægilegt hitastig. Ég hjólaði aðra leið en vanalega, Langholtsveg og Laufásveg og síðan Sundlaugarveginn. Það er fín leið, lítil umferð og litlar hæðabreytingar.

Monday, January 25, 2010

25. janúar - meðvindur

Veður: Sunnan 12 m/s og 10 stiga hiti. Hviður upp í 30 m/s
Ferðatími: 21:31 mín
Meðalhraði: 24,6 km/klst

Það var ansi hreint góður meðvindur í morgun. Þurfti að standa á bremsunni á köflum. Og svo var svo hlýtt að maður svitnaði eins og andskotinn. En meðvindurinn dugði ekki til að setja nein hraðamet. Það þarf fleira að koma til, engin stopp, það þarf allt að liggja fyrir manni. Ég þurfti að stoppa a.m.k. þrisvar á leiðinni. Það þýðir að maður þarf að vinna upp hraðann á nýjan leik og það tekur svolítið á, kostar mikinn tíma.

Thursday, January 21, 2010

21. janúar - stormviðvörun

Veður: Suðaustan 11 m/s
Ferðatími: 21:19 mín
Meðalhraði: 25 m/s
Vindurinn náði að vera bæði með og á móti en aðallega var þó meðvindur. Þá nær maður þessum meðalhraða. En það er heimferðin sem gæti orðið fróðleg í dag þar sem stormviðvörun liggur í loftinu og mótvindur í þokkabót.
Það voru fáir á ferli í morgun, kannski einhverjir skilið hjólið eftir heima?
En svo þarf ég líka að kaupa hákarl í heimleiðinni, nú eða á morgun.

Seinnipartur: Þetta var ósköp lítið mál. Hviðurnar voru ansi harðar en ég var einhvern hálftíma á leiðinni, sem er tiltölulega eðlilegt.

Wednesday, January 20, 2010

20. janúar - rigning

Veður: Suðaustan 2m/s og 4 °C.
Ferðatími: 21:25 mín
Meðalhraði: 24,6 km/klst
Þetta var nú frekar viðburðalítil ferð í morgun. Notaleg rigning sem hríslaðist um lærin, talsverð umferð hjólandi fólks.

Tuesday, January 19, 2010

19. janúar - asahláka og meðvindur

Veður; Sunnan 6m/s og 9 stiga hiti.
Ferðatími: 20:18 mín

Meðalhraði: 26,1 km/klst
Þetta var frekar létt í morgun. Engin hálka, meðvindur og hlýtt. Og það var nánast engin umferð á stígunum.

Monday, January 18, 2010

18. janúar - hálka

Veður: Suðvestan 4 m/s og 3 stiga hiti.
Ferðatími: klikkaði eitthvað.
Déskoti hált í morgun, a.m.k. á stígunum. Fjölfarnar götur voru auðar. Ég hjólaði hægt nánast alla leið en tókst ekki að dokumentera þessa ferð, eitthvert pikkles í hraðamælinum.

Friday, January 15, 2010

15. janúar - jeppar og hundar

Veður: Suðaustan 4 m/s og 4 stiga hiti.
Ferðatími:  26:35 mín
Meðalhraði: 20,6 km/klst

Hálka víða um borgina í morgun.
Upphækkaðir jeppar eiga ekki upp á pallborðið hjá mér í umferðinni. Ökumenn þeirra sjá mann ekki eða vilja ekki sjá mann. Einn svoleiðis svínaði fyrir mig í morgun. Og ég er bara fordómafullur. En ég tel mig geta þekkt nokkuð úr þá sem svína.
Svo lenti ég í smá uppákomu við Kringlumýrarbrautina. Fullorðin kona með hund í bandi, bandið þvert yfir stíginn. Ég náði að stoppa og blessuð konan afsakaði sig í bak og fyrir. Þetta litla dæmi segir mér að hundar úti að labba með eigendur sína og hjólreiðamenn eiga ekki heima á sama stíg.

Thursday, January 14, 2010

14. janúar - hratt

Veður: Sunnan 6m/s og 6 stiga hiti.
Meðalhraði: 26,1 m/s
Ferðatími: 20:15 mín

Það var meðvindur í morgun og ég hjólaði nokkuð hratt. Þetta skapar augljóslega hættu fyrir mig og aðra, ekki síst við þessar aðstæður, myrkur og sandaða göngustíga. Margir eru illsjáanlegir á þessum slóðum, gangandi og hjólandi, svo ekki sé minnst á hundana. Það þarf því að hafa augun vel hjá sér og reyndar eyrun.

