Thursday, September 24, 2009

24. september

Veður: Nett rigning og sennilega suðvestan átt. Þetta var frekar hagstætt fyrir mig. Meðvindur mestan hluta leiðarinnar en dálítill mótvindur á köflum. Það er sérstaklega erfitt að reikna út vindinn í byggðum, lítt grónum hverfum þar sem lítið er um tré. Byggingar valda ótrúlegum sviptivindum þannig að það sem eitt sinn var meðvindur, verður mótvindur.
Öryggi: Nú er spurningin, heldur einhver utanum þann fjölda slysa sem verður vegna hjólreiðamanna? Er nokkur tölfræði til um það hversu margir hjólreiðamenn lenda í slysum, og þá af hvaða ástæðum?

23. september og hundur í bandi

Ég hjólaði jú bara aðra leiðina í dag, þ.e. heim, þar sem ég hjólaði bara til vinnu á þriðjudaginn. Það var vinnutengt.
Veður: Það var æði fátt markvert, einhvernveginn verður veðrið svo jafnágætt þegar maður hjólar. Þó það rigni eða blási þá er það eitthvað svo óverulegt a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu. Enda verður að segja eins og er að trjágróður sem skjól og hjólreiðar fara ágætlega saman. Þessi stígur meðfram Álfabakka er gott vitni um það.

Öryggi: Eitt það hættulegast á stígum sem ætlaðir eru fyrir hjólreiðar og gangandi fólk eru hundar. Hvort sem þeir eru í bandi eða ekki. Ef þeir eru ekki í bandi geta þeir einfaldlega hlaupið fyrir hjólið en á því er minni hætta. Ef þeir eru hins vegar í bandi, sérstaklega þessari gerð sem hægt er að lengja í nokkra metra, þá er eins víst að þeir hlaupi þvert yfir stíginn og maður hjóli á bandið. Það getur orðið allsherjar flækja. Ég lenti á eftir einum hundaeiganda í gær, konu með svartan hund. Konan hélt sig vinstra megin á stígnum svo ég ætlaði að dóla mér fram úr hægra megin, bæði í ósamræmi við gildandi umferðarreglur. Þá tekur hundurinn, í bandi, á rás frá eiganda sínum, þvert yfir stíginn. Ég tók það ráð að sveiga langt út fyrir stíginn, upp í hljóðmön eina all bratta, framhjá hundi og konu. Gat síðan haldið áfram og allir óskaddaðir.
Mér finnst þetta að mestu leyti mér að kenna en hættan er engu að síður fyrir hendi.

Monday, September 21, 2009

21. september

Loksins kominn á rétt ról eftir að hafa ekki hjólað í nokkra daga.
Veður: Hitamælirinn heima sagði mér að það væri a.m.k. 10 stiga hiti. Puttarnir á mér voru nær 6 stiga hita þegar ég kom niður í vinnu. Annars var nett rigning og smá norðvestanátt
Öryggi: Í morgun setti ég framljósið á. Kannski ekki mikil þörf ennþá en samt, ef rignir.
Umferð: Ég fór fram úr a.m.k. fjórum á sömu leið og ég og mætti auk þess nálægt 10.

Friday, September 18, 2009

17. september

Nú er rigning og vindur u.þ.b. standard veður hvern dag. Það er svosem ekkert að því en aðeins erfiðara að hjóla. Bleytan er frekar hressandi.
Ég bætti við fleiri myndum í myndaalbúmið , tók nokkrar á leið í vinnu. Þessi dokumentasjón verður vonandi markvissari með tímanum og ég reikna með að hjóla fjölbreyttari leiðir til að byggja upp meiri gagnabanka.

Hjólið var tilbúið í dag og það koma á daginn sem mig grunaði, felgan var ónýt og það kostaði mig 12000 kall. Skipti líka um bremsuklossa. Markið rukkaði mig fyrir 1/4 úr klukkutíma vinnu, sem er öðrum orðum kortér. Það er ekki langur tími að skipta um felgu á hjóli.

