Tuesday, November 30, 2010

30. nóvember

Ansi launhált í gærkvöldi og í morgun. Í myrkri og bleytu sáust ekki skilin milli hálku og malbiks og stundum var eina vísbendingin um hvort væri, hljóð eða hljóðleysi í nöglunum. Þeir þagna um leið og komið er á hálku en gefa frá sér hátt surghljóð á malbikinu.

Monday, November 29, 2010

29. nóvember

Jæja, kominn í 3000 km á árinu til og frá vinnu. Held það sé bara ágætt. Keyrandi sömu vegalengd myndi kosta mig rúmar 60 þús kr altso á þessum bíl sem ég á. Svo spara ég mér kostnað við líkamsrækt, sem heyrist mér vera talsverður. Alls hef ég hjólað 161 dag á árinu so far og að meðaltali var ég 23 mín í vinnu og 27 mín heim.

Friday, November 26, 2010

26. nóvember

Miðað við að ég klári nóvember með sóma þá verður þetta sennilega besti ástundunarmánuðurinn á árinu. Það eru þegar komnir 19 hjóladagar í nóvember og janúar. Og á mánudag, að því gefnu að ég hjóli þá, þá næ ég 3000 km á mælinn til og frá vinnu þetta árið. Það verður að segjast eins og er að það hvetur mann áfram að halda svona dagbók um þetta hjólastand. En það verður líka að hafa í huga að þetta er náttúrulega hámarks nörd hegðun.

Thursday, November 25, 2010

25. nóvember

Það datt út hálfur dagur hjá mér en nóvember er annars búinn að vera góður. Veðrið er bara frábært, lítill vindur og svalt.

Tuesday, November 23, 2010

23. nóvember

Logn er sjaldgæft á Íslandi, hvað þá í Reykjavík. Það var hins vegar logn í morgun og indælt veður í flesta staði. Dálítil hálka og tunglið glampaði í ísnum. Fjölbreytt umferð á leiðinni og það er reynslan að flestir haga sér eins og það séu ekki aðrir á ferð um stígana. Hvort sem fólk er hjólandi eða gangandi þá sikk sakkar það þvers og kruss um stíginn. Ætli maður að taka frammúr þarf verulega að gæta að sér og oft að fara út fyrir stíginn.
Framkvæmdir við stíg sem tengir Miklubrautarbrúna við Suðurlandsbraut eru enn í gangi og lítið gert til að greiða leið vegfarenda. Þvert á móti var stór malarhrúga á miðjum stíg, sem sést illa í myrkrinu. Vafalítið hefur einhver hjólað inn í hrúguna í morgun. Þarna eru engar ráðstafanir gerðar til að leiða fólk framhjá framkvæmdunum. Í gær var verið að hefla og aðeins fær leið utan stígsins, í beði eða út í gras. Mér finnst þetta frekar slappt.

Monday, November 22, 2010

22. nóvember

Ansi dimmt í morgun og allt hrímað en yndislegt veður. Ég hélt ég yrði keyrður niður í Skógarselinu en slapp. Þar eru vond gatnamót sem eru hættuleg á morgnana í þessum skilyrðum. Sýnileiki hjólreiðamanns í umferðinni er eitthvað sem ekki á að treysta á. Í myrkrinu nær maður ekki augnkontakt við bílstjóra og veit því ekki hvort hann hefur séð mann eða ekki. Það getur því komið fyrir að hann er stopp en leggur svo af stað á versta tíma. Þetta er eitthvað sem við hjólreiðamenn þurfum einfaldlega að vita og kunna að meta. Það er varla hægt að verða meira sýnilegur en ég er, með gott ljós og í áberandi endurskinsvesti. Götulýsingin er ekki verri þarna en gengur og gerist. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að gagnstéttarnar á þessu svæði séu fullt eins hættulegar þar sem þær þvera mjög oft götur.

