Tuesday, November 29, 2011

29. nóvember

Nú er snjór og hálka á öllum stígum. Yfirleitt hefur tekist nokkuð vel að moka og stígarnir ekki mjög ósléttir. Frostið á það til að bíta í andlitið. Þetta er í sjálfu sér bara hressandi þegar maður er ekki nema um 30 mín á ferðinni í einu. Aðalatriðið er að klæðast vindheldu, þannig dregur maður augljóslega úr vindkælingu. Lambhúshetta og buff fyrir nefinu er ágætis skjól fyrir andlit og höfuð.

Wednesday, November 23, 2011

23. nóvember

Merkilegur morgun í morgun. Ég setti nagladekkin undir í fyrradag. Ekki var hálkunni fyrir að fara í morgun, smá slabb hér og þar en rokið var talsvert. Suðvestan sperringur sem náði sér hvað best upp í Borgartúninu í formi hviða á milli húsa. Svo var mikil rigning með. En ansi var þetta hressandi.

Thursday, October 20, 2011

19. október

Bara svo það sé skrásett þá var fyrsta hálka haustsins í morgun. Ég ákvað að hjóla ekki.

Monday, September 19, 2011

19. september

Nú er búið að malbika við Sprengisand, þennan fína stíg með ljósastaurum. Þarna fór saman eini malarkaflinn a.m.k. á minni leið og auk þess óupplýstur. En úr þessu er sumsé verið að bæta.

Thursday, September 8, 2011

8. september

Haustkuldinn, versti óvinur hjólreiðamannsins, er kominn. Fjórar gráður í morgun og Norðan 8. Það fer ekki vel saman.
Nú stendur fyrir dyrum mikil hjólaráðstefna í tilefni af samgönguviku á vegum LHM og Hjólafærni á Íslandi. Hjólað til framtíðar. Gott framtak. Flott að fá erlenda fyrirlesara í hina íslensku umræðu. Ég get svosem gagnrýnt hvað dagskráin er þétt og mörg erindi en það þarf að koma miklu að. Auk þess er hún allan daginn, sem dregur úr líkum á að fólk sjái sér fært að mæta. Alltaf jákvæður.
En það er gaman að finna hversu margir láta allt tal um slæmar aðstæður til hjólaiðkunar eins og vind um eyru þjóta og hjóla bara eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Thursday, August 11, 2011

11. ágúst 2011

Það hefur orðið gríðarleg fjölgun hjólreiðamanna síðasta árið. Þetta má væntanlega að miklu leyti rekja til hækkana á eldsneyti. Þessi fjölgun þrýstir væntanlega eitthvað á samgönguyfirvöld, bæjarfélög og ríki, að bæta aðstöðu hjólreiðafólks. Bætt aðstaða snýst í meginatriðum um tvennt, að auka öryggi og greiðfærni á hjólaleiðum. Öryggi snýr þá að öllum vegfarendum, ekki síst gangandi fólki sem er í talsverðri hættu vegna hjólandi fólks, en einnig að hjólandi fólki gagnvart bílum. Greiðfærni snýst ekki síst um forgang hjólandi umferðar gagnvart bílaumferð, vali á leiðum (stofnleiðir og tengileiðir), hönnun hjólavega og þjónustu á þeim. Nú er best að tala bara um hjólavegi en ekki hjólastíga.
Einnig þarf að taka afstöðu til nýrra farartækja í umferðinni s.s. rafmangsvespa og rafmagnsreiðhjóla sem í einhverjum bjóða upp á meiri hraða en hefðbundin reiðhjól.
Nú styttist í haustið og þá dregur aftur úr umferð hjólandi en á næsta ári dregur vonandi til tíðinda því lítið hefur gerst í ár annað en að þrýstingur á kerfið eykst.