Wednesday, September 16, 2009

16. september, fyrstu myndirnar

Veður: Það var bæði vindur og rigning en allt í lagi, ekki kalt. Dálítill mótvindur á heimleiðinni.
Öryggi: Ekkert nýtt.
Upplifun: Nú byrjaði kallinn að taka myndir. Dró fram gömlu Kodak 3 mpix myndavélina, tróð í hana rafhlöðum og af stað. Ég stoppaði nokkrum sinnum til að taka myndir. Nú er ég búinn að setja þær í Picasa albúmið og tengja við google kort. Sjáum hvernig þetta virkar.
Vonandi fæ ég hjólið mitt á morgun.

Tuesday, September 15, 2009

15. september

Veður: Rigning og meðvindur í morgun gerði hjólaferðina frekar létta og frískandi. Það er líka bara hlýtt ennþá, minnst 10 stig á morgnana, a.m.k. á meðan þessi sunnanátt endist. Hún hefur þó þann ókost að henni fylgir vindur og rigning. Seinnipartinn var hins vegar sól og talsverður vindur, sem blés af suðvestri. Þá fæ ég ekki mótvind nema í gegnum Mjóddina.
Umferð: Maður verður mannþekkjari á því að hjóla í bílaumferðinni. Konur á fínum bílum, gjarnan jeppum, eru hvað verstar. Þær horfa ekki einu sinni á mann. Karlar á sambærilegum bílum eru þó skárri en samt slæmir. En maður finnur hversu erfitt er orðið að skjótast inn á götuna þegar maður vill flýta sér, allsstaðar eru bílar.

14. september

Dagurinn byrjaði á því að koma hjólinu mínu í yfirhalningu hjá Markinu, gjörðin orðin svolítið skökk og þetta því orðin tímabær ráðstöfun. Allt benti því til að ég yrði að taka strætó heim. En ég tók traustataki annað fyrirtækishjólið, auðvitað konuútgáfan, og hjólaði heim.
Mótvindurinn var talsvert stífur og tók í. Ég fann að mótstaðan var talsvert meiri á fjallahjólinu en "hybrid" hjólinu mínu, þ.e.a.s. dekkin taka mun meira til sín þar sem þau eru breiðari.
Hins vegar varð ég dálítið hissa á því að verkstæðið í Markinu tæki sér 4 daga í að yfirfara hjólið. Þeir ættu þá að gera það vel.

Sunday, September 13, 2009

11. september

Veður: Enn fínt, heldur blautara þó en ekkert alvarlegt.
Lenti í því að þurfa að snarhemla og við það skekktist hjá mér gjörðin á hjólinu. Nú þarf bara uppherslu á greyið.

Wednesday, September 9, 2009

9. september

Veður: Norðan svali í morgun, hægur vindur, afar hagstæð skilyrði.
Umferð: Vægast sagt lítil, enda fór ég af stað um kl. 7 í morgun og setti nýja viðmiðun. 18:10 er nýr tími til að miða við á ferðinni niðureftir. Það er talsverð bæting og óvíst að það náist að bæta það í bráð. Allar aðstæður mjög hagfelldar.
Upplifun: Það er góð lykt af gróðrinum þessa dagana. Lynglykt og ber. Rakinn á nóttunni losar þessa haustlykt úr læðingi og þetta er góð upplifun á þeim köflum þar sem hjólað er með trjágróðrinum.

7. - 8. september

Þetta er hættan við svona dagbækur. Manni hættir til að sleppa degi og degi.
Annars voru þessir tveir dagar keimlíkir ef undanskilinn er seinnipartur þriðjudagsins 8. sept en þá var þvílík rjómablíða enda tekið vel á því á heimleiðinni. Ég gleymdi hins vegar að núllstilla mælinn til að athuga hvort nokkuð markvert hefði gerst í ferðatímanum.
Veður: Sumsé hægur norðan andvari og rakt nema seinnipart þriðjudags.
Umferð: Tiltölulega stabíl á þessum tíma á morgnana, uppúr kl. 8 og svo aftur milli hálf 4 og 4.

