Tuesday, October 13, 2009

13. október og Kópavogsdalurinn

Veður: Bara snilld, hægur vindur og örugglega 6 stiga hiti, nú eða 8 eins og stendur á heimasíðu Veðurstofunnar. Hjólaði m.a.s. Kársnesið og Kópavogsdalinn heim í blíðskaparveðri, en sú leið er annars mjög opin fyrir vindi úr öllum áttum.
Öryggi: Sumir morgnar eru þannig að maður hittir á nánast dauðan tímapunkt í umferðinni. Það munar geysilega miklu. Ég fer oft af stað um kl. 8 og þá er áttatraffíkin búin og níutraffíkin ekki byrjuð. Þannig getur maður hjólað götur meira, sem þýðir oft hraðari för.
Ég tók nokkrar myndir á bakaleiðinni um Fossvog, Kársnes og Kópavogsdalinn. Kársnesið er skemmtileg leið og Kópavogsdalurinn líka, en þar er ruglingslegasta stígakerfi á höfuðborgarsvæðinu og þó víðar væri leitað.
Upplifun: Meðfram Suðurlandsbrautinni berst á einum stað að vitum manns ilmur af nýbökuðu bakkelsi. Þetta ærir mann eins og syngjandi tröllskessa. Ég hef ekki látið undan freistingunni enn. Ströndin við Kársnes er skemmtilegt umhverfi til að hjóla í, nema þegar er rok.

No comments:

Post a Comment