Friday, November 12, 2010

12. nóvember

Ansi harður mótvindur á kafla í morgun, sérstaklega í trektinni úr Seljahverfi niður í Mjódd. Þar myndast vindtrekt af byggðinni sem safnar öllum vindi saman í annað hvort sunnan eða norðanátt. Annar staður þar sem byggingar gera manni erfitt fyrir er í Sóltúninu. Þar eru háar byggingar og miklar vindhviður á milli þeirra, erfitt að lesa í hvaðan vindurinn muni næst koma. Þetta á að vera heilmikil pæling við skipulag en hefur held ég gleymst illilega sumsstaðar hér á landi. Þetta er t.d. einn ókostur við Höfðatún þar sem er ægilega vindasamt.
Þetta leiðir allt að því sem ég var að hugsa í morgun að það þarf almennt að hafa trjágróður með hjólastígum á Íslandi ef vel á að vera. Tré mynda ekki samskonar trekt og byggingar og slá alltaf á vindinn, sama úr hvaða átt hann blæs. Þetta getur stangast á við markmið útsýnis en sé um að ræða samgöngubraut þá skiptir útsýni ekki máli nema vegsýn. Þarna kom semsagt innleggið frá mér í dag, trjágróður meðfram hjólastígum.
Við þetta er að bæta að vindurinn er sennilega ein ríkasta ástæðan fyrir því að fólk hjólar ekki á Íslandi. Hér er nánast alltaf vindur og hann er mjög fín afsökun fyrir að hjóla ekki. Enda getur hann verið ansi hvimleiður þegar hann er upp á sitt besta.

No comments:

Post a Comment