Thursday, June 30, 2011

30. júní

Bloggið er nú eiginlega búið að vera hjá mér. Ég er hins vegar búinn að vera nokkuð duglegur að hjóla í júní þetta vorið, enda kominn í fulla vinnu, búinn með allt fæðingarorlof. Það er búið að vera ótrúlega kalt loft í mánuðinum, þrátt fyrir fallegt veður og sól. En hjólaumferðin er líka búin að vera talsverð og umferðarreglur skipta sífellt meira máli á stígunum. Það er afar mismunandi hvað fólk tekur umferðarreglur alvarlega við þessar aðstæður. Staðsetning á stígnum, hægri regla, hjólandi vs. gangandi, o.s.frv. Stundum verður hálfgert kaos. Annars er þetta besti ferðamátinn 9-10 mánuði á ári.

Friday, May 27, 2011

27. maí

Það er aftur komið vor. Hjólaferðin í morgun var bara mjög ánægjuleg m.t.t. veðurs og vorilmur í lofti. Ég hef velt því fyrir mér hversu miklu mjög góðar hjólareinar breyta varðandi ferðatíma og öryggi hjá þeim sem stunda samgönguhjólreiðar. Ég veit það sjálfur að ég er mun fljótari í ferðum ef ég hjóla á götum, nema ef ég hitti afar illa á umferðarljós. Sem dæmi tekið þá hef ég verið allt að 35 mínútur á leiðinni heim úr vinnu í slæmri færð og allt niður í rúma 21 mínútu. Þarna munar 14 mínútum eða yfir 60% í ferðatíma. Þetta hins vegar þýðir að þegar best gerist þá er ferðahraði mjög mikill og hentar alls ekki á stígum með blandaðri umferð m.t.t. öryggis. Ef meðal ferðahraði á hjóli er 25-30 km/klst þá er maður kannski ekki í takt við hægari umferð.

Monday, May 9, 2011

9. maí

Verð að benda á þessa tilraun Reykjavíkurborgar þar sem hægt er að færa inn hjólaleiðir og s.k. vápunkta:


Monday, May 2, 2011

2. maí

Það var slabb á fáfarnari stígum í morgun. Annars var færið bara þokkalegt. Ég sá ekki hjólreiðamann fyrr en á brúnni yfir Miklubraut, hélt að hjólaumferðin væri orðin meiri en þetta.
Ég ræddi við frænda minn í gær um rafmagnsreiðhjólin sem eru að koma sterk inn. Þessi tæki fara þokkalega greitt yfir og það á frekar slökum göngu-/hjólastígum. Ég er ekki sannfærður um að þetta sé heppilegt og kannski kristallar enn frekar þörfina á sérstökum hjólareinum. Slysin á þessum leiðum eru afar illa kortlögð og enginn hefur yfirsýn yfir fjölda hjólreiðaslysa á hjólastígunum. Þetta er afleitt. En Rannsóknanefnd umferðarslysa fékk víst styrk frá Vegagerðinni til að vinna slíka úttekt. Vonandi að það gangi eftir og skili sér síðan inn í hjólreiðaáætlun höfuðborgarsvæðisins.

Monday, April 18, 2011

18. apríl

Þetta er búið að vera stopult hjólaár. Nú upp á síðkastið hef ég reyndar mætt í vinnu 2-3 daga í viku. Ég er búinn að fá minn skammt af sprungnum dekkjum eftir að ég skipti yfir á sumardekkin. Sprakk tvo daga í röð á leið til vinnu, sem er vægast sagt pirrandi. Og þrátt fyrir almennt umburðarlyndi mitt gagnvart veðri þá hefur það verið frekar leiðinlegt undanfarnar vikur. En ég held að alvöru vorið sé á næsta leiti.

Wednesday, March 30, 2011

30. mars

Mars á þessu ári er sennilega slakast hjólamánuðurinn minn síðustu tvö árin. En nú er vor í lofti og kannski kominn tími á að fjarlægja nagladekk.

Wednesday, March 16, 2011

16. mars

Hjólaði loksins til vinnu eftir langt hlé. Snjór og frekar slakt færi. Best mokað frá Álfabakka að Miklubraut. Annarsstaðar lélegt.

