Thursday, September 24, 2009

23. september og hundur í bandi

Ég hjólaði jú bara aðra leiðina í dag, þ.e. heim, þar sem ég hjólaði bara til vinnu á þriðjudaginn. Það var vinnutengt.
Veður: Það var æði fátt markvert, einhvernveginn verður veðrið svo jafnágætt þegar maður hjólar. Þó það rigni eða blási þá er það eitthvað svo óverulegt a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu. Enda verður að segja eins og er að trjágróður sem skjól og hjólreiðar fara ágætlega saman. Þessi stígur meðfram Álfabakka er gott vitni um það.

Öryggi: Eitt það hættulegast á stígum sem ætlaðir eru fyrir hjólreiðar og gangandi fólk eru hundar. Hvort sem þeir eru í bandi eða ekki. Ef þeir eru ekki í bandi geta þeir einfaldlega hlaupið fyrir hjólið en á því er minni hætta. Ef þeir eru hins vegar í bandi, sérstaklega þessari gerð sem hægt er að lengja í nokkra metra, þá er eins víst að þeir hlaupi þvert yfir stíginn og maður hjóli á bandið. Það getur orðið allsherjar flækja. Ég lenti á eftir einum hundaeiganda í gær, konu með svartan hund. Konan hélt sig vinstra megin á stígnum svo ég ætlaði að dóla mér fram úr hægra megin, bæði í ósamræmi við gildandi umferðarreglur. Þá tekur hundurinn, í bandi, á rás frá eiganda sínum, þvert yfir stíginn. Ég tók það ráð að sveiga langt út fyrir stíginn, upp í hljóðmön eina all bratta, framhjá hundi og konu. Gat síðan haldið áfram og allir óskaddaðir.
Mér finnst þetta að mestu leyti mér að kenna en hættan er engu að síður fyrir hendi.

No comments:

Post a Comment