Friday, October 29, 2010

29. október

Í dag er síðasti dagurinn sem ég hjóla til vinnu í október. Þetta er fallegur dagur og veður gott.
Ég man ekki alveg hvað ég var að hugsa á leiðinni en það er nú frekar algengt. Hins vegar brýt ég stundum um það heilann hvort ég sé í raun annars hugar þegar ég hjóla vegna eigin vangaveltna. Því oft kemur eitthvað upp í hugann þegar hjólað er, ekki síst ef maður hjólar oft sömu leið. En það er held ég ekki svo því ég spái mikið í smáatriði á leiðinni, hvort þessi pollur er frosinn þennan morguninn, hvort kanínurnar eru nú vaknaðar og hvort ég nái nú þessum ljósum eða ekki.
Talandi um vindhraða þá er athyglisvert að skoða vindhraðagögn fyrir árið hingað til sem sést á myndinni að neðan. Almenna trendið er að vindurinn er að meðaltali mestur í janúar og lægir fram á vorið. Í ár var meðalvindhraði minnstur í ágúst. Október kemur síðan betur út en september og þá er vindur seinnipartinn svipaðar og á morgnana. Mín tilfinning síðasta vetur var að það væri sífellt mótvindur á leiðinni heim. Málið er kannski að þá var líka meiri vindur.
Ef við skoðum mun á meðalhraða eftir því hvort mótvindur er eða ekki þá munar nokkru á hraðanum eftir því hvort mótvindur er eða ekki en hann er ótrúlega lítill eins og sést á myndinni að neðan (y ásinn er hraði í km/klst). Í ágúst var vindur mjög lítill og því meira komið undir dagsformi en öðru hver hraðinn er. Munurinn er mestur í febrúar og apríl.

Thursday, October 28, 2010

28. október

Ég var enn og aftur að hugsa um hvernig mismunandi ferðamátar fléttast saman á leiðinni í morgun. Á einföldum gangstígum er gangandi fólk og hjólandi. Fólk með hunda í bandi, börn, framhaldsskólanemar í hóp, hjólanördar að flýta sér og allt þar á milli. Á stígum þar sem hjólrein er aðgreind frá gangandi umferð er allur gangur á því hvort fólk heldur sig réttu megin, það á við um hjólandi, gangandi og hlaupandi. Hjólreiðamenn fara að öllu jöfnu hraðar en gangandi og því er mikið um framúrakstur. Vegna þess að hjólin eru nánast hljóðlaus þá er alls óvíst að þeir sem hjólað er fram úr séu meðvitaðir um tilvist þess sem fer fram úr.
Á götunni er bíllinn mjög ráðandi en nokkrir hjóla mikið á götum. Það er hins vegar allur gangur á hvernig þessi blöndun gengur. Margir bílstjórar sýna mikla tillitssemi en sumir missa þolinmæðina og reyna framúrakstur á slæmum stöðum, flauta eða hreyta hrakyrðum í hjólandi vegfarendur. Þeir sem hjóla eru sumir mjög illa búnir m.t.t. sýnileika, hvorki með endurskinsmerki eða ljós.
Ég hef stundum litið svo á að með því að vera mikið á ferðinni á hjóli og með því að haga mér þokkalega, vera vel sýnilegur, nota bjöllu, halda mig á hjólarein þar sem hún er en annars hægra megin þá stuðli maður að betri blöndun mismunandi ferðamáta. T.d. held ég að á hverjum degi veki ég einhvern til umhugsunar um að það séu aðrir ferðamátar. Það tekur t.d. tíma að átta sig á því hvernig ljós á reiðhjóli sjást í rökkri. Þau eru yfirleitt bjartari en bílljós, hreyfast hægt (m.v. bílljós) en það er hægt að rugla þeim saman við götulýsingu. Sama gildir um afturljós á reiðhjóli. Þegar ég þvera götu þá lærir kannski einhver bílstjórinn að stoppa bílinn ekki á þveruninni, heldur aftan við hana o.s.frv.
Blöndunin er held ég af hinu góða en hún krefst þess að allir vegfarendur séu þokkalega með á nótunum, fylgi þeim reglum sem eru í gildi og hagi sér eins og siðað fólk. Alger aðgreining ferðamáta er hins vegar hin einfalda lausn.

