Wednesday, June 30, 2010

30. júní

Það lá við örtröð við Álfabakkann, svo margir voru hjólandi þar í morgun. En þetta gekk allt greitt fyrir sig. Ekki laust við að það hlaupi kapp í mannskapinn þegar margir koma saman með þessum hætti. Veðrið var enn á ný rjómablíða.
Nú á ég eftir tvo mánuði til að loka hjólabloggárinu. Hingað til hef ég bloggað 145 sinnum, sem er nánast sama tala og dagafjöldinn sem ég hef hjólað. Inn í þessu er mánuður af fæðingarorlofi en annars venjulbundið ár. Nokkra daga hef ég verið á bíl og þá eingöngu vegna annarra erinda sem þurfti að sinna. Vinnutíminn hérna er líka sveigjanlegur sem auðveldar þennan lífsstíl.

Tuesday, June 29, 2010

29. júní

Það er bara blíða þessa dagana og ekki undan því að kvarta. Maður er ekki nema örskot til og frá vinnu. Tvennt hins vegar sem ég vil draga fram í dag. Ég fékk lélega þjónustu í Markinu í gær. Var sagt að ég gæti ekki keypt einn skipti á hjólið, þeir yrðu að seljast í pörum og þá á yfir 7000 krónur. Fór í GÁP, sem er orðin mín aðal hjólabúð. Hitt er að nú er gróður við stíga farinn að skyggja verulega á útsýnið.Garðyrkjudeildirnar verða að taka þetta til sín.

Monday, June 28, 2010

28. júní

Jæja, þá er maður kominn aftur af stað eftir viku frí.
Að baki er lengsta hjólaferðin hingað til, Reykjavík, Þingvellir, Kaldidalur, Húsafell, Arnarvatnsheiði, Núpsdalstunga. Alls um 200 km. Leggirnir, 54, 64 og 88 km. Tókum þetta á þremur dögum sumsé. Skemmtilegar leiðir í þessu. Kaldidalur með mikla hækkun og lækkun. Yfir 700 m hæð. Mjög skemmtileg hjólaleið frá Kalmannstungu, meðfram Norðlingafljóti og Hallmundarhrauni. Síðan taka við moldarslóðar og grýttir ásar alveg að Arnarvatni stóra. Stórfín leið. Norðlingafljótið er ekki vandamál, breitt vað en ekki djúpt. Versti hluti leiðarinnar er þegar komið er ofaní Austurárdal þar sem taka við grýttar eyrar og síðan var nýheflaður vegur með lausamöl síðustu 10 km. Það eru ekki kjörskilyrði.
Ég braut hins vegar framskiptinn á hjólinu og hjólaði því í öðrum gír alla leið frá Húsafelli og norður yfir. Þarf að skipta um það. Annars ekki mikið um skemmdir, smá beyglur og rispur hér og þar.

Wednesday, June 16, 2010

16. júní

Ég hef nánast alveg gleymt að blogga um náttúruna á leiðinni. Ekki þannig að það sé mikil náttúra á leiðinni en það er talsvert af trjágróðri sem hefur verið að skrýðast sínu fínasta í vor og síðan fuglarnir. Sá eina stokkönd með unga áðan. Lúpínan löngu farin að blómgast og mikil hvönn í Elliðaárdalnum.

Ég hlakka talsvert til að fara Kaldadalinn og Arnarvatnsheiðina. Þar er mikil náttúra þó hún sé mislitskrúðug.

Tuesday, June 15, 2010

15. júní

Blautt í morgun og var hæfilega illa klæddur, hjólaði rólega og var ekkert sveittur þegar komið var niður í Borgartún. Mikil umferð hjólandi fólks.
Nú styttist í næsta hjólatúr, norður Arnarvatnsheiðina. Stefnum í að leggja af stað þrjú-fjögur saman á föstudag til Þingvalla. Á laugardag yfir Kaldadal til Húsafells og svo alla leið yfir. Alls eru þetta um 200 km. Spennó.

Monday, June 14, 2010

14. júní

Í gær hjólaði ég ásamt rúmlega 300 öðrum Bláalónsþrautina. U.þ.b. 57 km frá Hafnarfirði, um Djúpavatn, Suðurstrandarveg, Grindavík og að Bláa lóninu. Ég var um 2:39 klst að þessu. Meðalhraðinn var 21,4 km/klst. Svona til að geyma það einhversstaðar. Var svolítið aumur í rassinum í morgun en ekkert óbærilegt að hjóla í vinnuna.

Friday, June 11, 2010

11. júní

Ég hjólaði bara heim í gær. Fór síðan snemma af stað í morgun og mikill fjöldi fólks á minni leið, hjólandi. Ég dæmi orðið bílstjóra fyrirfram, hvort þeir eru tillitssamir eða ekki. Ég misreiknaði mig í morgun þegar stór Audi kom á mikilli siglingu í áttina þvert fyrir mig við Skeiðavoginn. Átti ég von á að hann myndi láta vaða þó hann sæi mig. En mér skjátlaðist. Hann snarstansaði og ég yfir. Ég er ekki frá því að það miði barasta í áttina að meiri tillitssemi.

