Wednesday, September 2, 2009

2. september

Veður: Aftur frekar kalt í morgun, smávegis norðanátt sem beit í puttana. Spurning hvort fer að koma tími á vettlinga. Annars hefur þetta ár verið ótrúlega gott hjólaár. Vindur með ólíkindum hagstæður.

Á heimleiðinni hjólaði ég Lönguhlíðina, yfir í Fossvog, fyrir Kársnesið og inn Kópavogsdalinn. Þetta er skemmtileg leið að mörgu leyti. Það hins vegar vantar alltaf mikið uppá það að hjólreiðamenn hafi skýran valkost fyrir sína leið. Hjólareinin við Lönguhlíð, sem annars er voða fín, endar bara sisona og þá er mjög óljóst til hvers er ætlast af hjólreiðamanni, að hann taki götuna eða gangstéttina. Sama gildir þegar maður rennir sér niður í Fossvoginn. Þar tek ég alltaf götuna þó það sé 30 km hámarkshraði, betri kostur en gangstétt með endalausum þvergötum. Svo þarf að sveigja inn á hjólastíginn við gamla Landgræðslusjóðshúsið. Stígurinn út á Kársnesið endar líka út á götu. Kópavogsdalurinn er síðan kapítuli út af fyrir sig. Þar er aragrúi stíga og ekki eitt merki til að segja til um hvaða leið á að velja. Þannig gæti maður hringsólað í dalnum fram eftir degi. Hann hentar því ágætlega til rólegheita gönguferðar en illa sem samgönguleið, frá A til B.

Mig langar til að taka myndir á hjólaleiðinni, bæði ljósmyndir og kvikmyndir. Gallinn við ljósmyndir er að þá þarf maður helst að stoppa og þar er sálrænn þröskuldur sem þarf að yfirvinna. Það væri hægt að festa upptökuvél á hjólið, sem tekur kvikmyndir. Það þarf nefnilega að fanga með einhverjum hætti það sem fyrir augu ber og upplifunina að hjóla hér í bænum.

Annars lærði Birna Kristín, yngri stelpan mín, að hjóla í gær. Ekkert smá ánægð með það en hún komst að því í morgun að hún er með óteljandi marbletti á fótleggjunum.

No comments:

Post a Comment