Friday, November 19, 2010

19. nóvember

Snilldar veður núna. Hlýtt og notalegt. Óþægindin á leiðinni voru einkum myrkur og fáránlegar framkvæmdir við brúnna yfir Miklubraut. Þar er búið að taka malbikið af stígnum og stígurinn skilinn eftir með hæðum og hólum, illa upplýstur. Eitt viðvörunarmerki staðsett þar sem maður dettur niður af malbikinu í mölina. Ekki vel að þessu staðið.

Thursday, November 18, 2010

18. nóvember

Ef ég skoða hraðagögnin hjá mér þá er nóvember hingað til hægasti mánuðurinn minn síðan um síðustu áramót. Þetta kemur á óvart þar sem vindur hefur ekki verið mikið til trafala og færið alveg þokkalegt. Formið sem ég er í sjálfur ætti að vera í nokkuð góðu standi. Þá er spurning hvað veldur þessu. Dagsformið er eitt en það gildir yfirleitt bara í einn dag. Kannski hef ég verið meira klæddur. Reyndar hefur norðanátt verið ríkjandi í mánuðinum. Það veldur því að ég er í mótvindi helming leiðarinnar í vinnuna og helming leiðarinnar heim. Síðasta vetur voru austlægar og suðaustlægar áttir ríkjandi og þær eru erfiðastar á heimleiðinni en ekki eins kaldar enda var ekki oft frost þá. Ég hef komist að því að köld og sterk norðanátt er versta áttin. Þegar hún er á móti þá dregur hún úr manni mátt með kuldanum auk vindáhrifa. Einn hægasti og erfiðasti dagurinn minn hingað til var 15. febrúar en þá var norðvestan 9 m/s og 2,6 stiga frost. Hægari dagar voru bara ef færð var mjög slæm vegna snjóa.

Wednesday, November 17, 2010

17. nóvember

Manndrápshálka í morgun, allt malbik húðað með ísingu. Hefði ekki viljað reyna þetta án nagladekkja.
En ég hjólaði frá Hótel Sögu og heim í gær. Það er kominn nýr stígur austan Nauthólsvíkur, tvöfaldur hjólastígur. Þannig að það safnast í sarpinn. Tengingin yfir Hafnarfjarðarveg/Kringlumýrarbraut og inn í Fossvogsdal finnst mér alltaf klúðursleg. Ef maður kemur vestan frá, af fínum hjólastíg, þá er örmjó gangstétt meðfram götunni og ekki nóg með það heldur eru ljósastaurar á miðri gangstéttinni (hér er mynd af þessu horft í vestur). Aukinheldur er brekka upp og síðan strax aftur niður. Þarna þarf að breyta legu stígsins svo hæðarbreytingin sé tekin af. En þar er væntanlega við lóðareigendur að eiga.

Tuesday, November 16, 2010

16. nóvember

Rigning og rok í morgun, megnið af klakanum farið. Ég var alltof mikið klæddur og varð kófsveittur. Það var frekar létt að hjóla með vindinn að hluta í bakið. Verður erfiðara heim.
Ég hef velt því fyrir mér hvort þeir sem almennt ráða hvort peningar eru settir í hjólabrautir haldi að hjólastígar á höfuðborgarsvæðinu séu bara fínir. Held reyndar að þetta sé raunin.

Monday, November 15, 2010

15. nóvember

Kalt var í efri byggðum í morgun. En hlýnaði eftir því sem neðar dró. Myrkrið er svart og á köflum er eins og maður sé með bundið fyrir augun. Ekki síst þegar maður fer af stíg sem er vel upplýstur yfir á kafla sem er illa lýstur.