Wednesday, June 9, 2010

9. júní

Bílaumferðin virðist hafa minnkað eitthvað, sennilega orðið minna um skólaskutl. Hins vegar er mjög mikil umferð hjólandi fólks á minni leið og á heimleiðinni í gær komu upp tvö tilvik þar sem hætta var á slysum. Þetta er einkum í tengslum við undirgöngin þar sem eru undantekningalítið blindbeygjur (sjá t.d. hér og hér).

Hvernig væri nú að gera eitthvað í því? T.d. væru viðvörunarskilti til bóta, hraðahindranireða speglar (sem sennilega yrðu brotnir jafnóðum). Reyndar eru hraðahindranir eins og undir Breiðholtsbraut og Suðurlandsveg mjög einkennilegar, hellusteinar sem er raðað mjög illa þannig að hjólið hristist í sundur. Þverrákir eru betri.

Tuesday, June 8, 2010

8. júní

Enn er sama blíðskapar veðrið. Við þessar aðstæður hendir fátt á þessari vanabundnu ferð til og frá vinnu. Nú þarf hins vegar að taka af skarið og skrá sig í Bláalónsþrautina.

Monday, June 7, 2010

7. júní

Ég náði að klæða mig nánast fullkomlega miðað við veður í morgun og slapp því að mestu við að svitna. Bakpokinn var á bögglaberanum og því loftaði vel um bakið. Miðað við þennan stutta ferðatíma þá getur þetta gengið og þá má sleppa sturtunni ef maður vill. En það þarf náttúrulega að hafa í huga nánd við t.d. vinnufélaga og annað, hvort maður er húsum hæfur.

Friday, June 4, 2010

4. júní

Morguninn byrjaði ekki vel. Var að sveigja á milli bíla á bílastæði og flaug á hausinn, braut festingu fyrir pumpuna en vonandi ekkert annað. Annars gekk þetta stórslysalaust.
Heimleiðin var hins vegar ekki eins ánægjuleg, mikil aska í loftinu og styrkurinn ku hafa verið talsvert yfir heilsuverndarmörkum. Enda bruddi ég öskuna alla leið. Ég efast ekki um að þetta er bráðóhollt. Það gæti verið ráðlegt að fjárfesta í rykgrímu.

Thursday, June 3, 2010

3. júní

Skilyrði til hjólreiða í morgun voru upp á hið besta svo ég ákvað að spýta svolítið í og nota göturnar til þess. Með því að fara Suðurlandsbrautina og hitta á öll ljós græn þá var ég 16:36 mín niðureftir. Það var frekar lítil umferð en ég gat haldið á milli 30 og 40 km hraða nánast alla leið enda var meðalhraðinn um 30 km/klst. Hins vegar er ljóst að þessi hraði á alls ekki við á stígunum, bara þannig að það sé ljóst.

Veðrið um þessar mundir er alger snilld til hjólreiða, lítill vindur og milt veður. Ég tók saman meðalvindhraða (m/s) í öllum mánuðum frá áramótum. Þar kemur í ljós að vindhraðinn er mestur á leiðinni heim í janúar og almennt virðist hann meiri á leiðinni heim, sem er mjög óheppilegt þar sem þá er meira af leiðinni á fótinn, nema það sé meðvindur. Vindhraðinn er á hinn bóginn minnstur á leið til vinnu í maí, sem kemur ekki á óvar því maí var bara mjög hagstæður. Það er athyglisvert hversu lítill vindur er í febrúar en þá var hvað mestur snjór.

Tuesday, June 1, 2010

1. júní

Ætli sumarið sé ekki bara komið, líka í pólitíkinni?

Það var öskufall í gær. Hjólið var skítugt eftir daginn og ég var með ösku milli tannanna alla leiðina heim. Þá er að anda með nefinu sem aldrei fyrr.

Nú reynir á garðyrkjudeildir sveitarfélaganna að klippa gróður með stígum. Lauf á trjám og runnum geta verið helsta ógnin við umferðaröryggi á mörgum stöðum. Oft er gróðursett of nærri stígum, í beygjum, svo blindbeygjur myndast eins og hér. Það er gott dæmi um sambandsleysi milli garðyrkju og stígahönnunar. Nú eða bara hugsunarleysi almennt.

Ég tók saman að gamni smá tölfræði um hjólreiðarnar frá áramótum. Það kemur m.a. í ljós að ég hef hjólað flesta daga í janúar eða 19. Meðalhraði þessa mánuði er nokkuð breytilegur eða frá því að vera 22 km/kst á leið til vinnu í febrúar þegar færðin var hvað verst og upp í 26 km/klst. Meðalhraðinn heim er nokkru lægri en eykst úr 19 km/klst í janúar þegar suðaustanáttin er sterkust upp í 22 km/klst í maí. Maí er reyndar óvenjulegur þar sem þá hjóla ég mun fjölbreyttari leiðir en hina mánuðina.
 Ef við skoðum hjólaða km þá eru þeir einmitt langflestir í maí eða 435 en ekki nema 257 í apríl. Þá kemur líka inní páskafrí og önnur óregla. Alls hef ég hjólað 79 daga til og frá vinnu frá áramótum, að meðaltali 20 km/dag.