Wednesday, January 13, 2010

13. janúar - vindur

Veður: SA 6 m/s og 5 stiga hiti.
Ferðatími: 22:41 mín
Meðalhraði: 23,2 km/klst

Öll hálka er nú horfin af stígum og bara sandur og möl situr þar eftir. Göturnar eru hins vegar nokkuð hreinar.
Mætti einum í morgun sem horfði stíft ofan í stýrið á hjólinu og virtist ekki hafa hugmynd um að aðrir væru á ferð. Það er ekki bara það að bílstjórar eru illa meðvitaðir um tilveru hjólreiðamanna heldur eru hjólreiðamenn margir hverjir haldnir sömu einkennum.

Tuesday, January 12, 2010

12. janúar - rannsókn hafin

Veður: Austan 4 m/s og 2 stiga hiti.
Ferðatími: 22:53 mín

Meðalhraði: 23 km/klst

Við erum að tala um að nú er komin rannsókn í gang. Hér eftir verður safnað gögnum um vind og ferðatíma. Þessi gögn verða síðan greind með það í huga að sjá hversu mikil áhrif vindur hefur á ferðatíma. Þetta er auðvelt þar sem ég hjóla nánast alltaf sömu leið og samanburður því auðveldur.
Ég fékk sumsé hraðamæli í gær og reyndar nýja lambhúshettu sem er hinn mesti kostagripur.

Monday, January 11, 2010

11. janúar - hlákan

Veður: Suðaustan 3 og 3 stiga hiti. Frost við jörð nokkuð víða en frábært veður.
Snjórinn er farinn og því kolniðamyrkur snemma á morgnana.
Það liggur fyrir að fjárfesta í nýjum hraðamæli.

Friday, January 8, 2010

8. janúar - samferða

Veður: Sunnan 2 m/s og 3 stiga hiti. Bara indælt veður og gott að vera úti.
Göturnar eru bestu hjólaleiðirnar, orðnar alauðar flestar hverjar. Víða er þó enn slabb.
Við Sigga vorum samferða úr Elliðaárdalnum, ágæt tilbreyting að spjalla á leiðinni þar sem það er hægt.
Ég hjólaði nýjan hjólastíg í Fossvogsdalnum í gær sem er aðskilinn göngustígnum. Hann er nú ansi stuttur en þetta kemur.Nú er kominn tími á að taka myndavélina með og safna gögnum.
Svona til að minna mig á þá stendur 3755 km á hraðamælinum sem virkar ekki lengur.

Thursday, January 7, 2010

7. janúar - hraðamælirinn bilaður

Veður: Samkvæmt Veðurstofunni, 0 gráður og vestan 1 m/s. Það var þó frost við jörð víðast hvar á leiðinni en fyrirtaks hjólaveður.
Það sem ég hyggst gera ef tekst að gera við hraðamælinn er að taka ferðatímann í hverri ferð og bera saman við vindhraða og hvort um meðvind eða mótvind er að ræða. Þannig má safna upplýsingum um hversu mikil áhrif vindur er að hafa á þennan ferðamáta hvað ferðatíma snertir. Það eru verðmætar upplýsingar fyrir þá sem geta hugsað sér að hjóla frekar en að húka í bíl.

Wednesday, January 6, 2010

6. janúar - þrettándahláka

Veður: Milt og hæg vestlæg átt. Úrkoma ýmist snjókoma, rigning eða slydda, eftir hæð yfir sjávarmáli.
Snjórinn er mýkri í dag en í gær og því hálla. Færð í fáförnum götum er heldur leiðinleg á hjóli, blautur snjór og afar skreift eins og sagt er í sveitinni. Tærnar og puttarnir voru hins vegar vel heit þegar komið var til vinnu í morgun. Stefnir í versnandi færi ef marka má veðurspá með slabbkenndum snjó og síðan hálkumyndun, sem verður áfram nema hlákan verði langvinn.

Tuesday, January 5, 2010

5. janúar - frost

Veður: Veðurstofan segir 7 stiga frost þennan morguninn. Ég get alveg trúað því og reyndar held ég að frostið hafi verið nokkru meira í Elliðaárdal, mig fór að verkja í ennið á þeim kafla.
Annars er gaman að vera á ferðinni í þessu færi, brakar í snjónum og stjörnur á himni. Ekki oft sem svona viðrar á Reykjavíkursvæðinu. En enn og aftur kemur í ljós að maður verður að hugsa um sig sjálfur, reikna ekki með að maður sjáist.

Monday, January 4, 2010

4. janúar - nýtt hjólaár

Það er gott að hefja árið á að hjóla til og frá vinnu fyrsta vinnudaginn.
Veður var fremur kalt en kyrrt og fallegt. Elliðaárdalurinn var t.d. fallega hrímaður. Stígarnir eru góðir yfirferðar, harðir og víða sandbornir. Það versnar í fyrstu hláku ársins sem verður sennilega í þessari viku.
Ég fékk bögglabera í afmælisgjöf og prófaði gripinn í morgun, setti bakpokann aftaná. Þarf síðan að prófa tösku. Með því væri hægt að nýta ferðina heim og kaupa í matinn.