Friday, November 12, 2010

12. nóvember

Ansi harður mótvindur á kafla í morgun, sérstaklega í trektinni úr Seljahverfi niður í Mjódd. Þar myndast vindtrekt af byggðinni sem safnar öllum vindi saman í annað hvort sunnan eða norðanátt. Annar staður þar sem byggingar gera manni erfitt fyrir er í Sóltúninu. Þar eru háar byggingar og miklar vindhviður á milli þeirra, erfitt að lesa í hvaðan vindurinn muni næst koma. Þetta á að vera heilmikil pæling við skipulag en hefur held ég gleymst illilega sumsstaðar hér á landi. Þetta er t.d. einn ókostur við Höfðatún þar sem er ægilega vindasamt.
Þetta leiðir allt að því sem ég var að hugsa í morgun að það þarf almennt að hafa trjágróður með hjólastígum á Íslandi ef vel á að vera. Tré mynda ekki samskonar trekt og byggingar og slá alltaf á vindinn, sama úr hvaða átt hann blæs. Þetta getur stangast á við markmið útsýnis en sé um að ræða samgöngubraut þá skiptir útsýni ekki máli nema vegsýn. Þarna kom semsagt innleggið frá mér í dag, trjágróður meðfram hjólastígum.
Við þetta er að bæta að vindurinn er sennilega ein ríkasta ástæðan fyrir því að fólk hjólar ekki á Íslandi. Hér er nánast alltaf vindur og hann er mjög fín afsökun fyrir að hjóla ekki. Enda getur hann verið ansi hvimleiður þegar hann er upp á sitt besta.

Thursday, November 11, 2010

11. nóvember

Nóvembermorgnarnir eru svartir. Götulýsing er því mjög æskileg með stígunum, svo maður sjái helstu fyrirstöður, sem þar geta verið. Mér sýnist hins vegar að Orkuveitan sé að spara hér eins og víðar. A.m.k. hefur verið slökkt ansi lengi á tveimur ljósastaurum í Elliðaárdal. Mig grunar reyndar að lýsingargleðin hafi verið mikil á tímabili og kannski óþarflega stutt milli staura en það afsakar ekki að hafa sprungna peru í staurum á vondum stað mánuðum saman.

Wednesday, November 10, 2010

10. nóvember

Ætli það sé almennt þannig að nóvember líði mjög hratt. Það er strax kominn 10. nóvember og hann er nýbyrjaður. Í fyrra leið hann líka mjög hratt en þá var ég í fæðingarorlofi.
Ég ræddi við mann í gær sem sagði að hjólreiðamenn væru svolítið bilaðir. Ástæðan var að þeir voru margir ljóslausir og sæjust mjög illa í umferðinni. Og ætluðust síðan til þess að tekið væri tillit til þeirra. Það er nefnilega ekki hægt ef þeir sjást ekki. Því miður er talsvert til í þessu og oft mætir maður hjólreiðamönnum með lítið eða ekkert ljós. Þetta er síður en svo gáfulegt. Við ræddum líka hvort tryggingafélög gætu haft áhuga á að splæsa vestum á hjólreiðamenn. Ég efast um að þau hafi sérstakan áhuga á því enda yrði um talsverð fjárútlát að ræða af þeirra hálfu. En samfélagslegur kostnaður af slösuðum hjólreiðamanni er gríðarlegur, því það er mikil hætta á að hann slasist illa ef keyrt er á hann. Gul endurskinsvesti eru stórfínn fylgihlutur reiðhjóls. Persónulega get ég mælt með Craft vestunum sem eru mjög þunn og létt. Þau má nota allan ársins hring. Vestin í Erninum kosta um 2000 kall en þau eru held ég þykkari. Craft vestin eru til í Markinu og kosta talsvert meira.

Tuesday, November 9, 2010

9. nóvember

Fór yfir 3000 km markið á árinu í gær á þessum hraðamæli. Þá er allt meðtalið, líka utan vinnuferða. Ef maður vill þá getur maður reiknað það yfir í bensín eða olíu. Þetta eru um 300 lítrar miðað við minn bíl. Þeir kosta í dag um 60 þús kall. Svo hef ég sleppt því að kaupa kort í ræktinni. Það kostar víst eitthvað líka. En á móti hefur komið smáræðis viðhald. Það eru reyndar nokkrir þúsundkallar á þessu ári, skipti um keðju og afturkrans, tvisvar um bremsupúða, framskipti og eitt og annað smáræði.