Sá þessa fallegu umfjöllun um hjólreiðamenn áðan í tengslum við óvísindalega könnun á notkun á hjólareinum í New York:
"There's a tendency to talk about people who ride bikes as though they're a lawless bunch of yahoos. This study is a breath of fresh air in showing that no, they are simply, like all other people, responding to an environment that doesn't always serve their needs. When you're driving, the extra space a bike lane offers is a matter of mobility and convenience; if you're riding a bike, it's a matter of being seen and staying alive.
People run red lights on bikes not out of wanton disrespect for the world's moral order, but because when you're riding in a sea of cars occupied by people who probably don't notice or care about your existence, you're much safer getting as far ahead as possible."

Wednesday, October 27, 2010

27. október

Fyrsta hálkan í morgun og hún var allsstaðar. Ég er enn á sumardekkjum og þræddi gangstéttar og stíga þar sem er meiri stemma. Mér leist reyndar ekki á blikuna, nýlagður af stað þegar afturbremsan datt úr sambandi. Ég hélt hún væri slitin en hún hafði bara losnað svo málið leystist auðveldlega. En virðist vera einhver sólbráð í kortunum svo ég reyni að geyma dekkjaskipti fram á helgina ef ég get. Það er svo leiðinlegt að hjóla mikið á auðu á nöglum.

Tuesday, October 26, 2010

26. október

Heimleiðin í gær var svosem ekki mjög slæm. Ég valdi leiðir þar sem trjágróður er í næsta umhverfi og þræddi stíga þar sem sló aðeins í vindinn. Þetta var heldur ekki nema 11 m/s. Það er bara nánast regla að veðrið er betra þegar í það er komið en maður heldur.
Ég var frekar seinn fyrir í morgun og það var lítil umferð hjólandi fólks. Veður var hins vegar milt og rakt og bara notalegt til að hjóla.

Monday, October 25, 2010

25. október

Það spáir hvössu í dag en morguninn var ekki mjög slæmur enda að stórum hluta meðvindur. Gæti orðið erfiðara á heimleiðinni. Kanínurnar hafa safnast saman og það var nánast örtröð yfir stíginn svo ég þurfti að hægja á.
Annars velti ég fyrir mér á leiðinni hvort kemur á undan, að margir hjóli dags daglega, sem leiði til góðrar þjónustu við hjólreiðamenn eða hvort góð þjónusta við hjólreiðamenn leiði til þess að margir hjóli?
Ég var bara að velta þessu fyrir mér því það er vafalítið snjór á næsta leiti og miðað við þjónustuna síðustu ár þá hafa hjólreiðastígar mætt afgangi í snjómokstri. Það er nefnilega svo einfalt að ef stígarnir eru ruddir nógu snemma á morgnana þá er mjög lítið mál að hjóla.

Thursday, October 21, 2010

21. október

Það var ansi svalt í morgun. Ég keypti mér vettlinga í gær í Everest. Spurðist fyrir um góða vettlinga á hjólið í kuldanum. Ekki spurning hvaða vettlinga ætti að nota að mati afgreiðslufólks og það sem betra var, þeir voru ekki fáránlega dýrir. Þeir stóðu hins vegar engan veginn undir væntingum í morgun og mér var ískalt á puttunum. Hvað gerir maður þá? Ég get sjálfum mér um kennt en góðir hjólavettlingar kosta orðið 9 þús kall. Ætti ég að kvarta við Everest. Sennilega. En ólíklegt að ég beri nokkuð úr býtum.
Annars lenti ég nánast í árekstri við annan hjólreiðamann í gær. Á mjög dæmigerðum stað í beygju við undirgöng við Sprengisand. Mér tókst að beygja framhjá honum en hann datt í götuna og var aumur í úlnlið á eftir. Hér má sjá hvernig aðstæður eru við svona undirgöng, þessi göng eru við hliðina: http://picasaweb.google.com/barkarson/Hjoladagbok#5382174533393454098 Yfirleitt eru stígarnir hannaðir þannig að það er vinkilbeygja inn í undirgöngin og því undantekningalítið um blindbeygjur að ræða. Þó maður sé á lítilli ferð þá er alltaf hætta á að annar hvor sé of innarlega í beygjunni. Þetta mætti leysa með leiðbeinandi merkingum eða aðvörunum.
Ég setti aukaljós aftaná hjá mér svo ég sjáist betur á götunni. Margir hjólreiðamenn eru með lítið ljós sem festist niður við afturöxulinn. Þau eru mjög léleg og sjást illa. Staðsetja þarf ljósin ofar, nálægt hnakknum.

