Monday, November 9, 2009

9. nóvember - orlof

Nú verður lítið um að ég hjóli í vinnuna næstu vikurnar þar sem ég reikna með að vera í fæðingarorlofi. Það gætu þó orðið einhverjir túrar til að halda sér í formi og hausnum í lagi.

Thursday, November 5, 2009

5. nóvember

Veður: Rólegheita vindur, austanstæður. Rétt ofan við frostmark en greinilega frost niður við jörð nokkuð víða. Tungl óð í skýjum.
Með lagni er ekkert mál að hjóla án nagla í þessu færi en það þarf sumsé að gæta að sér því hálkan leynist nokkuð víða. Það hins vegar breytist þegar kemur svell. Þá eru naglarnir grundvallaratriði.

Wednesday, November 4, 2009

4. nóvember

Veður: Kyrrt og svalt. Þetta er hagstæður tími hér á höfuðborgarsvæðinu. Maður þarf að klæða sig þokkalega, annars blána útlimir af kulda en ef maður er í ull næst sér og tekur af vind með einhverju öðru þá er maður í góðum málum.
Öryggi: Hálka var dálítil í efri byggðum enda frost í nótt. Það var samt ekki vandamál á sumardekkjum. Hins vegar varð ég þess áþreifanlega var að aldrei skyldi maður ætla að maður sjáist. BMW í Breiðholti svínaði gróflega fyrir mig í Skógarselsbrekkunni og hafði greinilega ekki hugmynd að ég væri nánast inní bílnum hjá honum.

Tuesday, November 3, 2009

3. nóvember og myrkrið

Veður: Bjart og svalt, nánast logn. Tunglið umvafið skýjaslæðu sem varpaði daufri birtu yfir borgina. Dæmalaust huggulegt.
Öryggi: Það eru allskyns verur á ferli í myrkrinu, tvífættir og fjórfættir. Fuglarnir skoppa á lítt upplýstum stígunum, kettir skjótast og blindast af beinskeyttum geisla framljósanna. Hundar eru óútreiknanlegir, sem og þeirra eigendur, í bandi eða ekki í bandi. Svo eru það illa upplýstir fótgangendur og kolleggar á hjólum, sem dúkka upp þá og þegar.
Stígarnir voru að mestu þurrir og því ekkert mál að hjóla á sumardekkjunum. Best að láta vikuna líða og sjá hvort kólnar frekar eða hvort stefnir í rauðan nóvember.

Monday, November 2, 2009

2. nóvember

Veður: Kalt í morgun og ansi launhált, sérstaklega í efri byggðum. yfirborð stíga og vega var blautt og því hafði myndast ísing þar sem hiti var í kringum 0-ið. Suðaustanáttin er söm við sig og eftir Skógarselið er mjög auðvelt fyrir mig að hjóla það sem eftir er.
Öryggið: Afturljósið var u.þ.b. að þrotum komið og því hjólaði ég aðallega á gangstéttum og stígum. Það væri ábyrgðarlaust að henda sér út í bílaumferð með enga týru aftaná hjólinu. Atriði númer eitt er að sjást þegar þessi árstími er. Ég er með blikkandi hvítt ljós að framan og blikkandi rautt ljós að aftan. Ljósið að framan gegnir fyrst og fremst þeim tilgangi að vekja athygli á mér en það nýtist nánast ekkert til að sjá framfyrir sig. Sama gildir um ljósið aftaná, því er fyrst og fremst ætlað að vekja athygli. Blikkandi ljós vekja frekar athygli en þau sem loga stanslaust. Slík ljós renna saman við önnur ljós í umhverfinu, útiljós, götulýsingar o.s.frv. Maður greinir þau varla fyrr en þau eru komin mjög nálægt. Ég mætti einni konu í morgun með blikkandi afturljós framaná og ekkert ljós aftaná. Lengi vel hélt ég að einhver væri á undan mér en svo kom hún bara á móti mér.
Annars lenti ég á umferðarskilti í morgun þegar ég smeygði mér yfir götu á gangbraut. Frekar hallærislegt.