Monday, July 19, 2010

19. júlí

Heitasti dagurinn sem ég hjóla á þessu ári. Sól og örlítil gola. Búnir að vera nokkrir svona dagar í röð, alger snilld.

Thursday, July 15, 2010

15. júlí

Góður dagur í dag. Þetta er bara eins og í útlöndum. Sól á daginn og rigning á kvöldin.
Ég reikna með að fara í sumarfrí eftir daginn í dag og þá verður kannski eitthvað hjólað í frístundum.

Wednesday, July 14, 2010

14. júlí

Veðrið leikur við mann þessa dagana og umferð á götunum er mjög lítil. Helst er hætta á að maður verði full kærulaus þess vegna. Nokkrir eru að hjóla, og njóta þess.

Monday, July 12, 2010

12. júlí

Spánverjar heimsmeistarar og hjólað til vinnu í tilefni þess. Flott veður í dag og umferð nánast engin.

Friday, July 9, 2010

9. júlí

Dauður kanínuungi á stígnum ofan Elliðaárdals táknar fallvaltleika tilverunnar. Sennilega drepinn af mávum.

Thursday, July 8, 2010

8. júlí

Ansans norðanátt í morgun. Veðurstofan sagði 6 m/s en það var örugglega nær 10. En ég var einhverjar tæpar 22 mínútur á leiðinni svo þetta var nú ekki mjög alvarlegt.

Wednesday, July 7, 2010

7. júlí

Ansi hreint hvasst í morgun. Það myndast svo mikill vindstrengur eftir Mjóddinni í nánast öllum vindáttum svo maður lendir pottþétt í mót- eða meðvindi og honum miklum ef það fer yfir 4m/s. En þetta hefst nú alltaf.
Áhrif vindsins á hjólaferðina eru e.t.v. ekki ofmetin þar sem um er að ræða andleg ekki síður en líkamleg áhrif. En ef maður spáir í ferðatíma í svona dæmigerðum ferðum til og frá vinnu sem oft taka 10-20 mín þá hefur vindurinn ekki gríðarleg áhrif. Við verstu aðstæður var ég 39 mínútur á leiðinni heim 5. mars í vetur en þá voru 10 m/s mótvindur, slapp og vond færð. Við normal aðstæður er ég í kringum 25 mínútur. Auðvitað getur ferðin verið erfið en einhver sagði að með því að loka vindgnauðið úti með góðri húfu, buffi og/eða tónlist þá ertu búinn að losa þig við 70% af neikvæðu áhrifum vindsins. Sel það ekki dýrar en ég keypti.

Tuesday, July 6, 2010

6. júlí

Gleymdi hraðamælinum í gær og mikið getur maður verið háður svona tæki. Alltaf skemmtilegra að sjá hvað maður fer hratt eða hægt. En fór snemma af stað í morgun og það er alltaf jafn indælt, lítil umferð og ró yfir höfuðborginni.
Annars á stóra stelpan mín afmæli í dag, 9 ára snillingur.

Monday, July 5, 2010

5. júlí

Hlýindin halda áfram og stuttbuxur og þunnur bolur er hæfilegt klæðamagn, m.a.s. á morgnana. En ég er að velta fyrir mér endingunni á dekkjunum sem ég keypti hjá GÁP í vor. Þetta eru fínmynstruð dekk sem ég setti undir eftir páska, sem þýðir að ég er búinn að hjóla á þeim 1200 km og þau eru orðin slétt að aftan. Er það ásættanleg ending? Ég held ekki. Ég hef hins vegar engan samanburð þannig að það er erfitt að rífa kjaft. Mér finnst bara of mikið að þurfa að skipta um dekk eftir hvert sumar, þó þau kosti ekki nema 3000 kall.

Friday, July 2, 2010

2. júlí

Afar hlýtt og notalegt í morgun þrátt fyrir talsverðan vind.

Thursday, July 1, 2010

1. júlí

Þá er júní búinn. Júlí byrjar með rigningu og roki, sem er bara hressandi. Spurning hvað það endist.
Ég varð fyrir þeirri upplifun í gær þegar ég puðaði heim í mótvindi meðfram Suðurlandsbrautinni að "stelpa" geystist frammúr mér, að því er virtist áreynslulaust. Ég ákvað að taka betur á því og grillti í hana lengi vel skammt undan. Það virtist sem hún rynni áfram án átaka á meðan ég þurfti á öllum mínum hestöflum að halda til að halda sæmilegri ferð. Í Elliðaárdalnum náði ég henni loksins, væntanlega eftir einhverjar tafir hjá henni og þá opinberaðist það fyrir mér að hún var með mótor í framhjólinu. Nokkuð gott.
En ég get huggað mig við það að mitt puð gerir heilsunni gott.