Wednesday, October 20, 2010

20. október

Veðrið kom mér í opna skjöldu í morgun. Blíðviðri og yfir frostmarki.
Ég sá í fréttum í gær að Reykjavíkurborg hefur áhuga á samfelldum stíg meðfram ströndinni. Tvö atriði varðandi það: Í fyrsta lagi þá er stígur víða meðfram ströndinni, reyndar ekki sérstakur hjólastígur nema á smá kafla. Tengingar á milli kafla eru hins vegar ömurlegar eins og frá Ægissíðu vestur á Seltjarnarnes og frá Granda vestur á Sæbraut. Svo má líka nefna Sæbraut austan Laugarness.
Einnig gæti þetta verið mjög góð byrjun á samstarfi sveitarfélaga varðandi þennan samgöngumáta.
Hins vegar finnst mér eiginlega liggja meira á almennilegum stofnbrautum hjólreiða á helstu samgönguleiðum og þá þvert á sveitarfélagamörk.

Tuesday, October 19, 2010

19. október

Fyrsti frostmorguninn en engin hálka nema nokkrir pollar sem höfðu breyst í fast form. Það er vel bærilegt að hjóla í 20 mínútur í smá frosti ef maður kemst svo í sturtu og fær kaffibolla í kjölfarið. Hins vegar vill vera í manni hrollur fram eftir degi. Maður verður hins vegar mjög meðvitaður um veðrið með tímanum og tekur veðurfréttir, gáir til veðurs á morgnana og reynir að klæða sig að einhverju leyti samkvæmt því. Of mikið af fötum er hins vegar álíka slæmt og of lítið.

Monday, October 18, 2010

18. október

Október er búinn að vera mjög óstabíll hjá mér hingað til. Nú er haustið komið í alvöru, snjór í Esjunni og kanínurnar híma. Það má reikna með hálku næstu morgna en kannski ekki nema á lægstu punktum. Umhverfið er allt frekar blautt svo skilyrði fyrir hálkumyndun eru mjög góð. Helst vill maður þó geyma að setja nagladekk undir fyrr en um miðjan nóvember.

Tuesday, October 12, 2010

12. október

Jæja loksins kominn aftur á hjól. Nánast viku hlé vegna veikinda, helgar og foreldraviðtala. Enda var skrokkurinn vel út hvíldur en aðeins ryðgaður í gang í morgun. Það verður sífellt skuggsýnna á morgnana og dóttir mín benti mér á að hún þyrfti ljós eins og ég er með. Hún hjólar flesta daga í skólann. Ég er mjög sáttur við það.
Kannski, og bara kannski, hefur maður einhver áhrif á börnin með því að vera duglegur að hjóla. Þau sjá að þetta er ein leið til að ferðast milli staða og kannski bara ágætur ferðamáti. Það eru ein góð rök með því að hjóla mikið.

Tuesday, October 5, 2010

5. október

Ég get því miður ekki stært mig af því að hafa mótmælt við Alþingishúsið í gær. Ærin ástæða til.

Hjólaði þess í stað heim í gær.
Morguninn var síðan barátta við mótvind. Hvassa norðanátt, sem þó var ekki mjög köld. Eiginlega ótrúlega hlý miðað við árstíma.

Friday, October 1, 2010

1. október

Allt í einu kominn október og strax dimmara á morgnana. Það var einhver þreyta í lærunum á mér í morgun svo ég tók því rólega á leiðinni niðureftir. Það var líka mótvindur hluta af leiðinni.