Monday, February 14, 2011

14. febrúar

Það var slabb á stígum og fáfarnari götum og frekar erfitt að hjóla í þessu færi. Þess vegna voru fjölfarnari götur freistandi valkostur, alauðar en blautar. En þetta gekk allt slysalaust fyrir sig.
Ég skipti um bremsupúða að aftan í gær, það er u.þ.b. akkúrat 3 sett á einu ári. Þeir endast sumsé ca 1000 km.

Monday, February 7, 2011

4. og 7. febrúar

Heimferðin á föstudag var sú versta hingað til á hjóli. stígarnir höfðu ekki verið mokaðir síðan um morguninn og eftir það kyngt niður snjó. Ég teymdi hjólið talsverðan spöl en endaði á því að taka strætó í Mjódd.
Mánudagsmorguninn var ekki mikið betri, illa og óreglulega mokað um kl. 8. Ekki er alltaf ljóst hvað ræður vali á leiðum sem eru mokaðar. Þarna reynir á fagmennsku og skipulag í snjómokstri. Þetta eru ekki margir dagar á ári en gaman ef það gæti gengið nokkuð greiðlega að moka á þeim dögum. Það voru bara nokkrir á hjóli í morgun, ótrúlegt en satt.

Friday, February 4, 2011

4. febrúar

Snjórinn er skemmtilegt viðfangsefni þegar kemur að hjólreiðum. Reiðhjól henta frekar illa sem farartæki í snjó en auðvelt er að þeytast í gegnum nýfallna mjöll ef undirlagið er þokkalegt. Snjómokstur er því eiginlega forsenda fyrir því að hægt sé að komast á milli staða ef snjór er viðvarandi á leiðinni. Þetta má kalla staðreynd og ef litið er til nágrannaríkjanna t.d. í Skandinavíu þá er snjómokstur á hjólastígum forgangsverkefni. Hér á landi er það yfirleitt afgangsstærð. Snjó er jafnvel mokað yfir stígana. Í snjó er mjög hættulegt að hjóla á götum. Bæði er hætta á að maður detti og einnig er erfiðara að stöðva bíla ef t.d. hjólreiðamaður dettur fyrir framan bílinn. Öryggisins vegna er því mjög mikilvægt að farið sé snemma morguns af stað og mokaðir a.m.k. helstu stígar. Það eru ekki sömu tæki í stígamokstri og göturmokstri og því erfitt að sjá að þetta geti ekki gerst á svipuðum tíma.

Thursday, February 3, 2011

3. febrúar

Snjór og fínt veður. Færðin kannski ekki upp á það besta. Sumsstaðar alls ekki búið að moka og annarsstaðar skafið vel og vandlega. Þegar færðin er svona þori ég ekki að hjóla á götunni og fer því upp á gangstétt. Þær eru hins vegar þess eðlis að mjög erfitt er að moka þær vel, mishæðir og kantar. Betra væri að hafa brautir sem liggur vel við að skafa.

Wednesday, January 19, 2011

18. janúar

Mikill mótvindur á heimleiðinni í gær og líka snjór. En það var yfirleitt þokkalega hreinsað af stígunum. En heimferðin var drjúgerfið.

Monday, January 17, 2011

17. janúar

Ótrúleg hálka í morgun. snjór yfir ísingarlagi og naglarnir náðu varla í hálkuna. Hjólið skrikaði nokkrum sinnum í beygjum. Datt einu sinni. En Reykjavík var komin af stað að moka vel fyrir kl 8 og eiga hrós skilið fyrir að. Þetta þarf náttúrulega að gerast kl. 7 svo það gagnist sem flestum. En með því að fara snemma af stað þá treðst snjórinn síður og hreinsast betur af stígunum.

