Tuesday, December 23, 2014

23. desember. 2930 + 180 = 3110

2930 + 180 = 3110
Samkvæmt bókahaldinu rétt slefa ég semsagt yfir 3100 km á árinu.
Það eru nokkrar meginástæður fyrir slakri ástundun:

  1. Að eiga bíl. Valkosturinn að vera með bíl til umráða er meginástæðan. Ef bíll væri ekki valkostur þá væri ástundunin einfaldlega mun betri.
  2. Fjölskyldan. Þegar þarf að skutla eða sinna börnum á mismunandi tímum, oft á vinnutíma, þá getur verið ansi stirt að vera hjólandi. Veikindi barna eru líka þáttur hér.
  3. Skóli og leikskóli. Talsvert um allskonar skipulags- og starfsdaga, foreldraviðtöl og uppákomur sem skapar óreglu í annars nokkuð vel mótaða rútínu. Foreldrar þurfa ósjaldan að "redda" börnunum. Þetta er sömuleiðis skutl og skrepp. Þægilegra að vera á bíl. Ekki óalgengt að foreldrar skipti með sér verkum yfir daginn, fyrir og eftir hádegi. 
  4. Veður. Yfirleitt læt ég veður ekki hafa áhrif á mig en það verður að viðurkennast að á þessu ári hafa komið nokkrir dagar sem ég hef hreinlega sleppt því að hjóla vegna veðurs eða færðar, nema hvort tveggja sé.  

Monday, December 1, 2014

1. desember

Hlýindamánuðurinn nóvember að baki. Annað eins vart upplifað af elstu mönnum. Hjólaði þá fáu daga sem hjólað var á racer, utan einn. Það þykja tíðindi að ekki sé meiri hálka í nóvember. Ógeðslega dimmt vegna snjóleysis. Kílómetratalan komin í 2930 sem er arfaslakt. Desember ekki mesti hjólamánuðurinn og byrjar með látum, stormi og fárviðri.

Friday, October 31, 2014

31. október

Veturinn minnti á sig í október. Nagladekkin komin undir 19. október sem er óvenju snemmt. Reyndi svo sem ekki mikið á þau nema einn dag á þessum tveimur vikum. Ástundunin datt enda niður seinnipart mánaðarins. Alls hjólað 13 daga af 23 sem er óvenju lélegt. 56% er alls ekki gott. En þetta eru 260 km. og heildarvegalengdin því komin í 2730 km.

Wednesday, October 1, 2014

September

Eigum við ekki að segja að september hafi verið svona í blautari kantinum. Allavega þurfti ég oft á tíðum að vinda fötin mín þegar komið var í hús. Og síðasti hlutinn var líka með ríflegum skammti af vindi. Svo er aðeins að kólna en ekki enn komin frostnótt eða morgunn. 
Ég hjólaði 16 daga til og frá vinnu eða 320 km. Þá er maður kominn í 2.470 km. En annars sleppti ég því að hjóla þrjá daga, var aðra þrjá erlendis. 16 af 19 er 84% sem er alveg þokkalegt. 

Monday, September 1, 2014

Ágúst 2014

Ágústmánuður var fínn hjólamánuður. Hægur vindur (að langmestu leyti) og milt. Tveir morgnar held ég sem hitinn var innan við 10°C. Ég hjólaði 14 daga þennan mánuðinn sem samsvarar u.þ.b. 280 km. Fór reyndar nokkrum sinnum lengri leiðina í og úr vinnu. Þá er a.m.k. 2000 km markið komið í höfn og 150 km betur.

Wednesday, August 6, 2014

Júlí 2014

Eins og vænta mátti var lítið hjólað til og frá vinnu þennan mánuðinn. Alls voru það sjö dagar eða um 140 km. Það eru þá 1870 km. Þetta potast.

Tuesday, July 1, 2014

1. júlí og stefnir í sumarfrí

Hjólaði 10 daga í júní. Týpískt að maður hjóli minna bestu mánuði ársins en þá er líka meira um aðra hjólatúra. Þetta er þá komið í 1730 km á þessu ári, til og frá vinnu. Secteurinn að virka vel og meðalhraðinn eitthvað hærri en á Giant gamla. Gleðin líka meiri.
Júlí verður væntanlega rólegur og lítið verið í vinnunni.