Friday, September 4, 2009

4. september

Veður: Nánast logn, dálítið svalt en annars frábært hjólaveður. Lítur út fyrir rigningu í dag.
Umferð: Mikil umferð á hjólastígunum. Nokkrir sem hjóluðu frekar rösklega. Það setur mann alltaf í gírinn, ekki láta ná sér eða að fara fram úr þeim sem er á undan. Enda var ég orðinn vel sveittur í Borgartúninu. Ég verð að segja það einu sinni enn, það kemur mér enn á óvart hvað íslenskir bílstjórar eru þó tillitssamir við hjólreiðamenn, a.m.k. innanbæjar.

Thursday, September 3, 2009

3. september

Ég fór á bíl í vinnuna í morgun. Það kom ekki til af góðu þar sem ég ætlaði til tannlæknis eftir hádegi. Berti tannlæknir sveik mig hins vegar svo nú sit ég uppi með bíl hér í vinnunni og þarf að keyra á honum heim.
Á leið í vinnuna var mikil umferð á Kringlumýrarbrautinni, ég beið í nokkar mínútur á ljósunum við Miklubraut og síðan við Laugaveg. Þetta er ótrúlega glataður samgöngumáti á þessum tíma. Ég verð að láta þess getið að ég hitti sennilega akkúrat á 9-umferðartoppinn.

Wednesday, September 2, 2009

2. september

Veður: Aftur frekar kalt í morgun, smávegis norðanátt sem beit í puttana. Spurning hvort fer að koma tími á vettlinga. Annars hefur þetta ár verið ótrúlega gott hjólaár. Vindur með ólíkindum hagstæður.

Á heimleiðinni hjólaði ég Lönguhlíðina, yfir í Fossvog, fyrir Kársnesið og inn Kópavogsdalinn. Þetta er skemmtileg leið að mörgu leyti. Það hins vegar vantar alltaf mikið uppá það að hjólreiðamenn hafi skýran valkost fyrir sína leið. Hjólareinin við Lönguhlíð, sem annars er voða fín, endar bara sisona og þá er mjög óljóst til hvers er ætlast af hjólreiðamanni, að hann taki götuna eða gangstéttina. Sama gildir þegar maður rennir sér niður í Fossvoginn. Þar tek ég alltaf götuna þó það sé 30 km hámarkshraði, betri kostur en gangstétt með endalausum þvergötum. Svo þarf að sveigja inn á hjólastíginn við gamla Landgræðslusjóðshúsið. Stígurinn út á Kársnesið endar líka út á götu. Kópavogsdalurinn er síðan kapítuli út af fyrir sig. Þar er aragrúi stíga og ekki eitt merki til að segja til um hvaða leið á að velja. Þannig gæti maður hringsólað í dalnum fram eftir degi. Hann hentar því ágætlega til rólegheita gönguferðar en illa sem samgönguleið, frá A til B.

Mig langar til að taka myndir á hjólaleiðinni, bæði ljósmyndir og kvikmyndir. Gallinn við ljósmyndir er að þá þarf maður helst að stoppa og þar er sálrænn þröskuldur sem þarf að yfirvinna. Það væri hægt að festa upptökuvél á hjólið, sem tekur kvikmyndir. Það þarf nefnilega að fanga með einhverjum hætti það sem fyrir augu ber og upplifunina að hjóla hér í bænum.

Annars lærði Birna Kristín, yngri stelpan mín, að hjóla í gær. Ekkert smá ánægð með það en hún komst að því í morgun að hún er með óteljandi marbletti á fótleggjunum.

Tuesday, September 1, 2009

1. september

Upphafið á þessu hausti lofar góðu. Logn og nettur svali. Í morgun var ákveðið að hjóla nokkurn veginn án svita og gekk það að mestu eftir. Ástæðan er að ég ætla í fótbolta með Badda í hádeginu og nenni ekki í sturtu þrisvar í dag.
Ef ég er á ferðinni alveg um kl. 8 þá er alveg ótrúlegur fjöldi hjólreiðamanna á ferðinni. Við erum að tala um byltingu frá því í fyrra.
En ég er að brjóta með mér að kaupa bögglabera og töskur fyrir veturinn. Þannig er hægt að vera með hæfilegt magn skjólfatnaðar og íþróttaföt ef þannig stendur á. Spurning reyndar um fjárveitingu á heimilinu, þetta er fokdýr pakki.