Friday, September 17, 2010

17. september

Á þessum tíma verður maður að endurskoða hjólaklæðnaðinn. Eitt til tvö buff eða lambhúshetta fer að verða nauðsynleg, a.m.k. á morgnana. Vettlingar, helst vindheldir og mjúkir. Svo er gott að vera í ullarbol næst sér og einhverju léttu og vindheldu utanyfir. Svo eru s.k. windstopper jakkar ágætir að hjóla í en þá má ekki vera í þykku innanundir þeim. Buxurnar eru svo kapítuli út af fyrir sig. Ég keypti mér fljótlega hjólabuxur, bæði stuttar og síðar. Þegar haustar er ég í hvorutveggja. Þegar síðan kólnar meira þá er nóg að fara í vindheldar buxur utanyfir og þá er maður seif.
Val á skóm eru ekki mikil vísindi en það eru kannski frekar sokkarnir sem þarf að huga að. Það er hins vegar erfitt að komast hjá því að vera kalt á tánum þegar hiti er kominn niður undir frostmark.

Bara svo það sé bókað þá skipti ég um keðju og afturkrans á hjólinu. Það má áætla að það sé eftir vel rúmlega hjólaða 5000 km. Ég hef ekki hugmynd um hvað er eðlileg ending í þessu. En svona varahlutir kosta um 12 þús.

Thursday, September 16, 2010

16. september

Það slitnaði keðjan á hjólinu mínu en ég fékk lánað hjól í vinnunni. Fjallahjól með breiðum dekkjum og dempara að framan sem ekki er hægt að læsa. Það var talsvert þyngra að hjóla á því en mínu hjóli. En ágætis átök.
Það er talsvert um glerbrot á stígunum og að sópa stígana er ekki eitthvað sem gert er mjög reglulega nema að vori til þegar sandinum er sópað burt eftir veturinn. Úr þessu mætti vel bæta.

Tuesday, September 14, 2010

14. september

Nú er komið enn meira haust í þetta. Kemur þessi fína norðanátt seinnipartinn. En það er hluti af tilverunni.

Friday, September 10, 2010

10. september

Ég braut afturskiptinn á hjólinu á heimleið í gær. Teymdi það í Markið og skildi eftir. Tók strætó í gær og í morgun.
En nú er það hjólakortið. Ég er að pæla í að flokka hjólaleiðir eða kafla eftir "gæðum". Gæðinn eru afstæð því það er misjafnt hvað hentar hverjum og einum. En þrír einfaldir flokkar segja þónokkra sögu. Grænar leiðir eru greiðir stígar, tiltölulega öruggir. Bláar leiðir eru ekki eins greiðir stígar, t.d. fleiri þveranir, blindbeygjur og slíkt, eitthvað af götum og eitthvað af gangstéttum (sem eru oft stórhættulegar), ekki eins öruggt. Rauðar leiðir eru svo þar sem engar hjólaleiðir eru skilgreindar, bara gangstétt og/eða gata, óöruggt.
Ég er kominn með nokkrar leiðir þarna inn og setti líka ljósmyndir sem ég hef tekið. Þetta er hægt að skoða hér.

Thursday, September 9, 2010

9. september

Þrátt fyrir að veðrið sé mjög gott, milt og þægilegt þá sýnist mér að haustvindarnir séu að grípa inn í annars vindlítið sumar. Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd sem sýnir meðalvindhraða á mínum ferðum það sem af er árinu. Reyndar eru ekki margir dagar á bakvið tölfræðina fyrir september. En ég held þetta gefi almennt vísbendingar um þróunina fyrir árið. Það er líka athyglisvert að hér er yfirleitt meiri vindur seinnipart dags, nema reyndar í júlí. Vindurinn er sennilega sá umhverfisþáttur sem hefur hvað mest áhrif á hjólandi fólk og því gott að þekkja til helstu einkenna vindsins á sínum heimaslóðum. T.d. eru ríkjandi vindáttir mikilvæg stærð í hönnun hjólaleiða og hugsanlega hönnun skjóls í tengslum við það. Þar kemur trjágróður sterkur inn.

Wednesday, September 8, 2010

8. september

Í gær hjólaði ég leiðina meðfram Reykjanesbraut í Smiðjuhverfinu í Kópavogi. Þar er nýr stígur sem tengist undirgöngum undir Breiðholtsbraut (sjá hér).
Þetta er ágætt skref en það vantar að gera þverun Smiðjuvegar aðgengilega. Þar eru mjög háir kantsteinar og talsverð umferð. Úr því þarf að bæta.
Haustið byrjar hins vegar mjög vel hvað veður snertir, hlýtt og lítill vindur.

Tuesday, September 7, 2010

7. september

Ljósin komin á og haustvindurinn blæs. Það er sjálfsagt að setja upp öll öryggistæki núna, nema nagladekkin. Þau koma seinna.
Það kom fram í Fréttablaðinu í morgun að sala á allskyns dóti til hjólreiða, sérstaklega fylgihlutum ýmisskonar, hafi aukist um 30-40% á síðustu árum. Þetta eru t.d. töskur og bögglaberar. Fólk notar svoleiðis annaðhvort til hjólaferða eða samgönguhjólreiða.
Ég var að rýna hjólaleiðir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar í gær. Það vantar sárlega góðar tengingar á milli sveitarfélaganna, einkum með það fyrir augum að mynda góðar stofnbrautir. Það er ein slík samsíða Hafnarfjarðarvegi, sem þó mætti bæta talsvert á köflum. Það vantar hins vegar góða tengingu meðfram Reykjanesbrautinni, sem þræðir meðfram hæðunum í Kópavogi og Garðabæ en ekki uppá þær. Litlar hæðarbreytingar eru einn af lykilþáttum góðra hjólaleiða. Reyndar benti vinnufélagi minn mér á að það væri stígur meðfram Reykjanesbraut til móts við Mjóddina, Kópavogsmegin. Það vantar samt að greiða leiðina yfir Smiðjuveg. Sömuleiðis lenti hann í vandræðum með að komast áfram í gegnum Garðabæ, suður í Hafnarfjörð.