Wednesday, April 3, 2013

3. apríl

Nú er hjólaleiðin Blásalir - Skuggasund orðin nokkuð mótuð. Ég fylgi áður þekktri leið gegnum Seljahverfi og Mjódd, niður í Elliðaárdal og undir Reykjanesbraut við Sprengisand. Svo liggur leiðin meðfram Suðurlandsbraut að norðanverðu og síðan Laugavegi. Þá taka málin að flækjast örlítið en þegar kemur niður í 101 þá eykst tíðni umferðarljósa og einstefnugatna verulega. Þá reynir á hvort löghlýðni eða skilvirkni vegur þyngra. Ég hjóla síðan Hverfisgötuna alveg vestur á Klapparstíg. Það verður að segjast eins og er að Hverfisgata er orðin heldur þreytt. En mér sýnist þetta vera fljótlegasta leiðin. Er ekki búinn að mæla þetta með óyggjandi hætti en geri ráð fyrir að þetta séu um 10 km. Ferðatíminn er sennilega um 25-30 mín.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er ekki langt komið í þjónustu við hjólandi starfsmenn. Hér er afar döpur aðstaða til að geyma hjólin úti, eingöngu gjarðabanar og því best að festa hjólið við næsta ljósastaur, sem eru reyndar ekki margir. En hér er alveg þokkaleg sturtuaðstaða. Mættu vera skápar til að geyma í föt og slíkt. Mér skilst að hér sé styrkur í boði fyrir þá sem hjóla vegna rekstrarkostnaðar en að hann sé ekki greiddur út fyrr en eftir ár. Þess má geta að ráðuneytið kaupir strætókort fyrir starfsmenn sem nýta þann samgöngumáta strax en ekki eftirá. Gott að halda þessu til haga.

No comments:

Post a Comment