Tuesday, August 31, 2010

31. ágúst

Rigning og huggulegheit að hjóla.
Nú hef ég komist á þá eindregnu skoðun að það á almennt að gera ráð fyrir hjólreiðafólki á götum í þéttbýli. Sumar götur eru það hraðar að það gengur e.t.v. varla en ef sett er hjólarein með aðal stofnbrautum þá getur það vel gengið þó hámarkshraði sé yfir 50 km/klst. Það er einfaldlega stórhættulegt að hjóla á gangstéttum og oft á tíðum á gangstígum, nema þar sé afmörkuð braut fyrir reiðhjól. Gangstéttar eru einkum hættulegar þegar þvera þarf götur, oft blindhorn og engin leið að sjá bíla fyrir. Samgönguhjólreiðar verða að byggja á því að hægt sé að hjóla tiltölulega hratt á milli staða, 20-40 km hraði. Það gengur ekki á gangstéttum.

Monday, August 30, 2010

30. ágúst

Fyrir rétt rúmu ári síðan eða 28. ágúst 2009, setti ég inn fyrstu bloggfærsluna hér varðandi hjólreiðar til og frá vinnu (sjá hér). Alls eru síðan 168 bloggfærslur, sem er eiginlega færra en ég bjóst við. Inn í þetta spila síðan öll frí og mánaðar fæðingarorlof.
Það er svolítið fyndið að lesa þessar fyrstu færslur. Ég er að finna að því að framhaldsskólanemar taka upp stígana og gróður hangir inn á stígana í Elliðaárdalnum. Þetta er einmitt eitthvað sem ég skrifaði um í síðustu viku. Og ég var reyndar með ónýta bremsupúða fyrir ári síðan. Skipti einmitt í síðustu viku. Það er reyndar annar gangurinn þannig að það má reikna með tveimur göngum af púðum yfir árið þegar maður hjólar um og yfir 3000 km á árinu.
Samkvæmt gamla blogginu er ég kominn með ljósin á í lok ágúst. Best að bæta úr því.

Friday, August 27, 2010

27. ágúst

ÉG skil ekki hvað er verið að amast við þessum blessuðum kanínum í Elliðaárdalnum. Það er bara gaman að sjá eitthvert líf á leiðinni. Og þó að mávurinn hirði nokkra kanínuunga, það er bara lífið.
En það var gaman að horfa á eftir dætrum mínum í morgun á hjólum á leið í skólann. Þeim finnst sjálfsagt að hjóla meðan veður og færð er eins og það er.

Thursday, August 26, 2010

26. ágúst

Nú er kominn sá tími ársins sem hættulegustu einstaklingarnir eru komnir á kreik í umferðinni. Ungir bílstjórar, sem gjarnan eru að flýta sér í skólann. Það kemur best fram þegar maður þarf að þvera götur. Þá er hópur ungra bílstjóra sem hefur ekki snefil af tillitssemi við hjólandi fólk og ekur fyrir mann eins og ekkert sé sjálfsagðara. Smá pirringur hjá mínum í morgun sem er gott að fá útrás fyrir.
Eins er mikill fjöldi af framhaldsskólanemum á göngustígum á morgnana og seinnipartinn, oft margir saman og fylla alveg út í stíginn þannig að erfitt er að komast framhjá. Þá er bjallan nauðsynlegt tæki.
En nú er sumsé kominn tími á aðeins breytingu í fatavali fyrir hjólreiðaferðina. Loftið er kaldara og því þörf á fleiri lögum. Þunnur bolur og vindjakki yfir, jafnvel áberandi vesti. Ef einhver vindur er þá er betra að vera með buff undir hjálminum, svona yfir eyrun. Svo geta fingurgómarnir orðið kaldir ef maður er ekki með vettlinga. Það er t.d. lítið skjól í hjólagrifflunum mínum.

Wednesday, August 25, 2010

25. ágúst

Ekta haustmorgunn, bjart og svalt. Nú koma haustlitir í lyng og lauf.

Tuesday, August 24, 2010

24. ágúst

Kominn aftur í gang. Fullt af fólki á hjólum um kl. 8 í morgun og veðrið dásamlegt. Það er hins vegar komið haust í loftið, lykt af sölnuðu laufi, skuggarnir hafa lengst og skólakrakkar hvarvetna.
Í Elliðaárdalnum hangir allskyns villigróður inn á stígana, þistlar og eitthvert annað hávaxið illgresi með bleikum blómum.
Það surgaði í bremsunum að aftan og væntanlega kominn tími til að yfirfara hjólið fyrir haustið. Skipta um bremsuborða, fínstilla gírana og koma ljósum aftur á að framan og aftan.

Monday, August 23, 2010

23. ágúst

Ég get því miður ekki bloggað um hjólaferðina í dag þar sem ég hjólaði ekki. Hins vegar langaði mig til að stimpla það inn að ég hef fengið staðfest að maður sem ég umgengst nokkuð í vinnu ætlar að leggja bílnum og viðurkenndi að hafa orðið fyrir áhrifum frá mér. Þetta er því mjög gleðilegur dagur. Hann fékk sér hins vegar racer og nú langar mig í svoleiðis.

Friday, August 13, 2010

13. ágúst

Mikil rigning og hressandi að sama skapi. Í svona rigningu er væntanlega betra að hafa eitthvað mynstur í dekkjunum sem flytur vatnið svo hjólið fljóti ekki ofaná. Það þarf kannski meiri hraða til að hjólið fljóti upp, ég hef allavega ekki lent í þessu.

Thursday, August 12, 2010

12. ágúst

Ég er á því að umferðin sé að aukast eftir sumarleyfi. Maður þarf að gæta meira að sér nú. Reyndar setti rigningin líka strik í reikning, hjólandi maður sést verr. Nú er bara að taka vestið fram, haustið í nánd og skólarnir að byrja.

Wednesday, August 11, 2010

11. ágúst

Skemmtilega mikil hjólaumferð í morgun. Allskyns hjól og allskyns fólk á ferðinni.
Þess ber að geta að í byrjun ágúst fór ég yfir 2000 km á árinu, til og frá vinnu. Þetta segir ekki mikla sögu en er þó eitthvað sem er að baki. Það má vel reikna sparnaðinn af þessu en það er líka óþarfi. Þetta er bara svona.

Tuesday, August 10, 2010

10. ágúst

Það sígur á sumarið og fólki á stígunum er farið að fjölga á nýjan leik eftir afar rólegt sumar. Gróður hangir víða inn á stígana, einkum frá einkalóðum, slær mann í andlitið fyrirvaralítið.

Friday, August 6, 2010

6. ágúst

Maður er greinilega aðeins stirður að byrja aftur að hjóla. Munar greinilega um tveggja vikna hlé. En það kemur strax aftur.
Hitti félaga minn í sundi um daginn sem sagðist vera með klemmupedala. Það væri allt annað líf og eina vitið fyrir þá sem hjóla daglega til og frá vinnu. Hann sagðist líka vera með mjög mjó dekk á hybrid hjólinu. Draumur einn. Dálítið dýrt samt að skipta yfir í klemmupedala. Skór lágmark tæp 20 þús.

Thursday, August 5, 2010

5. ágúst

Jæja, þá er sumarfríið að enda í bili og ég hjólaði létt í vinnuna seint og síðar meir í morgun. Það er eins og vant er lítill vindur og mesta blíða. Hef ekkert hjólað í tvær vikur en það kemur strax aftur. Nú styttist líka í að ég loki árshringnum í hjólablogginu og spurning hvað á að gera í haust.