Monday, June 2, 2014

2. júní og nýtt hjól

Maímánuður var góður hjólamánuður. Veður milt og ekki mikill vindur. Virkilega gaman að hjóla á þessum árstíma með gróðurilm og flugur. Ég hjólaði 17 daga, sleppti þremur vegna einhverrar óreglu. Það er 85% ástundun. Alls hjólaði ég 350 km. Alls eru því komnir 1.530 km í körfuna til og frá vinnu þetta árið.

Svo má ekki gleyma því að ég keypti mér nýtt hjól, Specialized Secteur Sport Disc (sjá mynd). Assgoti bara fínt hjól og eykur gleðina, sem er nauðsynlegur fylgifiskur. Gamla hjólið hefur hlutverk sem utanvegarhjól, fjölskylduferðahjól og nagladekkjahjól þannig að það hefur hvergi nærri lokið sinni tilveru eftir 16 þús km notkun.

Friday, May 2, 2014

2. maí

Apríl var góður hjólamánuður. Laus við klaka og snjó. Hjólaði 15 daga af 18 virkum dögum í mánuðinum. Það er nú bara 83%. Þá eru komnir 1180 km þetta árið, til og frá vinnu, eftir fjóra mánuði og ástundun eitthvað nálægt 80%.

Wednesday, April 9, 2014

7. apríl

Það var sprungið á hjólinu þegar ég ætlaði heim og afturdekkið ónýtt eftir fimm vetra notkun. Þetta leysti togstreituna, hvort ætti nú að taka nagladekkin undan. Nú eru þau sumsé farin undan og hvílíkur léttir. Maður tekst svo bara á við þessa frostmorgna sem gætu verið framundan af yfirvegun.

Thursday, April 3, 2014

3. apríl

Marsmánuður var dálítið brokkgengur. Síðasta vikan fór í ferðalög þannig að þá var lítið hjólað. En þetta voru 15 dagar eins og í febrúar eða 300 km. Það eru þá 880 km á árinu so far. Ástundunin, eða þannig, er því 71% í mars.
Nú er hins vegar svo komið að snjór og klaki eru á brott í bili. Naglar því heldur til óþurftar en gagns. Til upprifjunar þá tók ég naglana undan 23. mars í fyrra. Hér með er því tekin sú ákvörðun, nema spáin verði eitthvað sérlega óhagstæð í kvöld, að taka bara nagladekkin undan.

Friday, February 28, 2014

28. febrúar

Dagarnir þennan mánuðinn voru 15 sem hjólað var til og frá vinnu. Það gerir 15/20 eða 75% og er akkúrat markmiðið sem ég setti. Af þessu voru tveir dagar sem hjólið var í viðgerð. En alls eru þetta 300 km sem er þá 580 km á árinu.
Gott að halda því til haga að 14. febrúar byrjaði ég að hjóla með nýjan krans að aftan, ný tannhjól að framan, nýja keðju og nýjan framgaffal. Gott að fylgjast með hvað keðjan endist.
En vorið er greinilega á leiðinni, klakinn minnkar dag frá degi og sandurinn kemur sífellt betur í ljós.

Friday, January 31, 2014

31. janúar 2014

Þetta árið er ég að spá í að taka saman eftir hvern mánuð hversu marga daga ég hjóla til og frá vinnu af virkum dögum. Og líka að halda nokkurn veginn utanum vegalengdir.
En sem sagt, janúar er 14/22, þ.e.a.s. ég hjólaði 14 daga af 22. Það er ekki nema 64%. Markmiðið á að vera a.m.k. 3/4 eða 75%. Þarna spila inn í veikindi barna, foreldraviðtöl og eitthvað svona smálegt. En það tínist til.
Í kílómetrum talið eru þetta 280 km. Miðað við að maður hjóli 11 mánuði á ári þá myndu það gera 3080 km á ári. Það er ekki ásættanlegt markmið af minni hálfu.
Ég verð samt að játa það að heimferðin í gær var ein sú erfiðasta hingað til á nokkurra ára ferli. Mikill og klesstur snjór, hvergi búið að moka og hált undir. Hjólið var orðið 25 kíló þegar heim var komið, bremsurnar óvirkar og gírskiptingin með takmarkaða virkni. En þetta hafðist.