Monday, September 19, 2011

19. september

Nú er búið að malbika við Sprengisand, þennan fína stíg með ljósastaurum. Þarna fór saman eini malarkaflinn a.m.k. á minni leið og auk þess óupplýstur. En úr þessu er sumsé verið að bæta.

Thursday, September 8, 2011

8. september

Haustkuldinn, versti óvinur hjólreiðamannsins, er kominn. Fjórar gráður í morgun og Norðan 8. Það fer ekki vel saman.
Nú stendur fyrir dyrum mikil hjólaráðstefna í tilefni af samgönguviku á vegum LHM og Hjólafærni á Íslandi. Hjólað til framtíðar. Gott framtak. Flott að fá erlenda fyrirlesara í hina íslensku umræðu. Ég get svosem gagnrýnt hvað dagskráin er þétt og mörg erindi en það þarf að koma miklu að. Auk þess er hún allan daginn, sem dregur úr líkum á að fólk sjái sér fært að mæta. Alltaf jákvæður.
En það er gaman að finna hversu margir láta allt tal um slæmar aðstæður til hjólaiðkunar eins og vind um eyru þjóta og hjóla bara eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Thursday, August 11, 2011

11. ágúst 2011

Það hefur orðið gríðarleg fjölgun hjólreiðamanna síðasta árið. Þetta má væntanlega að miklu leyti rekja til hækkana á eldsneyti. Þessi fjölgun þrýstir væntanlega eitthvað á samgönguyfirvöld, bæjarfélög og ríki, að bæta aðstöðu hjólreiðafólks. Bætt aðstaða snýst í meginatriðum um tvennt, að auka öryggi og greiðfærni á hjólaleiðum. Öryggi snýr þá að öllum vegfarendum, ekki síst gangandi fólki sem er í talsverðri hættu vegna hjólandi fólks, en einnig að hjólandi fólki gagnvart bílum. Greiðfærni snýst ekki síst um forgang hjólandi umferðar gagnvart bílaumferð, vali á leiðum (stofnleiðir og tengileiðir), hönnun hjólavega og þjónustu á þeim. Nú er best að tala bara um hjólavegi en ekki hjólastíga.
Einnig þarf að taka afstöðu til nýrra farartækja í umferðinni s.s. rafmangsvespa og rafmagnsreiðhjóla sem í einhverjum bjóða upp á meiri hraða en hefðbundin reiðhjól.
Nú styttist í haustið og þá dregur aftur úr umferð hjólandi en á næsta ári dregur vonandi til tíðinda því lítið hefur gerst í ár annað en að þrýstingur á kerfið eykst.

Thursday, June 30, 2011

30. júní

Bloggið er nú eiginlega búið að vera hjá mér. Ég er hins vegar búinn að vera nokkuð duglegur að hjóla í júní þetta vorið, enda kominn í fulla vinnu, búinn með allt fæðingarorlof. Það er búið að vera ótrúlega kalt loft í mánuðinum, þrátt fyrir fallegt veður og sól. En hjólaumferðin er líka búin að vera talsverð og umferðarreglur skipta sífellt meira máli á stígunum. Það er afar mismunandi hvað fólk tekur umferðarreglur alvarlega við þessar aðstæður. Staðsetning á stígnum, hægri regla, hjólandi vs. gangandi, o.s.frv. Stundum verður hálfgert kaos. Annars er þetta besti ferðamátinn 9-10 mánuði á ári.

Friday, May 27, 2011

27. maí

Það er aftur komið vor. Hjólaferðin í morgun var bara mjög ánægjuleg m.t.t. veðurs og vorilmur í lofti. Ég hef velt því fyrir mér hversu miklu mjög góðar hjólareinar breyta varðandi ferðatíma og öryggi hjá þeim sem stunda samgönguhjólreiðar. Ég veit það sjálfur að ég er mun fljótari í ferðum ef ég hjóla á götum, nema ef ég hitti afar illa á umferðarljós. Sem dæmi tekið þá hef ég verið allt að 35 mínútur á leiðinni heim úr vinnu í slæmri færð og allt niður í rúma 21 mínútu. Þarna munar 14 mínútum eða yfir 60% í ferðatíma. Þetta hins vegar þýðir að þegar best gerist þá er ferðahraði mjög mikill og hentar alls ekki á stígum með blandaðri umferð m.t.t. öryggis. Ef meðal ferðahraði á hjóli er 25-30 km/klst þá er maður kannski ekki í takt við hægari umferð.

Monday, May 9, 2011

9. maí

Verð að benda á þessa tilraun Reykjavíkurborgar þar sem hægt er að færa inn hjólaleiðir og s.k. vápunkta:


Monday, May 2, 2011

2. maí

Það var slabb á fáfarnari stígum í morgun. Annars var færið bara þokkalegt. Ég sá ekki hjólreiðamann fyrr en á brúnni yfir Miklubraut, hélt að hjólaumferðin væri orðin meiri en þetta.
Ég ræddi við frænda minn í gær um rafmagnsreiðhjólin sem eru að koma sterk inn. Þessi tæki fara þokkalega greitt yfir og það á frekar slökum göngu-/hjólastígum. Ég er ekki sannfærður um að þetta sé heppilegt og kannski kristallar enn frekar þörfina á sérstökum hjólareinum. Slysin á þessum leiðum eru afar illa kortlögð og enginn hefur yfirsýn yfir fjölda hjólreiðaslysa á hjólastígunum. Þetta er afleitt. En Rannsóknanefnd umferðarslysa fékk víst styrk frá Vegagerðinni til að vinna slíka úttekt. Vonandi að það gangi eftir og skili sér síðan inn í hjólreiðaáætlun höfuðborgarsvæðisins.