Friday, January 14, 2011

13. janúar

Heimleiðin í gær var í 11 m/s mótvindi. Þetta telst fremur mikill vindur og hvín nokkuð í eyrum. Þegar hjólað er í svona miklum vindi er kostur ef til staðar eru hjólaleiðir með trjágróðri í næsta nágrenni eða inní þéttri byggð. Verst er að vera á berangri eða milli hárra bygginga sem vindur á greiða leið á milli í formi vindhviða. Mótvindur hefur ekki hvað síst sálræn áhrif því maður mjakast ótrúlega áfram þrátt fyrir vindinn. Hann er hins vegar afar hvimleiður í eyrum og getur þannig haft lamandi áhrif.
En ég mæli með að trjágróður sé frekar regla en undantekning með hjólastígum hér á höfuðborgarsvæðinu, a.m.k. þar sem komið er út fyrir þéttustu byggðina.

Wednesday, January 12, 2011

12. janúar

Talandi um mengun. Það hefur verið talsvert svifryk á minni hjólaleið síðustu daga, einkum þar sem ég er nálægt Miklubraut og Reykjanesbraut en líka þegar kemur inn í Seljahverfið. Þetta er megnasti óþverri. Samkvæmt upplýsingavef Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur þá er svifryk (PM10) agnir sem eru minni en 10 míkrómetrar (µm) að stærð. Svifryk sem er 10 µm að stærð eru aðeins 1/6 af þvermáli hárs. Hérlendis hefur verið framkvæmd ein rannsókn á uppruna svifryks að vetrarlagi og kom þar eftirfarandi samsetning í ljós: malbik (55%), bremsuborðar (2%), sót (7%), salt (11%) og jarðvegur (25%). Þ.e. yfir 60 % allra mengunar að vetri til verður til vegna samgöngutækja og þar spila nagladekkin stórt hlutverk þar sem þau rífa upp malbikið.

Maður finnur þetta setjast inn í öndunarfærin og það er ekki gott að vita til þess að malbik og bremsuborðar sitji þar.En það gæti verið skynsamlegt að setja grímu fyrir vitin þegar ástandið er verst.

Friday, January 7, 2011

6. janúar

Þrettándi dagur jóla þetta árið er sennilega kaldasti dagur sem ég hef lifað hér á höfuðborgarsvæðinu. 10 stiga frost og norðan 10-18 m/s. Ég hjólaði heim og það var ekkert mál undan vindi en ef ég sneri lítillega á móti vindi þá beit frostið gríðarlega í andlitið. Ég mætti ekki nema einum hjólreiðamanni og hann var með hulið andlit og skíðagleraugu, sem betur fer fyrir hann. Hef sett það hér fram áður að kaldur mótvindur er versti óvinur hjólreiðamannsins.

Wednesday, January 5, 2011

5. janúar

Smá uppgjör fyrir árið 2010
Alls hjólaðir km á árinu: 3.230 km
Hjólaðir dagar: 174
Að meðaltali 18,5 km/dag
Meðal ferðatími heim: 27:12 mín
Meðal ferðatími til vinnu: 23 mín
Rigning: 29 dagar eða 17%
Hálka: 20 dagar eða 11%
Mesti vindur: 12 m/s, fyrir utan hviður
Algengustu vindáttir: SA 22% og A 22%. NA 18%.

Monday, January 3, 2011

3. janúar 2011

Gleðilegt ár!
Veit ekki hvort ég blogga eitthvað á þessu ári um hjólaferðir, kannski bara þegar mig langar. En árið byrjar vel með mildu veðri, sem á reyndar að enda í kvöld með frostakafla út vikuna. Kannski fer ég í að blogga svona almennt um hjólreiðar nú eða samgöngur. T.d. hvort aðgengi að hjólastígum og almenningssamgöngum muni hafa áhrif á fasteignaverð á næstunni í ljósi fábreytni í fjárfestingakostum Íslendinga. Það er að mínu mati t.d. frekar undarlegt að nú sé skorin niður ákveðin grunnþjónusta í almenningssamgöngum, þegar fæstir hafa orðið ráð á að reka bíl, hvað þá tvo. T.d. koma lok á kvöldakstri vagna sér mjög illa fyrir ungt fólk sem er í alls kyns tómstundastarfi.