Thursday, January 3, 2013

3. janúar 2013

Staða hraðamælis um áramót er 8430 km. Síðustu áramót var mælirinn í 5750 km. Það þýðir að ég hef hjólað um 2700 km á síðasta ári. Það er ekki alveg 3000 km markmiðið sem ég setti en svona allt í allt eru þetta um 300 ferðir eða um 150 dagar. Það er kannski viðunandi ástundun?

Tuesday, October 30, 2012

28. október

Nagladekkin sett undir. Það er aldrei fagnaðarefni, talsvert erfiðara að hjóla, en öryggisins vegna þori ég ekki að vera lengur ónegldur.

Monday, October 1, 2012

1. október 2012

Þennan síðasta ársfjórðung, júlí-september hjólaði ég 540 km.

Wednesday, September 26, 2012

20. ágúst 2012

Vegna þrálátra veikinda framdekksins sem lýsti sér í loftleysi ákvað ég að segja skilið við téð dekk og fékk mér mjórra og mynstraðra dekk í Útilíf. Það kostaði nú ekki nema um 8000 kr.

21. september - Hjólað til framtíðar

Ég tók þátt í skemmtilegri ráðstefnu föstudaginn 21. september, Hjólað til framtíðar. Hér er tengill inn á dagskrána og glærur fyrirlesara.
Sjálfur var ég með erindi sem bar heitið: Hjólað til og frá vinnu: Vísindaleg reynslusaga með ögn af tilfinningasemi. Glærurnar eru hér

Monday, September 3, 2012

3. september 2012

Talsvert rok í morgun en Veðurstofan segir samt ekki nema 6 m/s kl. 8 í morgun. 13 m/s í hviðum. En í þessari vindátt, suðaustan, er létt fyrir mig að hjóla til vinnu. Þetta er svona hauststemning.

Friday, August 24, 2012

24. ágúst 2012

Svona til gamans þá prófaði ég að taka betur á með klitspedulunum á leiðinni í vinnuna og það er ljóst að þeir gefa mikla möguleika. Með því að toga pedalana líka upp heldur maður miklu betur ferð, sérstaklega uppímóti. Samkvæmt hraðamælinum mínum hélt ég 27,8 km/klst hraða á leiðinni hérna niðureftir og þá munar miklu að geta haldið hraða upp brekkur á leiðinni. Ég þarf síðan að prófa þetta betur á heimleiðinni.

Ég verð bara að blogga um frétt á heimasíðu Kópavogsbæjar frá 20.8. sl. um að gera eigi endurbætur á hjólastíg frá Borgarholtsbraut niður í Kópavogsdalinn. Þarna er ein mest hjólaða leiðin á höfuðborgarsvæðinu, lykilleið fyrir þá sem hjóla milli Reykjavíkur og Garðarbæjar eða Hafnarfjarðar. En þessi leið er afar óhentug sem hjólaleið vegna mikillar hækkunar, sennilega um 40 m hækkun. Bílar aka um Gjánna, sem liggur talsvert lægra. Af hverju er ekki gerð hjólaleið í gegnum Gjánna?