Monday, November 8, 2010

8. nóvember

Það var orðið að mestu autt í morgun en þó svell hér og þar á leiðinni. Mitt fyrsta verk var að stoppa á N1 og bæta lofti í dekkin. Það var átakanlega erfitt að hjóla enda notaði ég litlu pumpuna til að dæla í nagladekkin. Mikið viðnám þegar of lítið er í dekkjunum. Nú er þetta allt annað líf. En ég klæddi mig heldur mikið, var þungur og sveittur en komst þó á leiðarenda.

Friday, November 5, 2010

5. nóvember

Fallegt veður í morgun, logn og frost, sem er oft dálítið kalt á nefið. Seinnipartinn í gær var búið að skafa flesta stíga, misvel þó. Ég verð að hrósa þeim sem skóf stíginn með Stekkjarbakka og í Elliðaárdal, þar hefur hann eða hún náð að mynda slétt yfirborð sem mjög auðvelt er að hjóla. Það er því miður ekki hægt að segja um aðra stíga þar sem skilið er eftir hart og óslétt lag á stígnum. Það er sem sagt ekki nóg að skafa heldur þarf að gera það vel.

Thursday, November 4, 2010

4. nóvember

Fyrsti snjórinn þetta haustið. Bara frekar þungt færi en ekki óbærilegt. Ekki búið að moka neitt á leiðinni þannig að bæjarfélögin Reykjavík og Kópavogur fá ekki prik í dag. Hins vegar kom mér á óvart hversu mikil hjólaumferð hefur verið í morgun. Á undan mér hafa farið á milli 30 og 40 hjól og vafalítið áttu nokkrir eftir að fara. Þetta á við um leiðina frá Sprengisandi, yfir Miklubraut og meðfram Suðurlandsbraut. Auðvelt að telja förin í snjónum. Það má hugsa þetta svona: Fólk hyggst hjóla í vetur í fyrsta skipti. Ok, einu sinni snjór er ekki svo slæmt, gef þessu séns. En svo er ekkert mokað og færið er afleitt. Æi, ég hætti þessu bara, tek frekar bílinn.
Þetta er nú held ég mjög oft aðferð mannsins við að taka ákvarðanir. Ábyrgð bæjarfélaganna er því mikil, sé ætlun þeirra að stuðla að meiri hjólreiðum eða minni bílaumferð.

Wednesday, November 3, 2010

3. nóvember

Ansi kalt í morgun. Áfram norðan mótvindur og frost. Þá er best að vera vindheldur og gott að setja buff utanyfir lambhúshettuna á viðkvæmum stöðum. Við þessar aðstæður set ég buffið yfir eyru og vit. Það er pínulítið gat á öðrum vettlingnum og það er mjög áberandi kaldasti staðurinn á hendinni eftir hjólatúrinn. Vindþéttar buxur eru ráðlegar þegar er svona kalt. Annars verða liðamót stirð og nárinn ískaldur. Sem sagt klæða sig eftir aðstæðum.

Tuesday, November 2, 2010

2. nóvember

Skipti yfir á nagladekk að framan í morgun og talsverð hálka víða á leiðinni. Framdekkið gerir góða hluti eitt og sér, það reynir ekki nærri eins mikið á afturdekkið fyrr en þarf að spyrna sér upp brekkur eða í vondu færi eins og slabbi eða snjó. En afturdekkið fer sennilega undir í kvöld.
Annars var skítakuldi í morgun með norðanátt. Samt ofan við frostmark. Þó suðaustanáttin sé stundum leiðinleg þá er hvöss norðanátt verri því henni fylgir svo mikill kuldi.

Monday, November 1, 2010

1. nóvember

Dagurinn byrjaði með slabbi í efri byggðum sem svo breyttist í bleytu neðar. Það slapp sumsé við alvarlega hálku enda fórst fyrir að skipta yfir á naglana. Það kom ekki að sök. Nóvember leggst hins vegar oft betur í mig en október, held það sé bara nafnið sem er einhvern veginn jákvæðara í mínum huga. Svo er reyndar mikið um afmæli í fjölskyldunni í nóvember, það kannski gerir mánuðinn skemmtilegri.